Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Er dulspeki saklaus skemmtun?

Er dulspeki saklaus skemmtun?

 Hvað heldur þú?

  •   Getur verið hættulegt að lesa stjörnuspár eða að fara í andaglas eða til miðils?

  •   Eru sögur með dulspeki bara táknmynd um hið góða og hið illa eða býr eitthvað meira að baki?

 Þessi grein útskýrir hvers vegna dulspeki getur virst spennandi og hvers vegna þú þarft að gæta þín.

 Hvers vegna getur hún virst spennandi?

 Skemmtanaiðnaðurinn hefur hagnast mikið á dulspeki, en hún er áberandi í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, tölvuleikjum og bókum. Þar af leiðandi hefur margt ungt fólk fengið áhuga á efni eins og stjörnuspeki, djöflum, vampírum og göldrum. Hvers vegna? Það gæti verið af eftirfarandi ástæðum:

  •   Forvitni: Það vill vita hvort andaheimur sé til í alvörunni.

  •   Áhyggjur: Það reynir að finna út hvað gerist í framtíðinni.

  •   Söknuður: Það reynir að hafa samband við látinn ástvin.

 Þessar ástæður eru ekki rangar í sjálfu sér. Það er til dæmis bara eðlilegt að velta framtíðinni fyrir sér og að sakna ástvinar sem hefur dáið. En þú verður að vera vakandi fyrir vissum hættum.

 Hvers vegna þarftu að gæta þín?

 Biblían varar sterklega við öllu sem tengist dulspeki. Hún segir til dæmis:

 „Á meðal ykkar má enginn finnast sem ... leitar goðsvara með hlutkesti, enginn sem les óorðna atburði úr skýjum eða úr bikar, enginn galdramaður, enginn sem fer með særingar, leitar ráða hjá öndum eða spásagnarmönnum, enginn sem leitar úrskurðar hjá framliðnum. Því að hver sem stundar þetta er Drottni viðurstyggð.“ – 5. Mósebók 18:10–12.

 Hvers vegna fordæmir Biblían dulspeki?

  •   Dulspeki ýtir undir samband við illa anda. Í Biblíunni segir að sumir englar hafi gert uppreisn gegn Guði og gert sig þar af leiðandi að óvinum hans. (1. Mósebók 6:2; Júdasarbréfið 6) Þessir illu englar, eða svokallaðir djöflar, blekkja fólk fyrir milligöngu miðla, spákvenna eða galdramanna og annarra sem fara með spár eða nota stjörnuspeki. Ef við iðkum slíkt gerum við okkur einnig að óvinum Guðs.

  •   Dulspeki ýtir undir þá lygi að sumt fólk geti spáð fyrir um framtíðina. En aðeins Guð getur sagt: „Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það sem eigi var enn fram komið.“ – Jesaja 46:10; Jakobsbréfið 4:13, 14.

  •   Dulspeki ýtir undir þá lygi að hinir dánu geti haft samband við þá sem eru lifandi. En í Biblíunni segir: „Hinir dauðu vita ekki neitt.“ Hún segir líka að í gröfinni ,sé hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska‘. – Prédikarinn 9:5, 10.

 Af þessum ástæðum forðast vottar Jehóva allt sem tengist dulspeki. Þeir velja sér heldur ekki skemmtiefni um uppvakninga, vampírur og hið yfirnáttúrulega. „Ef það inniheldur dulspeki í einhverri mynd,“ segir ung kona sem heitir Maria, „þá horfi ég ekki á það.“ a

Illir andar þykjast vera látnir ástvinir þínir, rétt eins og glæpamaður reynir að fá þig til að halda að hann sé einhver annar en hann er.

 Það sem þú getur gert

  •   Vertu staðráðinn í að ,hafa hreina samvisku‘ frammi fyrir Jehóva með því að halda þig frá öllu sem tengist dulspeki. – Postulasagan 24:16.

  •   Ef þú átt eitthvað sem tengist dulspeki skaltu losa þig við það. Lestu Postulasöguna 19:19, 20 og taktu eftir því góða fordæmi sem kristnir menn á fyrstu öld settu.

 Mundu að þegar þú sniðgengur dulspeki í hvaða mynd sem er sýnirðu að þú tekur afstöðu með Jehóva. Og það gleður hann. – Orðskviðirnir 27:11.

a Þetta merkir ekki að allar fantasíur og ævintýri hafi að geyma dulspeki. En við þurfum að nota biblíufrædda samvisku okkar til að forðast allt afþreyingarefni sem gerir það. – 2. Korintubréf 6:17; Hebreabréfið 5:14.