Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvernig get ég talað við foreldra mína um reglurnar sem þeir setja?

Hvernig get ég talað við foreldra mína um reglurnar sem þeir setja?

 „Ég skil vel reglurnar sem foreldrar mínir settu mér þegar ég var 15 ára, en nú er ég 19 ára og mér finnst ég eigi að fá meira frelsi.“ – Sylvia.

 Líður þér eins og Sylviu? Þá mun þessi grein hjálpa þér að ræða málið við foreldra þína.

 Það sem þú þarft að vita

 Áður en þú ræðir við foreldra þína um reglurnar sem þeir setja skaltu hugleiða eftirfarandi:

  •  Lífið væri ein ringulreið ef það væru engar reglur. Ímyndaðu þér fjölfarna umferðargötu. Hvernig væri ástandið ef það væru engin skilti, engin umferðarljós eða enginn hámarkshraði? Heimilisreglur stuðla að því að allt gangi vel fyrir sig, líkt og umferðareglur.

  •  Reglur eru merki um að foreldrum þínum þyki vænt um þig. Ef þeir settu þér engar reglur þá væri þeim alveg sama um þig. Hvers konar foreldrar væru þeir þá?

 VISSIR ÞÚ? Foreldrar þurfa líka að fylgja reglum. Ef þú trúir því ekki skaltu lesa 1. Mósebók 2:24; 5. Mósebók 6:6, 7; Efesusbréfið 6:4 og 1. Tímóteusarbréf 5:8.

 En hvað ef þér finnst reglur foreldra þinna samt ósanngjarnar?

 Hvað er til ráða?

 Hugleiddu málið áður en þú ræðir það. Ferðu vanalega eftir reglunum sem foreldrar þínir setja? Ef þú gerir það ekki þá er þetta líklega ekki rétti tíminn til að biðja um meira frelsi. Skoðaðu heldur greinina „Hvernig get ég áunnið mér traust foreldra minna?

 Ef þú fylgir reglum foreldra þinna skaltu undirbúa hvað þú ætlar að segja við þá. Þegar þú setur hugsanir þínar niður á blað áttu auðveldara með að sjá hvort það sé sanngjarnt sem þú vilt biðja foreldra þína um. Næst skaltu biðja foreldra þína um að taka frá tíma þar sem þið getið öll verið afslöppuð og átt auðvelt með að ræða málin. Þegar þú síðan talar við foreldra þína skaltu hafa eftirfarandi í huga:

 Sýndu virðingu. Biblían segir: „Fúkyrði vekja reiði.“ (Orðskviðirnir 15:1) Minntu því sjálfan þig á þetta: Það endar illa ef þú rífst við foreldra þína eða sakar þá um ósanngirni.

 „Því meiri virðingu sem ég sýni foreldrum mínum því meiri virðingu sýna þeir mér. Það er miklu auðveldara að komast að samkomulagi þegar það er gagnkvæm virðing til staðar.“ – Bianca, 19 ára.

 Hlustaðu. Í Biblíunni er okkur sagt að ,vera fljót til að heyra, sein til að tala‘. (Jakobsbréfið 1:19) Mundu að þú ert að ræða málin við foreldra þína en ekki flytja ræðu.

 „Þegar við erum að vaxa úr grasi gæti okkur fundist við vita meira en foreldrar okkar. En það er alls ekki þannig. Það er gott að hlusta á leiðbeiningar þeirra og ráð.“ – Devan.

 Settu þig í spor þeirra. Reyndu að sjá hlutina frá sjónarhóli foreldra þinna. Fylgdu hvatningu Biblíunnar og ,hugsaðu ekki aðeins um þinn eigin hag heldur einnig hag annarra‘ –í þessu tilfelli hag foreldra þinna. – Filippíbréfið 2:4.

vor nálgunin heldurðu að reynist betur?

 „Ég leit á foreldra mína sem andstæðinga í stað þess að líta á þá sem liðsfélaga mína. En nú skil ég að þeir voru jafn mikið að læra að annast mig og ég var að læra að vera sjálfstæður. Allt sem þeir gerðu var gert af ást og umhyggju.“ – Joshua, 21 árs.

 Komdu með hugmyndir að lausn. Segjum að foreldrar þínir hafi sagt að þeir vilji ekki að þú keyrir í klukkustund til að fara í hitting sem þig langar til að mæta í. Í hverju felast áhyggjurnar aðallega? Fjarlægðinni eða hittingnum?

  •   Ef það er akstursfjarlægðin myndu þá foreldrar þínir skipta um skoðun ef þú fengir einhvern til að fara með þér?

  •   Ef hittingurinn er vandamálið myndi þá hjálpa eitthvað að segja foreldrum þínum hverjir ætli að mæta og hver hafi umsjón?

 Mundu að tala af virðingu og hlusta af þolinmæði á það sem foreldrar þínir hafa að segja. Sýndu að þú ,heiðrir föður þinn og móður‘, bæði í orði og hegðun. (Efesusbréfið 6:2, 3) Munu þau skipta um skoðun? Kannski, kannski ekki. Hvort heldur skaltu ...

 virða ákvörðun foreldra þinna. Það er mikilvægt en gleymist gjarnan. Ef þú færð ekki það sem þú vonaðist til og ferð að rífast við foreldra þína verður bara erfiðara fyrir þig næst þegar þið þurfið að ræða málin. Ef þú á hinn bóginn hlýðir þeim fúslega munu þau líklega gefa þér meira frelsi á einhverjum sviðum.