Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hversu mikilvægt er að vera vinsæll á netinu?

Hversu mikilvægt er að vera vinsæll á netinu?

 Unglingsstelpa sem heitir Elaine segir: „Þegar ég sá að skólafélagar mínir voru með hundruð fylgjenda á netinu hugsaði ég með mér: ,Vá hvað þau eru vinsæl!‘ Ég var satt að segja svolítið afbrýðisöm.“

 Hefur þér einhvern tíma liðið svona? Þá getur þessi grein hjálpað þér að vera ekki of upptekin af því að reyna að vera vinsæll á netinu.

 Hverjar eru hætturnar?

 Biblían segir í Orðskviðunum 22:1: „Gott mannorð er dýrmætara en mikill auður.“ Það er því allt í lagi að vilja hafa gott mannorð og jafnvel vilja að öðrum líki við sig.

 En stundum breytist löngunin í að hljóta viðurkenningu í þrá eftir vinsældum. Getur því fylgt hætta? Onya, sem er 16 ára, myndi svara því játandi:

 „Ég hef séð fólk gera margt klikkað – eins og að stökkva af syllu á annarri hæð í skólanum mínum – bara til að verða vinsælt.“

 Sumir sviðsetja áhættuatriði sín og setja myndbönd af þeim á netið til að fá athygli frá jafnöldrunum. Margir unglingar deildu til dæmis myndböndum af sér að borða þvottaefnahylki – en þau innihalda eiturefni. Þetta er eitthvað sem enginn ætti nokkurn tíma að gera!

 Í Biblíunni segir: „Gerið ekkert af … ómerkilegri löngun til að monta ykkur.“ – Filippíbréfið 2:3, Good News Translation.

 Til umhugsunar:

  •    Hversu mikilvægt finnst þér að vera vinsæll á netinu?

  •    Myndirðu stofna heilsu þinni eða jafnvel lífi í hættu til að fá athygli og viðurkenningu jafnaldranna?

 „Sýndarvinsældir“

 Fólk gerir ekki alltaf eitthvað hættulegt til að hljóta vinsældir. Erica, sem er 22 ára, lýsir annarri aðferð sem fólk beitir:

 „Fólk setur inn margar myndir sem sýna eitthvað spennandi sem það gerir þannig að það lýtur út fyrir að það eigi endalaust af vinum sem það ver miklum tíma með. Þetta eru bara sýndarvinsældir.“

 Cara, sem er 15 ára, segir að sumir noti blekkingar til að búa til þess konar ímynd:

 „Ég hef séð fólk stilla upp myndum til að láta líta út fyrir að það sé í partíi þó að það sé í rauninni bara heima hjá sér.“

 Matthew, sem er 22 ára, viðurkennir að hafa gert eitthvað svipað:

 „Ég setti inn mynd og merkti staðsetninguna sem Mount Everest þó að ég hafi aldrei farið til Asíu.“

 Í Biblíunni segir: „[Við] viljum vera heiðarlegir í öllu sem við gerum.“ – Hebreabréfið 13:18.

 Til umhugsunar:

  •    Ef þú ert á samfélagsmiðlum notar þú þá einhvern tíma blekkingar til að verða vinsælli?

  •    Endurspegla myndirnar og athugasemdirnar sem þú setur inn í raun og veru hver þú ert og hvaða gildi þú hefur?

 Hversu mikilvægt er að hafa marga fylgjendur og að þeir líki við færslur þínar?

 Mörgum finnst þeir þurfa að hafa marga fylgjendur og að margir líki við færslurnar þeirra til að vera vinsælir á netinu. Matthew, sem minnst var á áður, viðurkennir að honum hafi áður fundist það:

 „Ég spurði fólk: ,Hvað ertu með marga fylgjendur?‘ eða: ,Hversu margir hafa líkað við vinsælustu færsluna þína?‘ Ég reyndi að fá fleiri fylgjendur með því að fylgja ókunnugu fólki í von um að það myndi fylgja mér líka. Ég varð sólginn í vinsældir og samfélagsmiðlar gerðu þessa þrá enn sterkari.“

Vinsældir á netinu eru eins og ruslfæði – þær láta þér líða vel í stuttan tíma en eru ekki fullnægjandi.

 Maria, sem er 25 ára, hefur tekið eftir því að fólk byggir mat sitt á sjálfu sér á því hve marga fylgjendur það er með og hve margir líka við færslurnar þeirra:

 „Ef það líka ekki nógu margir við sjálfsmynd sem stelpa setur inn heldur hún að hún sé ljót. Það er auðvitað ekki rétt en margir í þessum sporum bregðast svona við. Það er eins og þau séu að leggja sig sjálf í einelti á netinu.“

 Í Biblíunni segir: „Lítum ekki of stórt á sjálf okkur þannig að við förum að keppa hvert við annað og öfunda hvert annað.“ – Galatabréfið 5:26.

 Til umhugsunar:

  •    Finnst þér samfélagsmiðlar fá þig til að bera þig saman við aðra?

  •    Leggur þú meiri áherslu á að fá sem flesta fylgjendur en að rækta sönn vináttusambönd við þá sem er annt um þig?