Hoppa beint í efnið

Hvað segir Biblían um vináttu?

Hvað segir Biblían um vináttu?

Svar Biblíunnar

 Vinátta getur stuðlað að hamingjuríku og góðu lífi. Góðir vinir kalla fram það besta í fari hver annars og styrkja hver annan. – Orðskviðirnir 27:17.

 En Biblían bendir á mikilvægi þess að vanda valið á vinum. Hún varar við afleiðingum slæms félagsskapar. (Orðskviðirnir 13:20; 1. Korintubréf 15:33) Slæmur félagsskapur getur fengið mann til að taka heimskulegar ákvarðanir eða spillt góðum eiginleikum.

Í þessari grein

 Hvað gerir mann að góðum vini?

 Biblían kennir að náin vináttubönd ættu að byggjast á einhverju djúpstæðara en sameiginlegum áhugamálum. Í Sálmi 119:63 segir til dæmis: „Ég er vinur allra sem óttast þig a og þeirra sem halda fyrirmæli þín.“ Taktu eftir að biblíuritarinn segist hafa valið sér vini sem bjuggu yfir heilbrigðum ótta við að vanþóknast Guði og löngun til að lifa eftir mælikvarða Guðs.

 Biblían bendir líka á hvaða eiginleika góður vinur ætti að hafa. Hún segir til dæmis:

  •   „Sannur vinur elskar alltaf og er sem bróðir á raunastund.“ – Orðskviðirnir 17:17.

  •   „Sumir vinir hika ekki við að gera hver öðrum mein en til er vinur sem er tryggari en bróðir.“ – Orðskviðirnir 18:24.

 Á þessum versum sjáum við að góður vinur er tryggur, elskuríkur, vingjarnlegur og örlátur. Hægt er að reiða sig á að góður vinur styðji mann í gegnum súrt og sætt. Góður vinur er líka nógu hugrakkur til að vara okkur við ef við erum á rangri braut eða erum við það að taka slæma ákvörðun. – Orðskviðirnir 27:6, 9.

 Dæmi í Biblíunni um góð vináttubönd

 Í Biblíunni eru dæmi um náin vináttutengsl á milli fólks á ólíkum aldri, uppruna, menningu og valdastöðu. Skoðum þrjú dæmi:

  •   Rut og Naomí. Rut var tengdadóttir Naomí og það var líklega mikill aldursmunur á þeim. Auk þess voru þær af ólíkum menningaruppruna. En þrátt fyrir það mynduðu þær mjög náið og kærleiksríkt vináttusamband. – Rutarbók 1:16.

  •   Davíð og Jónatan. Þó að Jónatan hafi verið um 30 árum eldri en Davíð segir í Biblíunni að þeir hafi verið „nánir vinir“. – 1. Samúelsbók 18:1.

  •   Jesús og postular hans. Jesús hafði viss yfirráð yfir postulunum þar sem hann var kennari þeirra og meistari. (Jóhannes 13:13) En hann leit ekki svo á að þeir ættu ekki skilið að vera vinir hans. Jesús átti náið samband við þá sem fylgdu kenningum hans. Hann sagði: „Ég kalla ykkur vini því að ég hef sagt ykkur allt sem ég hef heyrt hjá föður mínum.“ – Jóhannes 15:14, 15.

 Getum við verið vinir Guðs?

 Já, fólk getur eignast vináttu Guðs. Í Biblíunni segir að hann sé „náinn vinur hinna réttlátu“. (Orðskviðirnir 3:32) Með öðrum orðum vingast Guð við þá sem reyna að vera góðir, heiðarlegir, virðulegir og leggja sig fram um að lifa í samræmi við mælikvarða hans á réttu og röngu. Trúfasti maðurinn Abraham er til dæmis kallaður vinur Guðs í Biblíunni. – 2. Kroníkubók 20:7; Jesaja 41:8; Jakobsbréfið 2:23.

a Af samhengi þessa sálms sést að „þig“ í þessu versi á við um Guð.