Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvað þurfum við að vita um kynferðisofbeldi? – 1. hluti: Forvarnir

Hvað þurfum við að vita um kynferðisofbeldi? – 1. hluti: Forvarnir

 Hvað er kynferðisofbeldi?

 Það getur verið munur á hvernig orðið kynferðisofbeldi er skilgreint frá einum stað til annars en almennt er átt við kynferðislega athöfn eða þreifingu án samþykkis þolanda sem stundum er náð fram með valdi. Það getur falið í sér misnotkun á börnum eða unglingum, sifjaspell, nauðgun og misnotkun af aðila sem leitað er til, eins og lækni, kennara eða prests. Hvort heldur misnotkunin er andleg eða líkamleg er fórnarlömbunum oft hótað ef þau segja frá.

 Samkvæmt könnun, sem gerð var, eru tilkynnt næstum 250.000 tilfelli kynferðisofbeldis á ári í Bandaríkjunum einum. Tæplega helmingur fórnarlambanna er á aldrinum 12 til 18 ára.

 Það sem þú þarft að vita

  •   Biblían fordæmir kynferðisofbeldi. Í Biblíunni er sagt frá kynlífsóðum hópi manna sem ætlaði sér að nauðga tveimur mönnum en þeir voru í heimsókn í borginni Sódómu fyrir um 4.000 árum. Þessum atburði er lýst til að skýra frá því hvers vegna Jehóva ákvað að eyða borgina. (1. Mósebók 19:4-13) Guð gaf Móse líka lög fyrir um 3.500 árum sem bönnuðu sifjaspell, en í því felst meðal annars kynferðisofbeldi innan fjölskyldunnar. – 3. Mósebók 18:6.

  •   Flestir þolendur þekkja þann sem beitir þá kynferðisofbeldi. „Í tveimur af þremur nauðgunum þekkir fórnarlambið brotamanninn,“ segir í bókinni Talking Sex With Your Kids. „Hann er ekki bara einhver karl sem birtist upp úr þurru.“

  •   Bæði kynin verða fyrir kynferðisofbeldi. Um 10 prósent fórnarlamba kynferðisofbeldis í Bandaríkjunum eru strákar eða karlmenn. Samkvæmt samtökunum Rape, Abuse & Incest National Network (RAINN) eru strákar eða karlmenn, sem verða fyrir kynferðisofbeldi, „oft hræddir við að misnotkunin geri þá samkynhneigða“ eða „að hún dragi úr karlmennsku þeirra“.

  •   Það kemur varla á óvart hve algengt kynferðisofbeldi er. Biblían spáði því að „á síðustu dögum“ myndu margir vera „kærleikslausir“, „grimmir“ og „taumlausir“. (2. Tímóteusarbréf 3:1-3) Þessi einkenni koma greinilega í ljós hjá þeim sem misnota aðra kynferðislega.

  •   Kynferðisofbeldi er ekki fórnarlambinu að kenna. Það á enginn skilið að vera misnotaður kynferðislega. Afbrotamaðurinn ber alla ábyrgð á verkum sínum. Þú getur samt gert ráðstafanir til að draga úr hættunni á að verða fyrir kynferðisofbeldi.

 Það sem þú getur gert

  •   Vertu undirbúinn. Ákveddu fyrir fram hvað þú ætlar að gera ef einhver – jafnvel kærasti, kærasta eða ættingi – þrýstir á þig til að eiga kynferðislegt samband við sig. Ung kona, sem heitir Erin, hvetur til að maður búi sig undir ýmsar aðstæður þar sem þrýst getur verið á mann. Gott er að sviðsetja ímyndaðar aðstæður og ákveða hvernig maður ætlar að bregðast við. „Það getur virkað kjánalegt,“ segir hún, „en ef maður lendir í þessum aðstæðum er mun ólíklegra að maður verði fyrir kynferðisofbeldi.“

     Í Biblíunni segir: „Hafið því nákvæma gát á hvernig þið breytið, ekki sem fávís heldur sem vís ... því að dagarnir eru vondir.“ – Efesusbréfið 5:15, 16.

     Spyrðu þig: Hvað myndi ég gera ef einhver snerti mig á þann hátt að mér fyndist það óþægilegt?

  •   Vertu með útgönguleið. Samtökin RAINN mæla með að maður „sé með leyniorð sem fjölskylda eða vinir vita af. Ef þú lendir í aðstæðum sem þér finnst óþægilegar geturðu hringt og notað orðið til að láta þau vita án þess að manneskjan, sem þú ert með, fatti það. Vinir þínir eða fjölskylda geta þá komið og sótt þig eða búið til afsökun fyrir þig til að fara.“ Þú getur afstýrt miklum sársauka með því að forðast varasamar aðstæður.

     Í Biblíunni segir: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig en einfeldningarnir halda áfram og gjalda þess.“ – Orðskviðirnir 22:3.

     Spyrðu þig: Hvaða útgönguleið hef ég hugsað mér?

    Vertu alltaf með útgönguleið.

  •   Settu mörk – og haltu þig við þau. Tökum dæmi. Ef þú ert með kærasta/kærustu ættuð þið að ræða saman um hvaða hegðun sé viðeigandi og hvaða ekki. Ef hinum finnst asnalegt að setja mörk ættirðu að finna þér annan kærasta/kærustu – einhvern sem virðir lífsreglur þínar.

     Í Biblíunni segir: „Kærleikurinn ... hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin.“ – 1. Korintubréf 13:4, 5.

     Spyrðu þig: Hvaða lífsreglur hef ég? Hvers konar hegðun er ekki við hæfi?