Prédikarinn 9:1–18

  • Hið sama bíður allra (1–3)

  • Njóttu lífsins meðan þú lifir (4–12)

    • Hinir dánu vita ekki neitt (5)

    • Engin starfsemi í gröfinni (10)

    • Tími og tilviljun (11)

  • Viska ekki alltaf metin (13–18)

9  Ég leiddi hugann að öllu þessu og komst að þeirri niðurstöðu að hinir réttlátu og hinir vitru og það sem þeir gera er í höndum hins sanna Guðs. Menn vita ekki af kærleikanum og hatrinu sem var fyrir þeirra dag.  Hið sama bíður allra manna, réttlátra og illra, góðra manna, hreinna og óhreinna, þeirra sem fórna og þeirra sem fórna ekki. Eins fer fyrir góðum manni og syndara, þeim sem sver eið og þeim sem fer varlega í að sverja.  Þetta er eitt af því dapurlega sem gerist undir sólinni: Þar sem hið sama bíður allra eru hjörtu mannanna full af illsku. Brjálæði býr í hjörtum þeirra alla ævi og síðan deyja þeir!*  Meðan menn lifa er von. Lifandi hundur er betur settur en dautt ljón.  Þeir sem lifa vita að þeir munu deyja en hinir dánu vita ekki neitt og fá engin laun framar því að enginn man lengur eftir þeim.  Ást þeirra, hatur og öfund er horfin og þeir eiga ekki lengur neinn þátt í því sem gerist undir sólinni.  Borðaðu mat þinn með ánægju og drekktu vín með glöðu hjarta því að hinn sanni Guð er ánægður með það sem þú gerir.  Gakktu alltaf í hvítum fötum* og sparaðu ekki olíuna á höfuðið.  Njóttu lífsins með konu þinni, sem þú elskar, alla þína hverfulu* ævi sem Guð hefur gefið þér undir sólinni, alla þína innantómu daga, því að það er hlutskipti þitt í lífinu og launin fyrir strit þitt og erfiði undir sólinni. 10  Allt sem þú getur gert skaltu gera af öllu afli því að í gröfinni,* þangað sem þú ferð, er hvorki starfsemi, áform, þekking né viska. 11  Ég hef séð annað undir sólinni, að hinir fljótu sigra ekki alltaf í hlaupinu né kapparnir í stríðinu, né eiga hinir vitru alltaf mat eða hinir gáfuðu auðinn, og menntamennirnir njóta ekki alltaf velgengni því að tími og tilviljun mætir* þeim öllum. 12  Maðurinn veit ekki hvenær tími hans er á enda. Eins og fiskurinn festist í hættulegu netinu og fuglar í gildru, þannig festast mennirnir í snöru á ógæfutíma þegar hann kemur skyndilega yfir þá. 13  Ég sá einnig undir sólinni dæmi um visku sem mér fannst merkilegt: 14  Í lítilli borg bjuggu fáeinir menn. Voldugur konungur réðst á borgina, umkringdi hana og reisti mikil árásarvirki. 15  Í borginni bjó fátækur en vitur maður og hann bjargaði henni með visku sinni. En enginn mundi eftir þessum fátæka manni. 16  Ég hugsaði með mér: „Viska er betri en afl en viska fátæks manns er samt fyrirlitin og enginn gefur gaum að orðum hans.“ 17  Betra er að hlusta á hæglát orð hins vitra en hróp manns sem ríkir meðal heimskingja. 18  Viska er betri en vopn en einn syndari getur valdið miklu tjóni.

Neðanmáls

Orðrétt „síðan liggur leiðin til hinna dánu“.
Það er, ekki í sorgarbúningi heldur ljósum fötum sem vitna um gleði.
Eða „tilgangslausu“.
Á hebr. sheol, það er, sameiginleg gröf mannkyns. Sjá orðaskýringar.
Eða „óvæntir atburðir mæta“.