Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvers vegna ætti ég að hjálpa öðrum?

Hvers vegna ætti ég að hjálpa öðrum?

 Það sem margir vita ekki

 Í fyrsta lagi: Þegar maður gefur er mjög líklegt að maður fái eitthvað til baka.

 Fólk tekur eftir því ef þú ert örlátur og þar af leiðandi er líklegt að það verði örlátt í þinn garð. Biblían orðar þetta þannig:

  •  „Gefið og yður mun gefið verða ... með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“ – Lúkas 6:38.

  •  „Eins og þú kemur fram við aðra verður komið fram við þig.“ – Lúkas 6:38, Contemporary English Version.

 Í öðru lagi: Þegar þú hjálpar öðrum hjálparðu sjálfum þér í leiðinni.

 Þegar maður gerir öðrum gott eykst sjálfsvirðingin og maður nýtur gleðinnar sem kemur af því að gefa. Biblían orðar þetta þannig:

  •  „Sælla er að gefa en þiggja.“ – Postulasagan 20:35.

  •  „Þegar þú gerir veislu þá bjóð þú fátækum og örkumla, höltum og blindum og munt þú sæll verða því að þeir geta ekki endurgoldið þér.“ – Lúkas 14:13, 14.

 Ungt fólk sem lætur sér annt um aðra

 Það er fullt af ungu fólki sem lætur sér annt um aðra. Hér eru dæmi um það.

 „Stundum, þegar mig langar bara að sitja í sófanum og horfa á sjónvarpið, hugsa ég um mömmu og pabba sem eru að vinna. Ég veit hvað þau eru þreytt þegar þau koma heim, svo að ég fer að vaska upp, ryksuga og þurrka af. Ég helli líka upp á kaffi því að foreldrum mínum finnst mjög gott að fá sér kaffi. Þegar mamma kemur heim segir hún: ,Mikið er hreint og fínt hérna. Og það ilmar allt svo vel. Takk fyrir hjálpina, elskan.‘ Mér líður alltaf vel þegar ég hef gert eitthvað eins og þetta fyrir foreldra mína.“ – Casey.

 „Foreldrar mínir hafa alltaf stutt við bakið á mér og séð fyrir mér á allan hátt. Í fyrra bilaði bíllinn þeirra og þau þurftu að fara með hann í stóra viðgerð. Ég borgaði viðgerðina þó að stór hluti af sparifénu færi í það. Þau reyndu auðvitað að afþakka boðið en ég tók það ekki í mál. Foreldrar mínir eiga skilið að fá miklu meira en það sem ég gaf þeim. Ég er svo ánægð með að hafa gefið þeim eitthvað.“ – Holly.

 Vissir þú? Margir ungir vottar Jehóva hafa fundið hvað það gefur mikla gleði að hjálpa öðrum með því að fræða þá um Biblíuna. Sumir hafa jafnvel flutt til annarra landa þar sem þörf er á fleiri biblíukennurum.

 „Ég flutti frá Bandaríkjunum til Mexíkó svo að ég gæti hjálpað til við biblíukennslu. Það er stundum erfitt að vera örlátur á peninga og efnislega hluti þar sem ég hef ekki úr miklu að spila. En þegar ég gef af tíma mínum og kröftum í boðuninni finnst mér fólk kunna betur að meta það en efnislegar gjafir.“ – Evan.

 Hvernig get ég hjálpað öðrum?

 Myndirðu vilja upplifa gleðina sem fylgir því að hjálpa öðrum? Þú gætir prófað þetta:

 Hjálpaðu fjölskyldu þinni:

  •  Ryksugaðu, vaskaðu upp og taktu til – án þess að vera beðinn um það.

  •  Eldaðu af og til.

  •  Skrifaðu foreldrum þínum kort og segðu þeim hvað þú ert þeim þakklátur.

  •  Hjálpaðu systkini með heimalærdóminn.

 Hjálpaðu öðrum en fjölskyldu þinni:

  •  Skrifaðu einhverjum kort sem líður ekki vel.

  •  Hjálpaðu rosknum nágranna með garðvinnu.

  •  Heimsæktu einhvern sem getur ekki farið út úr húsi.

  •  Kauptu gjöf handa einhverjum sem á erfitt.

 Tillaga: Láttu þér detta fleira í hug sem þú gætir gert. Hafðu það markmið að hjálpa einni manneskju í þessari viku. Það kemur þér kannski á óvart hvað þú færð mikið út úr því sjálfur.

 „Maður verður ánægður ef maður hjálpar öðrum. Maður finnur að maður hefur gert eitthvað gagn og sér að aðrir kunna að meta það. Kannski hafðirðu meira að segja gaman af því sem þú gerðir þó að þú hafir verið efins í byrjun. Á endanum fannst þér þetta kannski ekki mikil fórn þar sem þú fékkst svo mikið út úr því sjálfur.“ – Alana.