Bréfið til Galatamanna 5:1–26

5  Kristur frelsaði okkur til að við hlytum slíkt frelsi. Verið því staðföst og látið ekki leggja þrælkunarok á ykkur aftur.  Takið eftir hvað ég, Páll, segi ykkur: Ef þið látið umskerast kemur Kristur ykkur ekki að neinu gagni.  Ég segi enn og aftur við hvern þann mann sem lætur umskerast að hann er skuldbundinn til að halda lögin í heild sinni.  Þið eruð orðin viðskila við Krist, þið sem reynið að hljóta réttlætingu með hjálp laganna. Þið hafið sagt skilið við einstaka góðvild hans.  En við fyrir okkar leyti bíðum óþreyjufull og vongóð með hjálp andans eftir að réttlætast vegna trúar.  Hjá þeim sem eru sameinaðir Kristi Jesú hefur það ekkert gildi að vera umskorinn eða óumskorinn. Það sem skiptir máli er trú sem birtist í kærleika.  Þið hlupuð vel. Hver kom í veg fyrir að þið hélduð áfram að hlýða sannleikanum?  Hver taldi ykkur hughvarf? Ekki sá sem kallaði ykkur.  Lítið súrdeig gerjar allt deigið. 10  Ég treysti að þið sem eruð sameinuð Drottni hugsið áfram eins og ég, en sá sem kemur ykkur úr jafnvægi, hver sem hann er, fær verðskuldaðan dóm. 11  Hvað mig snertir, bræður og systur, ef ég væri enn að boða umskurð hvers vegna er ég þá ofsóttur? Boðunin um kvalastaurinn* væri þá engin hneykslunarhella. 12  Ég vildi óska að þeir sem reyna að koma ykkur í uppnám myndu vana sjálfa sig.* 13  Þið voruð kölluð til frelsis, bræður og systur, en notið ekki þetta frelsi sem tilefni til að svala girndum holdsins heldur þjónið hvert öðru í kærleika. 14  Lögin í heild sinni uppfyllast í* þessu eina boðorði: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ 15  En ef þið bítist og ráðist hvert á annað gætið þá að ykkur, þið gætuð tortímt hvert öðru. 16  Ég segi ykkur: Lifið í andanum og þá látið þið ekki undan neinum girndum holdsins. 17  Holdið með girndum sínum stendur gegn andanum og andinn gegn holdinu. Þetta tvennt stendur hvort gegn öðru þannig að þið gerið ekki það sem þið viljið gera. 18  Auk þess eruð þið ekki undir lögum ef þið látið andann leiða ykkur. 19  Verk holdsins eru augljós. Þau eru kynferðislegt siðleysi,* óhreinleiki, blygðunarlaus hegðun,* 20  skurðgoðadýrkun, dulspeki,* fjandskapur, deilur, afbrýði, reiðiköst, ágreiningur, sundrung, sértrúarklofningur, 21  öfund, ofdrykkja, svallveislur og annað þessu líkt. Ég vara ykkur við, eins og ég hef áður gert, að þeir sem stunda slíkt erfa ekki ríki Guðs. 22  Ávöxtur andans er hins vegar kærleikur, gleði, friður, þolinmæði,* góðvild, gæska, trú, 23  mildi og sjálfstjórn. Gegn slíku eru engin lög. 24  Og þeir sem tilheyra Kristi Jesú hafa staurfest holdið með ástríðum þess og girndum. 25  Ef við lifum í andanum skulum við líka hegða okkur í samræmi við leiðsögn andans. 26  Lítum ekki of stórt á sjálf okkur þannig að við förum að keppa hvert við annað og öfunda hvert annað.

Neðanmáls

Sjá orðaskýringar.
Eða „gelda sjálfa sig; verða geldingar“, og verða þar með óhæfir til að fara eftir lögunum sem þeir aðhylltust.
Eða hugsanl. „má draga saman með“.
Á grísku pornei′a. Sjá orðaskýringar.
Eða „ósvífin hegðun“. Á grísku asel′geia. Sjá orðaskýringar.
Eða „spíritismi; galdrar“. Gríska orðið farmakí′a sem vísar til notkunar lyfja eða fíkniefna.
Eða „langlyndi“.