Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Er samkynhneigð röng?

Er samkynhneigð röng?

 „Þegar ég var að alast upp laðaðist ég að öðrum strákum og það var eitt af því erfiðasta sem ég þurfti að takast á við. Ég hélt að það myndi ganga yfir en ég er enn að berjast við þessar tilfinningar.“ – David, 23 ára.

 David er þjónn Guðs og vill gera það sem gleður hann. Getur hann það ef hann laðast að sama kyni? Hvernig lítur Guð á samkynhneigð?

 Hvað segir Biblían?

 Skoðanir á samkynhneigð eru ólíkar eftir því hvaðan fólk kemur eða á hvaða tíma það er uppi. En þjónar Guðs láta ekki vinsælar hugmyndir stjórna sér eða „hrekjast fram og aftur fyrir hverjum kenningarvindi“. (Efesusbréfið 4:14) Þess í stað eru skoðanir þeirra á líferni samkynhneigðra, og annarri hegðun, byggðar á fyrirmælum Guðs í Biblíunni.

 Fyrirmæli Biblíunnar um kynlíf samkynhneigðra eru mjög skýr. Í Biblíunni segir:

  •  „Þú mátt ekki liggja með karlmanni eins og legið er með konu.“ – 3. Mósebók 18:22.

  •  „Þeir fylgdu því sem þeir girntust í hjörtum sínum … Þess vegna gaf Guð þá svívirðilegum losta á vald því að … konurnar [hafa] breytt eðlilegum mökum í óeðlileg.“ – Rómverjabréfið 1:24, 26.

  •  „Látið ekki blekkjast. Þeir sem lifa kynferðislega siðlausu lífi, þeir sem dýrka skurðgoð, þeir sem halda fram hjá maka sínum, karlar sem leyfa körlum að eiga kynmök við sig, karlar sem stunda kynlíf með körlum, þjófar, ágjarnir, drykkjumenn, lastmálir og ræningjar erfa ekki ríki Guðs.“ – 1. Korintubréf 6:9, 10.

 Sannleikurinn er sá að fyrirmæli Guðs eiga við alla hvort sem þeir bera kynferðislegar langanir til fólks af sama kyni eða gagnstæðu kyni. En þar sem við erum ófullkomin og viljum stundum gera það sem er rangt verðum við öll að sýna sjálfstjórn til að forðast það sem Guð hatar. – Kólossubréfið 3:5.

 Þýðir það að …?

 Þýðir það að Biblían hvetji til fordóma gegn samkynhneigðum?

 Nei, alls ekki. Í Biblíunni erum við hvött til að „eiga frið við alla“, hvort heldur þeir eru samkynhneigðir eða gagnkynhneigðir. (Hebreabréfið 12:14) Það er þess vegna rangt að leggja samkynhneigða í einelti, fremja hatursglæpi gegn þeim eða koma illa fram við þá á nokkurn hátt.

 Þýðir það að þjónar Guðs séu á móti lögum sem leyfa hjónaband af sama kyni?

 Í orði Guðs segir að það sé aðeins leyfilegt fyrir karlmann og konu að ganga í hjónaband. (Matteus 19:4–6) Umræðan um að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra er byggð á ákvörðunum ríkisstjórna en ekki orði Guðs. Og í Biblíunni eru þjónar Guðs hvattir til að vera hlutlausir í stjórnmálum. (Jóhannes 18:36) Þess vegna berjast þeir hvorki fyrir né standa gegn lögum sem varða hjónabönd samkynhneigðra eða líferni samkynhneigðra.

 Hvað ef …?

 Hvað ef einhver lifir líferni samkynhneigðra? Getur hann breyst?

 Já. Það gerðu sumir á fyrstu öldinni. Í Biblíunni segir að þeir sem stundi kynlíf með einhverjum af sama kyni muni ekki erfa ríki Guðs. Síðan segir: „Þannig voruð þið sumir ykkar.“ – 1. Korintubréf 6:11.

 Þýðir það að þeir sem hættu því líferni hafi alveg hætt að laðast að sama kyni? Nei. Biblían segir: „Íklæðist hinum nýja manni sem endurnýjast með nákvæmri þekkingu.“ (Kólossubréfið 3:10) Við verðum að halda áfram að endurnýjast.

 Hvað ef einhver sem þráir að fylgja lögum Guðs laðast enn að sama kyni?

 Við getum öll valið um að berjast gegn löngunum okkar eða að láta undan þeim. Þetta á við um allar langanir. Hvernig er hægt að berjast gegn þeim? „Lifið í andanum og þá látið þið ekki undan neinum girndum holdsins.“ – Galatabréfið 5:16.

 Taktu eftir að það er ekki sagt að við séum laus við allar girndir. En með því að venja okkur á að rannsaka Biblíuna og biðja til Guðs getum við staðist þessar girndir, eða röngu langanir.

 David, sem er nefndur í upphafi greinarinnar, komst að þessu – sérstaklega eftir að hann talaði við foreldra sína um það sem hann var að berjast við. Hann segir: „Það var þungu fargi af mér létt. Og ég held það hefði verið auðveldara að vera unglingur ef ég hefði bara opnað mig fyrir þeim fyrr.“

 Við verðum miklu ánægðari þegar við förum eftir fyrirmælum Jehóva. Og þeir sem gera það eru sannfærðir um að fyrirmæli hans ,séu rétt, gleðji hjartað‘ og ,að halda þau veiti ríkuleg laun‘. – Sálmur 19:9, 12.