Hoppa beint í efnið

Hvað segir Biblían um gjafir?

Hvað segir Biblían um gjafir?

Svar Biblíunnar

 Í Biblíunni erum við hvött til að gefa af fúsu geði og af réttum hvötum. Samkvæmt henni gleðja slíkar gjafir ekki einungis þiggjandann heldur líka þann sem gefur þær. (Orðskviðirnir 11:25; Lúkas 6:38) Jesús sagði: „Sælla er að gefa en þiggja.“ – Postulasagan 20:35.

 Hvenær eru gjafir þóknanlegar Guði?

 Gjafir eru Guði þóknanlegar þegar þær eru gefnar af fúsum og frjálsum vilja. „Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara.“ – 2. Korintubréf 9:7.

 Trú sem er Guði þóknanleg felur í sér að gefa af heilu hjarta. (Jakobsbréfið 1:27) Sá vinnur með Guði sem sýnir örlæti og réttir þeim hjálparhönd sem þarfnast þess. Guð lítur á það sem lán til sín. (Orðskviðirnir 19:17) Í Biblíunni er sagt að Guð sjálfur endurgjaldi þeim sem gefur þannig. – Lúkas 14:12-14.

 Hvenær eru gjafir vanþóknanlegar Guði?

 Þegar þær eru gefnar af eigingjörnum hvötum. Dæmi:

 Þegar þær styðja verk eða viðhorf sem Guð fordæmir. Það væri til dæmis rangt að gefa þeim peninga sem nota þá í fjárhættuspil eða til að misnota áfengi eða neyta vímuefna. (1. Korintubréf 6:9, 10; 2. Korintubréf 7:1) Að sama skapi væri rangt að gefa þeim peninga sem getur séð fyrir sér en neitar að gera það. – 2. Þessaloníkubréf 3:10.

 Þegar það kemur í veg fyrir að maður axli þá ábyrgð sem Guð hefur gefið manni. Biblían kennir að höfuð fjölskyldunnar verður að sjá fyrir þörfum fjölskyldu sinnar. (1. Tímóteusarbréf 5:8) Það væri ekki rétt fyrir höfuð fjölskyldunnar að gefa öðrum svo mikið að það stofni eigin fjölskyldu í voða. Á sama hátt fordæmdi Jesús þá sem neituðu að sjá fyrir öldruðum foreldrum sínum af því að allir þeirra fjármunir væru gjöf til musterisins. – Markús 7:9-13.