Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Sköpun eða þróun? – 3. hluti: Hvers vegna ættirðu að trúa á sköpun?

Sköpun eða þróun? – 3. hluti: Hvers vegna ættirðu að trúa á sköpun?

„Ef þú trúir á sköpun halda sumir kannski að þú sért heimskur, að þú haldir í barnalegar hugmyndir sem foreldrar þínir kenndu þér eða að þú sért í einhverri trú og sért heilaþveginn.“ – Jeanette.

 Líður þér stundum eins og Jeanette? Þá efastu kannski um að þú ættir að trúa á sköpun. Það vill auðvitað enginn að öðrum finnist hann vera heimskur. Hvað er til ráða?

 Mótbárur gegn trú

 1. Ef þú trúir á sköpun heldur fólk að þú sért andsnúinn vísindum.

 „Kennarinn minn segir að þeir sem trúi á sköpun séu bara of latir til að reyna að finna skýringu á því hvernig alheimurinn virkar.“ – Maria.

 Það sem þú ættir að vita: Þeir sem segja þetta eru ekki alveg með á nótunum. Frægir vísindamenn eins og Galíleó Galílei og Isaac Newton trúðu báðir á skapara. Það kom þó ekki í veg fyrir að þeir væru miklir vísindamenn. Sumir vísindamenn nú á tímum eru sama sinnis og finnst alls ekki að trú á sköpun stangist á við vísindin.

 Prófaðu þetta: Farðu á VEFBÓKASAFN Varðturnsins og skrifaðu í leitargluggann „skýrir frá trú sinni“ (hafðu gæsalappirnar með). Þá finnurðu greinar um fólk sem starfar á sviði lækninga og vísinda og trúir á sköpun. Hvað hjálpaði því að komast að þeirri niðurstöðu?

 Kjarni málsins: Að trúa á skapara þýðir ekki að maður sé andsnúinn vísindum. Þegar maður lærir meira um efnisheiminn getur það einmitt styrkt trúna á skapara. – Rómverjabréfið 1:20.

2. Ef þú trúir sköpunarsögu Biblíunnar finnst fólki þú vera öfgatrúarmanneskja.

 „Margir halda að maður sé að grínast þegar maður segist trúa á sköpun. Þeir líta á sköpunarsögu Biblíunnar sem uppspuna.“ – Jasmine.

 Það sem þú ættir að vita: Fólk er oft með ranghugmyndir um sköpunarsögu Biblíunnar. Sumir sköpunarsinnar trúa því til dæmis að jörðin sé ekki nema nokkur þúsund ára gömul eða að allt líf hafi verið skapað á sex sólarhringum. Biblían styður ekki þessar hugmyndir.

  •   Í 1. Mósebók 1:1 er einfaldlega sagt: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“ Þetta stangast ekki á við þá vísindalegu staðreynd að jörðin sé milljarða ára gömul.

  •   Orðið „dagur“, eins og það er notað í sköpunarsögunni, getur vísað til langs tímabils. Í 1. Mósebók 2:4 er orðið „dagur“ til dæmis notað um alla sköpunardagana sex.

 Kjarni málsins: Sköpunarsaga Biblíunnar samræmist vísindalegum staðreyndum.

 Veltu rökunum fyrir þér

 Maður þarf ekki að „trúa í blindni“ til að trúa á sköpun. Trúin byggist öllu heldur á rökhugsun. Hugsaðu um þetta:

 Reynslan segir manni að hvar sem hönnun er býr hönnuður að baki. Þegar þú sérð myndavél, flugvél eða hús hugsarðu eflaust að einhver hafi hannað það. Hvers vegna ættirðu þá ekki að álykta að það sama gildi um mannsaugað, fljúgandi fugla eða heimili okkar, jörðina?

 Til umhugsunar: Verkfræðingar líkja oft eftir því sem er að finna í náttúrunni til að koma með nýjar og betri uppfinningar og þeir vilja réttilega fá heiðurinn af þeim. Er rökrétt að veita mönnum viðurkenningu fyrir verk sín en gefa skaparanum ekki heiðurinn að verkum sínum sem eru ákaflega flókin að gerð?

Er rökrétt að segja að flugvél eigi sér hönnuð en fugl ekki?

 Hjálpargögn til að skoða rökin

 Þú getur styrkt trú þína á sköpun með því að skoða sannanir sem finna má í náttúrunni.

 Prófaðu þetta: Farðu á VEFBÓKASAFN Varðturnsins og skrifaðu í leitargluggann „býr hönnun að baki“ (hafðu gæsalappirnar með). Veldu áhugaverðar fyrirsagnir úr greinaröðinni „Býr hönnun að baki?“ sem hafa birst í blaðinu Vaknið! Taktu eftir hvað er sérstakt við þann hæfileika dýra eða náttúrunnar sem rætt er um í hverri grein. Hvernig sannfærir þetta þig um að hönnuður búi að baki?

 Kafaðu dýpra: Notaðu eftirfarandi bæklinga til að skoða betur rökin fyrir sköpun.

  •  Var lífið skapað?

    •   Jörðin er staðsett á nákvæmlega réttum stað til að líf geti þrifist á henni. – Sjá bls. 4-10.

    •   Dæmi um hönnunarlausnir er að finna í náttúrunni. – Sjá bls. 11-17.

    •   Sköpunarsaga Biblíunnar samræmist vísindum. – Sjá bls. 24-28.

  •   The Origin of Life – Five Questions Worth Asking

    •   Líf getur ekki hafa sprottið sjálfkrafa af lífvana efni. – Sjá bls. 4-7.

    •   Jafnvel einföldustu lífverur eru of flóknar að gerð til að hafa getað myndast af stjórnlausri tilviljun. – Sjá bls. 8-12.

    •   Gagnaminni erfðalykilsins er margfalt meira en nútímatækni ræður yfir. – Sjá bls. 13-21.

    •   Mismunandi tegundir dýra eiga sér ekki sameiginlegan uppruna. Steingervingar sýna að aðaltegundir dýra hafi birst skyndilega en ekki þróast smám saman. – Sjá bls. 22-29.

 „Mér finnst lífríkið og efnisheimurinn vera besta sönnunin um tilvist Guðs, allt frá dýrunum hér á jörð til alheimsins og skipulagsins sem þar ríkir.“ – Thomas.