Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Ætti ég að stækka vinahópinn?

Ætti ég að stækka vinahópinn?

 „Ég er ánægður með vinahópinn minn og mér finnst mjög erfitt að stíga út fyrir þann þægindaramma.“ – Alan.

 „Við erum fá í mínum vinahóp og þannig vil ég hafa það. Ég er ekki tilbúin að breyta til og tala við fólk sem ég þekki ekki.“ – Sara.

 Líður þér eins og Alan og Söru? Tilheyrir þú þröngum vinahóp og finnst þér óþægilegt að kynnast fleirum?

 Ef svo er þá er þessi grein fyrir þig.

 Vandamál sem geta komið upp í þröngum vinahóp

 Það er ekkert að því að eiga nokkra nána vini. Þeim sem tilheyra þröngum vinahóp finnst mikilvægt að vera hluti af hóp og að þeim sé tekið eins og þeir eru – með kostum og göllum.

 „Það er gott að vita að öðrum líkar við mann og að maður tilheyri ákveðnum hóp. Unglingar vilja bara falla í hópinn.“ – Karen, 19.

 Vissir þú? Postularnir 12 voru í hópi fjölmargra vina Jesú en þrír þeirra – Pétur, Jakob og Jóhannes – voru nánustu vinir hans. – Markús 9:2; Lúkas 8:51.

 Ef maður umgengst bara þröngan vinahóp – og útilokar aðra – getur það haft vandamál í för með sér. Tökum dæmi:

  •   Það getur komið í veg fyrir að þú eignist frábæra vini.

     „Ef þú átt bara vini sem eru svipaðir þér, geturðu farið á mis við að reyna eitthvað nýtt – og kynnast frábæru fólki.“ – Evan, 21.

  •   Þú gætir virst snobbaður.

     „Ef þú umgengst bara þröngan vinahóp mætti halda að þú viljir ekki tala við neina aðra.“ – Sara, 17.

  •   Það gæti orðið til þess að þú tækir þátt í einelti.

     „Þú myndir kannski ekki vilja leggja neinn í einelti en ef vinahópurinn þinn gerði það, gæti þér allt í einu fundist það í lagi – jafnvel skemmtilegt. – James, 17.

  •   Það gæti komið þér í klandur – sérstaklega ef þú vilt falla í hópinn hvað sem það kostar.

     „Það þarf ekki nema eina vonda manneskju í þröngum vinahóp til að allur hópurinn leiðist út í ranga breytni.“ – Martina, 17.

 Það sem þú getur gert

  •   Skoðaðu lífsgildi þín.

     Spyrðu þig: ,Hvaða lífsgildi hef ég? Gera vinir mínir mér auðveldara eða erfiðara að lifa eftir þeim? Myndi ég vilja halda í þessa vini sama hvað það kostar?‘

     Meginregla í Biblíunni: „Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ – 1. Korintubréf 15:33.

     „Ef þeir sem tilheyra þínum vinahóp hafa ekki sömu lífsgildi og þú gætirðu leiðst út í að gera ýmislegt sem þú hefðir annars aldrei gert.“ – Ellen, 14.

  •   Hugleiddu hvernig þú forgangsraðar.

     Spyrðu þig: ,Eru vinir mínir svo mikilvægir að ég myndi fórna lífsgildum mínum til að halda í þá? Hvað myndi ég gera ef vinur minn gerði eitthvað rangt?‘

     Meginregla í Biblíunni: „Ég tyfta og aga alla þá sem ég elska.“ – Opinberunarbókin 3:19.

     „Ef einhver í vinahópnum kemst í klandur og það truflar samvisku þína, gætu það virst svik ef þú segðir frá því.“ – Melanie, 22.

  •   Reyndu að eignast fleiri vini.

     Spyrðu þig: ,Gæti kannski verið gott að eignast fleiri vini og kynnast betur einhverjum sem ég þekki ekki eins vel?‘

     Meginregla í Biblíunni: „Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra.“ – Filippíbréfið 2:4.

     „Krakkar sem eru álitnir óvinsælir, búa kannski bara við erfiðar heimilisaðstæður. Þegar maður kynnist þeim kemst maður venjulega að því að þeir eru frábærir á sinn hátt.“ – Brian, 19.

 Kjarni málsins: Það er ekkert athugavert við að tilheyra þröngum vinahóp. En það gæti verið gott fyrir þig að eignast fleiri vini. Biblían segir: „Örlátur maður hlýtur ríkulega umbun.“ – Orðskviðirnir 11:25.