Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvernig get ég lært að fara vel með peninga?

Hvernig get ég lært að fara vel með peninga?

 Nýlega fór ég í búðir bara til að skoða. Ég kom heim með dýran hlut sem ég ætlaði alls ekki að kaupa. – Colin.

 Colin viðurkennir að hann eigi erfitt með að fara vel með peninga. Þekkir þú þetta vandamál? Ef svo er getur þessi grein komið þér að góðum notum.

 Hvers vegna ættirðu að fara vel með peninga?

 Ranghugmynd: Það skerðir frelsi manns að fara vel með peninga.

 Staðreynd: Að fara vel með peninga gefur þér meira frelsi en ekki minna. „Því betur sem þú kannt að fara með peninga, því meira hefurðu af þeim til að nota í það sem þig langar í, núna og í framtíðinni“, segir í bókinni I‘m Broke! The Money Handbook.

 Hugleiddu þetta: Með því að læra að fara vel með peninga ...

  •   áttu meiri peninga þegar þú þarft á þeim að halda. „Mig langar einhvern tíma að ferðast til Suður-Ameríku,“ segir unglingsstúlka að nafni Inez. „Ég reyni að hafa það markmið ofarlega í huga þegar ég legg fyrir.“

  •   skuldarðu minna, ert jafnvel skuldlaus. Í Biblíunni segir: „Lánþeginn verður þræll lánardrottins síns.“ (Orðskviðirnir 22:7) Ung kona sem heitir Anna er sammála. „Skuldir geta tekið völdin í lífi manns,“ segir hún. „Að vera laus við skuldir hjálpar manni að einbeita sér að markmiðum sínum.“

  •   sýnirðu þroska. Þeir sem kunna að fara vel með peninga eru betur búnir undir fullorðinsárin. „Það er góð æfing fyrir framtíðina þegar ég fer að heiman,“ segir Jean, 20 ára. „Ég reyni að vera ábyrg í sambandi við fjármál núna svo ég verði það líka seinna.“

 Kjarni málsins: „Að kunna að fara með peninga er frábært skref í þá átt að verða sjálfstæður,“ segir í bókinni The Complete Guide to Personal Finance: For Teenagers and College Students. „Að fara vel með peninga er hæfileiki sem nýtist þér vel það sem eftir er lífsins.“

 Hvernig fer maður að?

 Komdu auga á veikleika þína. Ef þú ert stöðugt blankur skaltu skoða í hvað peningarnir fara. Hjá sumum eru það innkaup á Netinu sem er um að kenna. Hjá öðrum er vandamálið að peningarnir hverfa smátt og smátt svo ekkert er eftir í lok mánaðar.

 „Litlar upphæðir á hverjum degi safnast saman. Litlar gjafir, kaffibolli eða tilboð í matvörubúðinni. Í lok mánaðar skil ég ekki í hvað tíuþúsundkallarnir hafa farið.“ – Hailey

 Gerðu fjárhagsáætlun. Í Biblíunni segir: „Fyrirætlanir iðjumannsins reynast fésamar vel.“ (Orðskviðirnir 21:5) Með því að gera fjárhagsáætlun geturðu tryggt að útgjöldin verði ekki meiri en innkoman.

 „Ef þú eyðir meira en þú aflar skaltu skoða í hvað peningarnir fara og skera niður óþarfa. Skerðu útgjöldin niður þangað til innkoman er hærri en útgjöldin.“ – Danielle

 Stattu við fjárhagsáætlunina. Það eru fjölmargar leiðir til að fylgjast með útgjöldunum og forðast óþarfa eyðslu. Sumu ungu fólki hefur fundist árangursríkt að gera eftirfarandi:

  •  „Venjulega set ég peningana beint í banka því þá er ekki eins freistandi að eyða þeim.“ – David.

  •  „Þegar ég fer í búðir tek ég hæfilega peningaupphæð með mér. Þannig get ég ekki eytt meira en ég ætlaði mér. – Ellen.

  •  „Því lengur sem ég býð með að kaupa hlut þeim mun betur gengur mér að ákveða hvort ég hafi þörf fyrir hann.“ – Jesiah.

  •  „Ég þarf ekki að fara á alla viðburði. Það er allt í lagi að segja nei ef ég hef ekki efni á því.“ – Jennifer.

 Kjarni málsins: Að fara vel með peninga er alvarleg ábyrgð. Það er það sem Colin, sem minnst var á í upphafi, hefur komist að raun um. „Ef ég ætla einhvern tíma að verða höfuð fjölskyldunnar get ég ekki sóað peningum,“ segir hann. „Ef ég kann ekki að fara með peninga þegar ég er einhleypur veit það ekki á gott þegar ég gifti mig.“

Ráð: „Segðu einhverjum frá fjárhagsáætlun þinni og biddu hann um að fylgjast öðru hvoru með hvernig gengur. Það er gott að finna til ábyrgðar.“ – Vanessa.