Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvernig get ég forðast neikvæðar hugsanir?

Hvernig get ég forðast neikvæðar hugsanir?

 Hvernig sérðu sjálfan þig?

  •   Bjartsýnn

     „Ég reyni að vera eins ánægð og afslöppuð og ég get. Af hverju ætti ég ekki að vera glöð og brosandi á hverjum degi?“ – Valerie.

  •   Svartsýnn

     „Þegar eitthvað jákvætt gerist hugsa ég alltaf að það geti ekki verið – að það sé of gott til að vera satt eða að það sé misskilningur.“ – Rebecca.

  •   Raunsær

     „Að vera bjartsýnn er ávísun á vonbrigði og að vera svartsýnn er ömurleg leið til að lifa lífinu. Að vera raunsæ hjálpar mér að sjá hlutina eins og þeir eru.“ – Anna.

 Hvers vegna skiptir það máli?

 Í Biblíunni segir: „Sá sem vel liggur á er sífellt í veislu.“ (Orðskviðirnir 15:15) Það er greinilegt að fólk sem forðast óþarfa neikvæðar hugsanir og lítur lífið jákvæðum augum er oftast ánægðara. Það er einnig líklegra til að eignast fleiri vini. Hver vill umgangast þá sem eru alltaf leiðir og neikvæðir?

 En þó að þú sért jákvæður þarftu að takast á við ýmislegt. Tökum dæmi:

  •   Þú heyrir stöðugt fréttir um stríð, hryðjuverk og glæpi.

  •   Þú getur þurft að glíma við vandamál í fjölskyldunni.

  •   Þú þarft án efa að takast á við eigin veikleika og galla.

  •   Vinur þinn gæti hafa sært þig.

 Í stað þess að loka augunum fyrir þessum vandamálum – eða einblína of mikið á þau svo að þér líði illa – skaltu reyna að finna jafnvægi. Raunsæi hjálpar þér að forðast of neikvæðar hugsanir og sætta þig við lífið eins og það er án þess að verða mjög niðurdreginn.

Þú getur tekist á við storma lífsins fullviss um að sólin muni skína á ný.

 Það sem þú getur gert

  •   Sjáðu galla þína í réttu ljósi.

     Í Biblíunni segir: „Enginn réttlátur maður er til á jörðinni sem gert hefur gott eitt og aldrei syndgað.“ (Prédikarinn 7:20) Að þú hafir galla og gerir mistök sýnir að þú ert mannlegur en ekki að þú sért misheppnaður.

     Hvernig geturðu verið raunsær? Reyndu að vinna í göllum þínum en ekki ætlast til fullkomleika af þér. „Ég forðast að hugsa lengi um mistök mín,“ segir ungur maður sem heitir Caleb. „Ég reyni frekar að læra af þeim svo að ég geti bætt mig.“

  •   Ekki bera þig saman við aðra.

     Í Biblíunni segir: „Lítum ekki of stórt á sjálf okkur þannig að við förum að keppa hvert við annað og öfunda hvert annað.“ (Galatabréfið 5:26) Þegar þú skoðar myndir á samfélagsmiðlum af viðburðum sem þér var ekki boðið á geturðu orðið sár og reiður. Það getur látið bestu vini þína líta út eins og verstu óvini þína.

     Hvernig geturðu verið raunsær? Sættu þig við að þér verður ekki boðið í öll partí. Þar að auki segja myndir á samfélagsmiðlum ekki alla söguna. „Fólk setur oftast bara myndir á samfélagsmiðla þegar það gerir eitthvað spennandi,“ segir unglingur sem heitir Alexis. „Það sleppir yfirleitt myndum af hversdagsleikanum.“

  •   Reyndu að stuðla að friði – sérstaklega í fjölskyldunni.

     Í Biblíunni segir: „Ef hægt er skuluð þið halda frið við alla menn að svo miklu leyti sem það er á ykkar valdi.“ (Rómverjabréfið 12:18) Þú getur ekki stjórnað því sem aðrir gera en þú getur stjórnað því hvernig þú bregst við. Þú getur valið að stuðla að friði.

     Hvernig geturðu verið raunsær? Vertu ákveðinn í að auka ekki á vandamál fjölskyldunnar heldur stuðla að friði, rétt eins og þú ættir að gera í öðrum samskiptum. „Enginn er fullkominn og við eigum öll eftir að móðga eða særa hvert annað af og til,“ segir unglingur sem heitir Melinda. „Við þurfum bara að ákveða hvort við ætlum að bregðast friðsamlega við eða ekki.“

  •   Ræktaðu með þér þakklæti.

     Í Biblíunni segir: ,Verið þakklát.‘ (Kólossubréfið 3:15) Að vera þakkátur hjálpar þér að einbeita þér að því góða í stað þess að einblína á það sem þú myndir vilja hafa öðruvísi.

     Hvernig geturðu verið raunsær? Vertu meðvitaður um vandamál þín en ekki loka augunum fyrir því góða í lífinu. „Á hverjum degi skrifa ég niður eitthvað jákvætt í dagbókina mína,“ segir ung kona sem heitir Rebecca. „Ég vil minna mig á að ég hef margt jákvætt að hugsa um.“

  •   Hugsaðu um hvers konar vini þú velur þér.

     Í Biblíunni segir: „Vondur félagsskapur spillir góðum venjum.“ (1. Korintubréf 15:33) Ef þeir sem þú umgengst eru gagnrýnir, kaldhæðnir eða bitrir smitastu af neikvæðni þeirra.

     Hvernig geturðu verið raunsær? Vinir ganga í gegnum erfiðleika og þeir geta orðið neikvæðir um tíma. Styddu við bakið á þeim en ekki láta vandamál þeirra hafa of mikil áhrif á þig. „Við ættum ekki bara að verja tíma með þeim sem eru neikvæðir,“ segir ung kona sem heitir Michelle. „Þegar þú leggur saman tvær mínustölur í stærðfræði færðu bara út hærri mínustölu.“

 Lestu meira um málið

 Við lifum á tímum sem Biblían segir að séu „hættulegir og erfiðir“. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Finnst þér erfitt að halda jákvæðu hugarfari í heimi þar sem ríkir svona mikil neikvæðni? Lestu „Hvers vegna leyfir Guð þjáningar?