Matteus segir frá 6:1–34

  • FJALLRÆÐAN (1–34)

    • Ekki vinna góðverk til að sýnast (1–4)

    • Að biðja bæna (5–15)

      • Fyrirmynd að bæn (9–13)

    • Föstur (16–18)

    • Fjársjóðir á jörð og á himni (19–24)

    • Hættið að hafa áhyggjur (25–34)

      • Einbeitið ykkur fyrst að ríki Guðs (33)

6  Gætið þess að vinna ekki góðverk* ykkar í augsýn manna til að sýnast fyrir þeim. Annars fáið þið engin laun frá föður ykkar á himnum.  Þegar þú gefur fátækum* skaltu því ekki láta blása í lúður fyrir þér eins og hræsnarar gera í samkunduhúsum og á götum til að fá lof manna. Trúið mér, þeir hafa tekið út laun sín að fullu.  Þegar þú gefur fátækum skaltu ekki láta vinstri hönd þína vita hvað sú hægri gerir  þannig að gjöfin sé gefin í leynum. Faðir þinn, sem horfir á í leynum, mun þá launa þér.  Þegar þið biðjist fyrir skuluð þið ekki heldur hegða ykkur eins og hræsnararnir því að þeir vilja gjarnan biðja standandi í samkunduhúsum og á gatnamótum til að sýnast fyrir mönnum. Trúið mér, þeir hafa tekið út laun sín að fullu.  En þegar þú biður skaltu fara inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja til föður þíns sem er í leynum. Faðir þinn, sem horfir á í leynum, mun þá launa þér.  Þegar þið biðjist fyrir skuluð þið ekki fara með sömu orðin aftur og aftur eins og fólk af þjóðunum gerir. Það heldur að það verði bænheyrt fyrir orðaflauminn.  Líkist þeim ekki því að faðir ykkar veit hvers þið þarfnist, jafnvel áður en þið biðjið hann.  Þið skuluð biðja þannig: ‚Faðir okkar á himnum, við biðjum að nafn þitt helgist.* 10  Láttu ríki þitt koma. Láttu vilja þinn verða á jörð eins og á himni. 11  Gefðu okkur brauð fyrir daginn í dag 12  og fyrirgefðu skuldir okkar eins og við höfum fyrirgefið þeim sem skulda okkur. 13  Leiddu okkur ekki í freistingu* heldur frelsaðu* okkur frá hinum vonda.‘ 14  Ef þið fyrirgefið mönnum það sem þeir gera á hlut ykkar mun faðir ykkar á himnum líka fyrirgefa ykkur. 15  En ef þið fyrirgefið ekki öðrum það sem þeir gera á hlut ykkar mun faðir ykkar ekki heldur fyrirgefa ykkur það ranga sem þið gerið. 16  Þegar þið fastið skuluð þið hætta að vera döpur á svip eins og hræsnararnir. Þeir hirða ekki um útlit sitt því að þeir vilja sýna að þeir fasta. Trúið mér, þeir hafa tekið út laun sín að fullu. 17  En þegar þú fastar skaltu bera olíu á höfuðið og þvo þér í framan 18  svo að menn taki ekki eftir að þú fastar heldur aðeins faðir þinn sem er í leynum. Faðir þinn, sem horfir á í leynum, mun þá launa þér. 19  Hættið að safna fjársjóðum á jörð þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. 20  Safnið heldur fjársjóðum á himni þar sem hvorki mölur né ryð eyðir og þjófar brjótast ekki inn og stela. 21  Þar sem fjársjóður þinn er þar verður líka hjarta þitt. 22  Augað er lampi líkamans. Ef augað sér skýrt* verður allur líkami þinn bjartur.* 23  En ef augað beinist að hinu illa* verður allur líkami þinn dimmur. Ef ljósið í þér er í rauninni myrkur, mikið er þá myrkrið! 24  Enginn getur þjónað tveim herrum því að annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða er trúr öðrum og fyrirlítur hinn. Þið getið ekki þjónað Guði og auðnum. 25  Þess vegna segi ég ykkur: Hættið að hafa áhyggjur af því hvað þið eigið að borða eða drekka til að viðhalda lífi* ykkar, eða hverju þið eigið að klæðast. Er ekki lífið* meira virði en maturinn og líkaminn meira en fötin? 26  Virðið fyrir ykkur fugla himinsins. Þeir hvorki sá né uppskera né safna í hlöður en faðir ykkar á himnum fóðrar þá samt. Eruð þið ekki meira virði en þeir? 27  Hvert ykkar getur með áhyggjum lengt ævi sína um eina alin?* 28  Og hvers vegna hafið þið áhyggjur af fatnaði? Lærið af liljum vallarins, hvernig þær vaxa. Þær vinna hvorki né spinna 29  en ég segi ykkur að jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki eins fallega klæddur og ein þeirra. 30  Fyrst Guð prýðir þannig gróður vallarins sem stendur í dag og er kastað í ofn á morgun, skyldi hann þá ekki miklu frekar klæða ykkur, þið trúlitlu? 31  Segið því aldrei áhyggjufull: ‚Hvað eigum við að borða?‘ eða: ‚Hvað eigum við að drekka?‘ eða: ‚Hverju eigum við að klæðast?‘ 32  Þjóðirnar keppast eftir öllu þessu en faðir ykkar á himnum veit að þið þarfnist alls þessa. 33  Einbeitið ykkur því fyrst og fremst að ríki Guðs og réttlæti, þá fáið þið allt hitt að auki. 34  Hafið ekki áhyggjur af morgundeginum því að morgundeginum fylgja sínar áhyggjur. Hverjum degi nægja sín vandamál.

Neðanmáls

Orðrétt „réttlætisverk“.
Eða „gefur miskunnargjafir“. Sjá orðaskýringar.
Eða „verði upphafið; verði virt sem heilagt“.
Eða „Leyfðu ekki að við látum undan freistingu“.
Eða „bjargaðu“.
Eða „augað beinist að einu“. Orðrétt „er einfalt“.
Eða „upplýstur“.
Eða „er öfundsjúkt“. Orðrétt „er illt“.
Eða „sál“.
Eða „sálin“.
Sjá orðaskýringar.