Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvað þurfum við að vita um kynferðisofbeldi? – 2. hluti: Að ná bata

Hvað þurfum við að vita um kynferðisofbeldi? – 2. hluti: Að ná bata

 Að takast á við sektarkennd

 Margir sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi finna fyrir mikilli skömm yfir því sem gerðist. Þeim finnst þeir jafnvel eiga sök á því. Karen, sem er 19 ára núna, var misnotuð kynferðislega frá 6 til 13 ára aldurs. Hún segir: „Sektarkenndin er það versta. Ég spyr mig að því hvernig ég gat leyft misnotkuninni að halda áfram svona lengi.“

 Ef þér líður þannig vegna þess sem þú hefur lent í ættirðu að hugsa um eftirfarandi:

  •   Börn hafa hvorki líkamlegan né andlegan þroska til að stunda kynlíf. Þau skilja ekki hvað felst í því og hafa þar af leiðandi engar forsendur til að geta samþykkt það á nokkurn hátt. Það þýðir að barnaníð er aldrei barninu að kenna.

  •   Börn geta oft verið berskjölduð vegna þess að þau treysta gjarnan fullorðnum og gera sér ekki grein fyrir lúmskum aðferðum fólks sem er siðspillt. „Kynferðisafbrotamenn líta oft út fyrir að vera traustir, og börn átta sig ekki á klókum brögðum þeirra,“ segir í bókinni The Right to Innocence.

  •   Barn getur fundið fyrir kynferðislegri örvun á meðan misnotkuninni stendur. Ef þú hefur fundið fyrir því máttu vera viss um að þetta eru ósjálfráð viðbrögð líkamans þegar einhver snertir mann með ákveðnum hætti. Þetta eru ekki merki um að þú hafir samþykkt misnotkunina né að þú berir nokkra sök á henni.

 Tillaga: Hugsaðu um barn sem þú þekkir og er núna á sama aldri og þú þegar þú varðst fyrir misnotkun. Spyrðu þig: Ef þetta barn yrði misnotað væri þá sanngjarnt að segja að það bæri ábyrgð á því?

 Karen hugsaði einmitt svona þegar hún var að passa þrjú börn, en eitt þeirra var að ná sex ára aldri – sama aldri og Karen var sjálf á þegar misnotkunin hófst. Karen segir: „Ég áttaði mig á hversu berskjaldað barn er á þessum aldri – hve berskjölduð ég var á þessum aldri.“

 Staðreynd: Kynferðisafbrotamaðurinn ber ábyrgðina á misnotkuninni sem þú varðst fyrir. Í Biblíunni segir: ,Ranglæti manns skal koma niður á honum sjálfum.‘ – Esekíel 18:20.

 Það er mikilvægt að segja frá

 Það getur verið mikil hjálp í því að tala við einhvern fullorðinn sem þú treystir. Í Biblíunni stendur: „Vinur lætur aldrei af vináttu sinni, í andstreymi reynist hann sem bróðir.“ – Orðskviðirnir 17:17.

 Þú finnur kannski ákveðið öryggi í því að tala ekki um það sem hefur gerst, og það er skiljanlegt. Þögnin hefur jafnvel orðið eins og múr sem þú hefur reist til að vernda þig gegn enn meiri sársauka. En hugsaðu um það að þagnarmúrinn, sem verndar þig gegn sársauka, getur líka komið í veg fyrir að þú fáir hjálp.

Þagnarmúrinn, sem verndar þig gegn sársauka, getur líka komið í veg fyrir að þú fáir hjálp.

 Ung kona, sem heitir Janet, uppgötvaði að það var henni mikill léttir að tala um misnotkunina. Hún segir: „Ég var mjög ung þegar manneskja, sem ég þekkti og treysti, misnotaði mig, og ég þagði um það í nokkur ár. En þegar ég gat loksins fengið mig til að tala við mömmu mína um það var þungri byrði af mér létt.“

 Þegar Janet horfir til baka skilur hún vel hvers vegna sumir eru tregir til að segja frá því sem gerst hefur. „Misnotkun er svo óþægilegt umræðuefni,“ segir hún. „En sársaukinn, sem fylgdi því að byrgja þetta inni, var ekki góður fyrir mig. Það var betra að takast á við það fyrr en síðar.“

 „Að lækna hefur sinn tíma“

 Þau sem hafa orðið fyrir misnotkun sitja oft uppi með brenglaða sjálfsmynd. Þau hugsa kannski að þau séu spillt, séu einskis virði eða að eini tilgangurinn með þeim sé að fullnægja kynlífsþörfum annarra. En „að lækna hefur sinn tíma“ svo að það er gott að nýta tækifærið til að ná sér upp úr slíkum lygum. (Prédikarinn 3:3) Hvað getur hjálpað þér í baráttunni við það?

 Biblíunám. Biblían inniheldur sjónarmið Guðs. Þau eru „máttug ... til að brjóta niður vígi“ – meðal annars vígi eins og brenglað viðhorf þitt til sjálfs þín. (2. Korintubréf 10:4, 5) Til dæmis geturðu lesið og hugleitt eftirfarandi vers: Jesaja 41:10; Jeremía 31:3; Malakí 3:16, 17; Lúkas 12:6, 7; 1. Jóhannesarbréf 3:19, 20.

 Bæn. Þegar þér finnst þú vera einskis virði eða sektarkenndin hellist yfir þig skaltu „varpa áhyggjum þínum á Drottin“ í bæn. (Sálmur 55:23) Þú ert aldrei alein/nn!

 Safnaðaröldungar. Þessir kristnu menn eru eins og „hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum“. (Jesaja 32:2) Þeir hafa lært að vera það og geta hjálpað þér að sjá þig í réttu ljósi og komast yfir erfiðleikana.

 Góður félagsskapur. Fylgstu með körlum og konum sem sýna af sér kristna eiginleika. Taktu eftir hvernig þau koma fram hvert við annað. Með tímanum áttarðu þig á að það eru ekki allir sem nota vald sitt til að misnota þá sem þeir segjast elska.

 Ung kona, Tanya að nafni, er að átta sig á þessari mikilvægu staðreynd. Margir menn misnotuðu hana frá unga aldri og komu fram við hana eins og kynlífsleikfang. „Allir menn, sem voru mér nánir, særðu mig,“ segir hún. Með tímanum gat Tanya samt skilið að til séu karlmenn sem sýna ósvikna ást. Hvernig gat hún skilið það?

 Þegar Tanya umgekkst hjón, sem sýndu af sér kristna eiginleika, breyttist viðhorf hennar. „Framkoma eiginmannsins sýndi mér að það eru ekki allir karlmenn sem misnota vald sitt,“ segir hún. „Hann verndaði konuna sína og það var þannig sem Guð ætlaðist til að það væri.“ a – Efesusbréfið 5:28, 29.

a Ef þú átt við erfiðleika að glíma eins og langvarandi þunglyndi, átröskun, sjálfsskaða, lyfjamisnotkun, fíkniefnaneyslu, svefnraskanir eða sjálfsmorðshugleiðingar ættirðu að leita þér læknishjálpar.