Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Pössum við saman?

Pössum við saman?

 Hefurðu kynnst einhverjum sem þú gætir hugsað þér að giftast? Hvernig geturðu vitað hvort þið passið saman?

 Það er mikilvægt að horfa ekki aðeins á það sem sést á yfirboðinu. Sætasta stelpan er kannski ekki mjög trygg og það gæti verið að vinsælasti strákurinn sé ekki með bestu siðferðisgildin. Þú vilt örugglega kynnast einhverjum sem þér líður vel með – einhverjum sem þú átt skap með og hefur svipuð markmið og þú. – 1. Mósebók 2:18; Matteus 19:4-6.

Líttu undir yfirborðið

 Líttu aðeins nánar á vin þinn eða vinkonu. En gættu þín. Þú gætir freistast til að sjá bara það sem þig langar til að sjá. Gefðu þér því góðan tíma. Reyndu að finna út hver hann eða hún er innst inni.

 Fólk sem er að draga sig saman horfir ekki alltaf undir yfirborðið. Í staðinn bendir það fljótt á það sem það á sameiginlegt. „Við erum með sama tónlistarsmekk.“ „Við erum með svipuð áhugamál.“ „Við erum sammála um allt!“ En það er ekki nóg að horfa á það sem sést á yfirborðinu. Þú þarft að kynnast ,hinum hulda manni hjartans‘. (1. Pétursbréf 3:4; Efesusbréfið 3:16) Í stað þess að einblína á það sem þið eruð sammála um gæti verið gagnlegt að sjá hvað gerist þegar þið eruð ósammála.

 Veltu eftirfarandi fyrir þér:

  •   Hvernig tekur vinur þinn eða vinkona á ágreiningi? Stendur hann eða hún fast á sínu, fær reiðiköst eða notar ljótt orðbragð? (Galatabréfið 5:19, 20; Kólossubréfið 3:8) Eða sýnir hann eða hún sanngirni með því að vera fús til að gefa eftir og halda friðinn þegar málið snýst ekki um eitthvað sem er rétt eða rangt? – Jakobsbréfið 3:17.

  •   Er viðkomandi stjórnsamur, afbrýðisamur eða eigingjarn á þig? Heimtar hann að fá að vita allt sem þú gerir? „Ég heyri stundum um pör sem rífast vegna þess að annað þeirra vill að hitt láti stöðugt vita af sér,“ segir Nicole. „Ég held að það viti ekki á gott.“ – 1. Korintubréf 13:4.

  •   Hvernig líta aðrir á hann eða hana? Kannski væri gott að spyrja fólk sem hafa þekkt hann eða hana í einhvern tíma, til dæmis þroskað fólk í söfnuðinum. Þannig geturðu komist að því hvort viðkomandi hafi „gott orð“ á sér. – Postulasagan 16:1, 2.