Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Sköpun eða þróun? – 1. hluti: Hvers vegna ætti ég að trúa á Guð?

Sköpun eða þróun? – 1. hluti: Hvers vegna ætti ég að trúa á Guð?

 Sköpun eða þróun?

 Trúirðu því að Guð hafi skapað alla hluti? Þá ertu ekki einn um það. Margir unglingar (og fullorðnir) eru sama sinnis. Aðrir vilja meina að lífið og allur alheimurinn hafi þróast, án þess að „æðri máttur“ hafi komið þar nálægt.

 Vissir þú? Fólk úr báðum hópunum er oft fljótt að segja sína skoðun án þess þó að vita hvers vegna það er þeirrar skoðunar.

  •   Sumir trúa á sköpun bara vegna þess að þeim hefur verið kennt það í kirkjunni.

  •   Margir trúa á þróun bara vegna þess að þeim hefur verið kennt það í skólanum.

 Þessi greinaröð hjálpar þér að styrkja trú þína á sköpun og útskýra hana fyrir öðrum. En þú þarft að byrja á því að velta fyrir þér einni grundvallarspurningu:

 Hvers vegna trúi ég á Guð?

 Hvers vegna er þetta mikilvæg spurning? Vegna þess að Biblían hvetur okkur til að nota hugann, en það er „skynsamleg guðdýrkun“. (Rómverjabréfið 12:1, Biblían 1912) Trúin á Guð ætti því ekki aðallega að byggjast á ...

  •  tilfinningu (Ég finn það bara á mér að það er einhver æðri máttur.)

  •  því sem aðrir trúa (Ég bý í mjög trúuðu samfélagi.)

  •  þrýstingi frá öðrum (Foreldrar mínir ólu mig upp í guðstrú og ég skyldi ekki voga mér að hafa aðra skoðun.)

 Þú ættir frekar að byggja upp þína eigin sannfæringu um að Guð sé til og geta stutt hana með rökum.

 Hvað sannfærir þig um að Guð sé til? Vinnublaðið „Hvers vegna trúi ég á Guð?“ getur hjálpað þér að byggja upp sterka trú. Einnig getur verið gagnlegt að velta fyrir sér hvernig aðrir unglingar hafa svarað þessari spurningu.

 „Þegar ég er í skólanum og kennarinn útskýrir hvernig mannslíkaminn virkar er ég ekki í minnsta vafa um að Guð sé til. Hver einasti líkamspartur gegnir ákveðnu hlutverki, jafnvel þeir allra smæstu, og oft starfa þeir án þess að við tökum einu sinni eftir því. Mannslíkaminn er alveg ótrúlegur!“ – Teresa.

 „Þegar ég horfi á skýjakljúf, skemmtiferðaskip eða bíl hugsa ég: Hver ætli hafi búið þetta til? Vissulega hefur einhver sem kann til verka búið bílinn til. Ástæðan er meðal annars sú að svo margir litlir hlutar þurfa að virka til að bíllinn sé nothæfur. Fyrst bílar þurfa hönnuð hlýtur það sama að gilda um okkur mennina.“ – Richard.

 „Fyrst það tekur greindustu menn hundruð ára að fá þekkingu á bara smá broti af alheiminum finnst mér algjörlega órökrétt að álykta að enginn skapari hafi komið þar við sögu.“ – Karen.

 „Eftir því sem ég lærði meira um vísindi því ósennilegra fannst mér að lífið hefði þróast. Ég hugsaði til dæmis um stærðfræðilega nákvæmni í náttúrunni og um sérkenni mannsins, eins og þörf okkar á að vita hver við erum, hvaðan við komum og hvert við stefnum. Í þróunarkenningunni er reynt að útskýra allt þetta með því að skoða okkur í samhengi við dýrin en hún hefur ekki getað skýrt hvers vegna mennirnir eru svona frábrugðnir dýrunum. Mér finnst þurfa meiri trúgirni til að trúa á þróun en til að trúa á sköpun.“ – Anthony.

 Að útskýra trú sína

 Hvað geturðu gert ef bekkjarfélagarnir gera lítið úr þér fyrir að trúa á eitthvað sem maður getur ekki séð? Hvað ef þeir segja að vísindin hafi „sannað“ þróunarkenninguna?

 Til að byrja með þarftu að vera sannfærður um það sem þú trúir. Vertu ófeiminn að verja trú þína. (Rómverjabréfið 1:16) Þú hefur góðar og gildar ástæður til þess:

  1.   Margir trúa á Guð, þú ert ekki einn um það. Meðal þeirra er bráðgreint og hámenntað fólk. Sumir vísindamenn trúa til dæmis að til sé Guð.

  2.   Stundum þegar fólk segist ekki trúa á Guð snýst málið frekar um að það skilur ekki Guð. Það bendir ekki á sannanir til að styðja skoðun sína heldur varpar það fram spurningum eins og: „Ef Guð er til, hvers vegna leyfir hann þá þjáningar?“ Hjá þeim snýst málið eiginlega um tilfinningar í staðinn fyrir rök.

  3.   Menn hafa andlega þörf. (Matteus 4:4) Í því felst þörfin að trúa á Guð. Svo ef einhver segir að Guð sé ekki til ætti hann – ekki þú – að geta útskýrt hvers vegna hann komast að þeirri niðurstöðu. – Rómverjabréfið 1:18-20.

  4.   Það er algjörlega rökrétt að trúa á Guð. Það samræmist þeirri staðreynd að líf getur ekki kviknað af sjálfu sér. Það er ekkert sem styður þá hugmynd að líf geti kviknað sjálfkrafa út frá lífvana efni.

 Hvað gætirðu þá sagt ef einhver gagnrýnir trú þína á Guð? Skoðaðu nokkur dæmi.

 Ef einhver segir: „Það er bara ómenntað fólk sem trúir á Guð.“

 Þá gætirðu sagt: „Tekurðu virkilega mark á þessari klisju? Ég geri það ekki. Í könnun, sem náði til rúmlega 1.600 vísindamanna frá virtum háskólum, sagðist þriðjungur hvorki vera guðleysingjar né efasemdamenn. a Myndirðu álykta að þessir vísindamenn væru ekki mjög gáfaðir bara af því að þeir trúa á Guð?“

 Ef einhver segir: „Ef Guð er til, hvers vegna eru þá svona miklar þjáningar í heiminum?“

 Þá gætirðu sagt: „Það sem er að trufla þig er kannski að þú skilur ekki hvernig Guð tekur á málum – eða öllu heldur hvernig hann virðist ekki taka á málum. Getur það verið? [Gefðu kost á svari.] Ég hef fengið góða skýringu á því hvers vegna þjáningarnar eru svona miklar. En til að skilja það þarf maður að skoða nokkur mál sem Biblían talar um. Hefðirðu áhuga á að kynna þér þetta betur?“

 Næsta grein í þessari greinaröð ræðir um hvers vegna þróunarkenningin veitir ekki fullnægjandi skýringu á tilvist okkar.

a Heimild: Elaine Howard Ecklund, 5. febrúar 2007. Social Science Research Council. „Religion and Spirituality Among University Scientists.“