Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Vinir eða kærustupar? – 2. hluti: Hvaða skilaboð gef ég?

Vinir eða kærustupar? – 2. hluti: Hvaða skilaboð gef ég?

 Þú vilt vera til taks þegar vinir þínir þurfa einhvern að tala við. En undanfarið hefurðu talað við einn þeirra mjög oft. Málið er að viðkomandi er af hinu kyninu. Þú sannfærir þig um að þið séuð ,bara vinir‘ og gerir ráð fyrir að viðkomandi hugsi líka þannig. Ættirðu að hafa áhyggjur af þessu?

 Hvað gæti gerst?

 Það er ekkert rangt við það að eiga vini af hinu kyninu. En hvað ef einn vinur þinn er orðinn nánari þér en hinir? Þá gæti viðkomandi haldið að þú viljir meira en bara vináttu.

 Eru það skilaboðin sem þú vilt gefa? Lítum á það sem gæti gerst, jafnvel óviljandi.

  •   Þú sýnir einhverjum of mikla athygli.

     „Þótt að þú getir ekki stjórnað tilfinningum annarra ættirðu ekki að bæta gráu ofan á svart með því að segja að þið séuð bara vinir en halda samt áfram að hringja í tíma og ótíma í viðkomandi til að spjalla.“ – Sierra.

  •   Þér finnst gott að fá athygli.

     „Ég átti ekki frumkvæðið að því að senda SMS en ég svaraði öllum skilaboðum frá þessari stelpu. Eftir á var erfitt að útskýra fyrir henni að í mínum augum værum við bara vinir.“ – Richard.

  •   Þú ýtir undir athyglina sem þú færð.

     „Sumum finnst gaman að daðra. Þeir leika sér að tilfinningum annarra án þess að vilja samband. Ég hef oft séð það gerast og það endar alltaf með því að einhvern verður sár.“ – Tamara.

 Niðurstaða: Stöðugt samband og athygli gefur þau skilaboð að um hrifningu sé að ræða.

 Hvers vegna skiptir það máli?

  •   Það særir hinn aðilann.

     Biblían segir: „Löng eftirvænting gerir hjartað sjúkt.“ (Orðskviðirnir 13:12) Hvaða væntingar myndirðu gera þér ef einhver gæfi oft í skyn að hann væri hrifinn af þér?

     „Ef maður hefur ekki áhuga á að kynnast viðkomandi betur en heldur honum samt ,volgum‘, það er að segja lætur hann ekki vita að maður hafi engan áhuga, þá veldur maður viðkomandi miklum sársauka.“ – Jessica.

  •   Það skaðar mannorð þitt.

     Biblían segir: „Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra.“ (Filippíbréfið 2:4) Hvaða eiginleiki lýsir best þeim sem hugsar aðeins um sjálfan sig? Hvaða áhrif gæti það haft á mannorð hans?

     „Mér finnst strákur sem daðrar við stelpur vera óaðlaðandi. Daður gæti verið merki um að viðkomandi sýni ótryggð í hjónabandi seinna meir. Viðkomandi notar aðra til að byggja upp eigið sjálfstraust og það er merki um sjálfselsku.“ – Julia.

 Niðurstaða: Fólk sem gefur þau skilaboð að það hafi rómantískan áhuga án þess að meina nokkuð með því, særir bæði aðra og sjálft sig.

 Hvað ættirðu að gera?

  •   Í Biblíunni segir að við eigum að koma fram við „yngri menn sem bræður“ og „ungar konur sem systur með allri siðsemi“. (1. Tímóteusarbréf 5:1, 2) Ef þú fylgir þessum ráðleggingum viðheldurðu góðri vináttu við fólk af hinu kyninu.

     „Ef ég væri gift myndi ég ekki daðra við maka annarrar konu. Það er gott fyrir mig að temja mér góða dómgreind í samskiptum við hitt kynið meðan ég er einhleyp.“ – Leah.

  •   Í Biblíunni segir: „Málæðinu fylgja yfirsjónir.“ (Orðskviðirnir 10:19) Þessi ráð eiga ekki bara við samræður heldur líka SMS og hve oft og hvernig samskiptin eru.

     „Það er engin ástæða til að senda stelpu SMS daglega nema maður sé hrifinn af henni.“ – Brian.

  •   Í Biblíunni segir: „Sú speki sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein.“ (Jakobsbréfið 3:17) Faðmlag getur verið merki um vináttu en það getur líka verið merki um rómantískan áhuga.

     „Ég reyni að vera vinaleg þegar ég tala við fólk en held hæfilegri fjarlægð – bæði bókstaflega og í óeiginlegri merkingu.“ – Maria.

 Niðurstaða: Skoðaðu vel framkomu þína gagnvart hinu kyninu. „Góðir vinir eru ekki á hverju strái og maður vill ekki missa þá með því að gefa misvísandi skilaboð,“ segir ung stúlka sem heitir Jennifer.

 Góð ráð

  •   Taktu eftir því sem aðrir segja. Ef einhver spyr hvort þú og einhver af hinu kyninu séuð par gæti það bent til þess að samband ykkar sé orðið of náið.

  •   Komdu eins fram við alla vini þína af hinu kyninu. Ekki veita einum þeirra meiri athygli en hinum.

  •   Gættu þín í sambandi við SMS til dæmis hve oft og hvenær dags þú sendir þau og hvað þau innihalda. Stelpa, sem heitir Alyssa, segir: „Það er óþarfi að senda einhverjum af hinu kyninu SMS um miðnætti.“