Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvers vegna ætti ég ekki að elta staðalímyndir? – 2. hluti

Hvers vegna ætti ég ekki að elta staðalímyndir? – 2. hluti

 Hvaða staðalímynd sýna fjölmiðlar?

 Renndu yfir orðin hér að neðan og svaraðu spurningunum.

1. dálkur

2. dálkur

Uppreisnargjarn

Virðulegur

Sjálfselskur

Traustur

Harður

Skilningsríkur

Latur

Vinnusamur

Kærulaus

Ábyrgur

Sviksamur

Heiðarlegur

  1.   Hvaða orð lýsa best unglingsstrákum eins og þeir koma fyrir í fjölmiðlum (þar á meðal kvikmyndum, sjónvarpi og auglýsingum)?

  2.   Hvaða orð lýsa þeirri mynd sem þú vilt að aðrir hafi af þér?

 Líklega eru svörin við fyrri spurningunni sótt í 1. dálkinn og svörin við þeirri síðari í 2. dálkinn. Það er gott ef svo er. Hvers vegna? Vegna þess að myndin, sem fjölmiðlar gefa af karlmönnum, passar líklega ekki við þig í raun og veru – og er ekki heldur ímyndin sem þú ættir að eltast við. Skoðaðu nokkrar ástæður fyrir því.

  •   Í fjölmiðlum eru karlmenn oft látnir vera ofbeldisfullir og uppreisnargjarnir. Í bókinni Why Boys Don’t Talk – and Why It Matters er bent á að vinsælustu karlmennirnir í sjónvarpi, kvikmyndum og íþróttum séu „þeir sem eru mjög kraftmiklir og gefa reiðinni lausan tauminn ... Boðskapurinn er að það sé flott að vera harður af sér og uppreisnargjarn.“

     Til umhugsunar: Hjálpar það þér að verða betri vinur, samstarfsmaður eða eiginmaður að vera uppstökkur? Hvað reynir meira á þig þegar þér er ögrað – að fá útrás fyrir reiðina eða að hafa stjórn á henni? Hvað myndi sýna að þú værir sannur karlmaður?

     Biblían segir: „Sá sem er seinn til reiði er betri en kappi og sá sem stjórnar geði sínu er meiri en sá sem vinnur borgir.“ – Orðskviðirnir 16:32.

    Sá sem hefur stjórn á skapi sínu er sterkari en hermaður.

  •   Í fjölmiðlum er sú mynd gefin af karlmönnum að þeir séu með kynlíf á heilanum. „Í bíómyndum og sjónvarpsþáttum skipta strákar oftar um kærustu en föt,“ segir Chris sem er 17 ára. Gary gengur enn þá lengra og segir: „Í fjölmiðlum er dæmigerður strákur með kynlíf á heilanum.“ Sumar myndir fá mann til að halda að einu markmiðin, sem strákar hafa í lífinu, séu að skemmta sér, fara á fyllerí og stunda kynlíf.

     Til umhugsunar: Er þetta sú mynd sem þú vilt að aðrir hafi af þér? Kemur sannur karlmaður fram við konur eins og kynlífsverur eða sýnir hann þeim virðingu?

     Biblían segir: „Sérhvert ykkar temji sér að halda líkama sínum í helgun og heiðri en ekki í losta.“ – 1. Þessaloníkubréf 4:4, 5.

  •   Í fjölmiðlum eru strákar yfirleitt óábyrgir. Í mörgum vinsælum myndum og sjónvarpsþáttum eru unglingsstrákar oft latir og iðjulausir. Kannski er það þess vegna sem sumir fullorðnir hafa litla trú á hæfni stráka. Gary, sem vitnað var í áður, segir: „Þegar ég var 16 ára átti ég erfitt með að fá vinnu því að þar sem ég bjó vildu atvinnurekendur bara ráða konur. Þeim fannst allir unglingsstrákar vera óábyrgir eða óáreiðanlegir.“

     Til umhugsunar: Er staðalímyndin sanngjörn sem segir að unglingsstrákar séu óábyrgir og óáreiðanlegir? Hvernig geturðu sýnt að þú sért ekki þannig?

     Biblían segir: „Lát engan líta smáum augum á æsku þína en ver fyrirmynd trúaðra í orði og hegðun, í kærleika, trú og hreinlífi.“ – 1. Tímóteusarbréf 4:12.

 Hvað ættirðu að vita?

  •   Fjölmiðlar geta haft mikil áhrif á þig. Fjölmiðlar geta til dæmis talið þér trú um að þú þurfir að fylgja nýjustu tískunni til að vera vinsæll. „Auglýsingar segja hvernig fötum strákar eiga að klæðast og sýna síðan hvernig stelpurnar ganga í röðum á eftir þeim,“ segir Colin sem er 17 ára. „Það fær mann til að vilja kaupa þessi föt. Og ég hef alveg gert það nokkrum sinnum.“

     Til umhugsunar: Sýnir fataval þitt hvers konar manneskja þú ert í raun og veru eða fylgirðu bara fjöldanum? Hver græðir eiginlega á því að þú eyðir peningum til að falla inn í nýjustu tískuna?

     Biblían segir: „Fylgið ekki háttsemi þessa heims.“ – Rómverjabréfið 12:2.

  •   Þú gætir minnkað í áliti hjá stelpum ef þú eltir bara staðalímyndir. Lítum á hvað nokkrar stelpur segja:

    •  „Ég yrði frekar hrifin af strák sem er bara hann sjálfur en af strák sem er óöruggur og þarf að þykjast vera einhver annar en hann er. Strákar, sem gera allt til að ganga í augun á öðrum, líta bara kjánalega út.“ – Anna.

    •  „Auglýsingar telja strákum trú um að þeir þurfi að eiga viss tæki og hafa ákveðinn stíl til að stelpur laðist að þeim. Með aldrinum fara stelpur að horfa fram hjá svona hlutum. Þær líta frekar á eiginleikana og taka eftir hvernig þeir koma fram við aðra. Þær hrífast til dæmis af þeim sem eru heiðarlegir og traustir.“ – Danielle.

    •  „Oft er sætasti strákurinn hrokagikkur og ég vil ekki vera nálægt neinum sem er þannig. Þú getur verið sætasti strákur í heimi en samt verið ljótur ef persónuleikinn samræmist ekki útlitinu.“ – Diana.

     Til umhugsunar: Biblían segir um Samúel þegar hann var strákur: Hann „óx og dafnaði og var þekkur bæði Guði og mönnum“. (1. Samúelsbók 2:26) Hvaða eiginleika þyrftir þú að vinna í til að fólk líti þannig á þig?

     Biblían segir: „Verið karlmannlegir.“ – 1. Korintubréf 16:13, Biblían 1981.

 s Hvað geturðu gert?

  •   Vertu gagnrýninn á staðalímyndir. Biblían staðhæfir að ,allt sem maðurinn girnist, allt sem glepji augað, allt oflæti vegna eigna sé ekki frá föðurnum heldur frá heiminum‘. – 1. Jóhannesarbréf 2:16.

     Fjölmiðlar notfæra sér það sem menn girnast og telja manni trú um að það sé sjálfsagt að eignast það. Vertu því gagnrýninn. Það sem fjölmiðlar halda á lofti er oft bara búið til af sölumönnum til að græða sem mest á þér.

  •   Finndu út hver þú vilt vera. Í Biblíunni segir: ,Íklæðist hinum nýja manni sem Guð er að skapa að nýju í sinni mynd til þess að þið fáið gjörþekkt hann.‘ (Kólossubréfið 3:10) Við ættum sem sagt ekki að ,íklæðast þeim manni‘ sem fjölmiðlar búa til.

     Til að fara eftir þessu ráði geturðu hugsað um eiginleikana sem þú valdir í upphafi greinarinnar – þá sem þú vilt vera þekktur fyrir. Þú gætir byrjað strax að reyna að þroska þá með þér eða bæta þá.

  •   Veldu þér góðar fyrirmyndir. „Eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur,“ segir í Biblíunni. (Orðskviðirnir 13:20) Hvaða menn, sem þú þekkir, hafa reynst vera vitrir? Sumir eru kannski í fjölskyldunni þinni, eins og pabbi þinn eða frændi. Það gætu líka verið fullorðnir vinir og kunningjar. Það eru margir sem eru góðar fyrirmyndir í söfnuði votta Jehóva. Í Biblíunni eru einnig mörg dæmi, eins og Títus sem er ungum mönnum til fyrirmyndar. – Títusarbréfið 2:6-8.

     Tillaga: Í bókinni Imitate Their Faith er að finna góðar fyrirmyndir en þar er rætt um menn eins og Abel, Nóa, Abram, Samúel, Elía, Jónas, Jósef og Pétur.