Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvernig get ég tekist á við áföll?

Hvernig get ég tekist á við áföll?

 Allir geta orðið fyrir áföllum í lífinu. Í Biblíunni segir: „Hinir fótfráu ráða ekki hlaupinu, né hetjurnar stríðinu ... því að tími og tilviljun hittir þá alla fyrir.“ (Prédikarinn 9:11) Þetta á meðal annars við um ungt fólk sem hefur orðið fyrir þungum áföllum. Hvernig hefur það tekist á við þau? Skoðum reynslu tveggja ungmenna.

 REBEKAH

 Foreldrar mínir skildu þegar ég var 14 ára.

 Ég taldi sjálfri mér trú um að foreldrar mínir væru ekki að skilja heldur að pabbi þyrfti bara að vera út af fyrir sig um tíma. Hann elskaði mömmu. Hvers vegna ætti hann þá að yfirgefa hana? Hvers vegna ætti hann að yfirgefa mig?

 Mér fannst erfitt að tala við nokkurn um það sem var að gerast og reyndi að hugsa sem minnst um það. Ég var reið þótt ég gerði mér ekki grein fyrir því. Ég varð mjög kvíðin og átti erfitt með að sofa.

 Þegar ég var 19 ára dó mamma úr krabbameini. Hún var besti vinur minn.

 Skilnaður foreldra minna var mikið áfall en það var skelfilegt áfall að missa mömmu. Ég er alls ekki búin að jafna mig á því. Núna á ég jafnvel enn erfiðara með að sofa og ég glími enn þá við kvíða.

 Ýmislegt hefur þó hjálpað mér. Í Orðskviðunum 18:1 erum við til dæmis vöruð við því að einangra okkur. Ég reyni að fylgja því ráði.

 Ég er vottur Jehóva og geri mér far um að lesa uppörvandi rit okkar sem byggð eru á Biblíunni. Þegar foreldrar mínir skildu fannst mér mjög gott að lesa í bókinni Spurningar unga fólksins – svör sem duga. Í 2. bindi bókarinnar fannst mér sérstaklega gagnlegt að lesa kaflann „Er hægt að vera hamingjusamur þótt maður alist upp hjá einstæðu foreldri?

 Það sem hjálpaði mér einna helst með kvíðann var að hugsa um það sem segir í Matteusi 6:25-34. Í versi 27 spyr Jesús: „Hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?“

 Allir verða fyrir áföllum í lífinu en ég lærði af fordæmi mömmu að það skiptir miklu máli hvernig við tökumst á við erfiðleikana. Hún þurfti að þola svo margt – skilnað og síðan banvænan sjúkdóm. En þrátt fyrir það var hún alltaf jákvæð og trú hennar á Guð haggaðist ekki. Ég mun aldrei gleyma því sem hún kenndi mér um Jehóva Guð.

 Til umhugsunar: Hvernig getur það að lesa Biblíuna og biblíutengd rit hjálpað þér að takast á við áföll? – Sálmur 94:19.

 CORDELL

 Ég horfði á pabba minn deyja þegar ég var 17 ára. Að missa hann var það versta sem ég hef upplifað. Ég var algerlega niðurbrotinn.

 Ég gat ekki trúað að pabbi væri dáinn og að það væri hann sem lægi undir lakinu sem var breitt yfir líkið. Mér fannst að hann hlyti bara að vakna næsta dag. Ég var ráðvilltur og það var tómarúm innra með mér.

 Við fjölskyldan erum vottar Jehóva og þegar pabbi dó fengum við mikinn stuðning frá söfnuðinum. Trúsystkini okkar gáfu okkur að borða, buðust til að vera hjá okkur og studdu við bakið á okkur – ekki bara rétt eftir að pabbi dó heldur í lengri tíma. Stuðningur þeirra sannaði fyrir mér að vottar Jehóva eru sannir fylgjendur Krists. – Jóhannes 13:35.

 Mér hefur fundist mjög uppörvandi að lesa það sem segir í 2. Korintubréfi 4:17, 18: „Þrenging mín er skammvinn og léttbær og aflar mér eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt. Ég horfi ekki á hið sýnilega heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt en hið ósýnilega eilíft.“

 Seinna versið hafði mikil áhrif á mig. Þjáningar pabba voru stundlegar en það sem Guð lofar um framtíðina varir að eilífu. Þegar pabbi dó fór ég að hugleiða hvaða stefnu ég hefði í lífinu og setja mér önnur markmið.

 Til umhugsunar: Hvernig geta áföll hjálpað manni að endurskoða markmiðin í lífinu? – 1. Jóhannesarbréf 2:17.