Esekíel 18:1–32

  • Hver og einn ber ábyrgð á syndum sínum (1–32)

    • Sú sál sem syndgar skal deyja (4)

    • Sonur á ekki að gjalda fyrir syndir föður síns (19, 20)

    • Engin ánægja yfir að vondur maður deyi (23)

    • Iðrun veitir líf (27, 28)

18  Orð Jehóva kom aftur til mín:  „Hvað merkir þessi málsháttur sem þið farið með í Ísraelslandi: ‚Feðurnir borðuðu súr vínber en tennur sonanna urðu sljóar‘?  ‚Svo sannarlega sem ég lifi,‘ segir alvaldur Drottinn Jehóva, ‚munuð þið ekki vitna framar í þennan málshátt í Ísrael.  Allar sálir tilheyra* mér. Sál föðurins og eins sál sonarins tilheyra mér. Sú sál* sem syndgar skal deyja.  Segjum að maður sé réttlátur og geri það sem er rétt og réttlátt.  Hann borðar ekki skurðgoðafórnir á fjöllunum og bindur ekki vonir sínar við viðbjóðsleg skurðgoð* Ísraelsmanna. Hann svívirðir ekki eiginkonu náunga síns og hefur ekki mök við konu sem er á blæðingum.  Hann fer ekki illa með neinn heldur skilar því sem skuldari hefur látið að veði. Hann rænir engan, gefur þeim sem er svangur sinn eigin mat og lætur nakinn mann fá föt.  Hann lánar ekki gegn vöxtum og stundar ekki okur heldur forðast hvers kyns ranglæti. Hann dæmir með réttlæti milli manna sem eiga í deilum.  Hann fylgir ákvæðum mínum og heldur lög mín því að hann vill vera trúr. Slíkur maður er réttlátur og fær að lifa,‘ segir alvaldur Drottinn Jehóva. 10  ‚En segjum að hann eignist son sem verður ræningi eða morðingi* eða gerir eitthvað af öllu þessu 11  (þótt faðirinn hafi ekki gert neitt af því) – hann borðar skurðgoðafórnir á fjöllunum, svívirðir eiginkonu náunga síns, 12  fer illa með bágstadda og fátæka, fremur rán, skilar ekki veðsettum hlut, bindur vonir sínar við viðbjóðsleg skurðgoð, tekur þátt í viðurstyggilegum siðum, 13  stundar okur og lánar gegn vöxtum – þá mun sonurinn ekki lifa. Hann skal tekinn af lífi fyrir allar þær viðurstyggðir sem hann hefur framið. Hann á sjálfur sök á dauða sínum.* 14  Segjum að maður eigi son sem sér allar syndir föður síns en drýgir þær ekki sjálfur þótt hann sjái þær. 15  Hann borðar ekki skurðgoðafórnir á fjöllunum, hann bindur ekki vonir sínar við viðbjóðsleg skurðgoð Ísraelsmanna, hann svívirðir ekki eiginkonu náunga síns, 16  hann fer ekki illa með neinn, hann heldur ekki því sem hann hefur fengið að veði, hann fremur ekki rán, hann gefur þeim sem er svangur sinn eigin mat og lætur nakinn mann fá föt, 17  hann kúgar ekki fátæka, hann stundar ekki okur né lánar gegn vöxtum og hann heldur lög mín og fylgir ákvæðum mínum. Slíkur maður deyr ekki vegna synda föður síns. Hann á að halda lífi. 18  En þar sem faðir hans hafði fé af öðrum, rændi bróður sinn og gerði það sem var illt meðal fólks síns mun hann deyja fyrir synd sína. 19  Þið spyrjið nú: „Af hverju þarf sonurinn ekki að gjalda fyrir syndir föður síns?“ Sonurinn hefur gert það sem er rétt og réttlátt, fylgt öllum ákvæðum mínum og haldið þau. Þess vegna fær hann að lifa. 20  Sú sál* sem syndgar skal deyja. Sonur á ekki að gjalda fyrir syndir föður síns og faðir á ekki að gjalda fyrir syndir sonar síns. Réttlátur maður skal dæmdur eftir sínu eigin réttlæti og vondur maður eftir sinni eigin illsku. 21  Ef vondur maður snýr frá öllum syndunum sem hann hefur drýgt, heldur ákvæði mín og gerir það sem er rétt og réttlátt heldur hann lífi. Hann skal ekki deyja. 22  Hann þarf ekki að svara til saka fyrir brot sín. Hann fær að lifa af því að hann gerir það sem er rétt.‘ 23  ‚Hef ég einhverja ánægju af því að vondur maður deyi?‘ segir alvaldur Drottinn Jehóva. ‚Vil ég ekki frekar að hann snúi baki við líferni sínu og haldi lífi?‘ 24  ‚En ef réttlátur maður fer út af réttri braut, gerir það sem er illt og vinnur sömu andstyggilegu verkin og hinir illu, fær hann þá að lifa? Nei, öll réttlætisverk hans gleymast. Hann deyr vegna ótrúmennsku sinnar og syndanna sem hann drýgði. 25  En þið segið: „Það sem Jehóva gerir er ekki rétt.“ Hlustið nú, Ísraelsmenn! Er það ég sem breyti ekki rétt? Eruð það ekki frekar þið? 26  Ef réttlátur maður fer út af réttri braut, gerir það sem er illt og deyr vegna þess, deyr hann vegna síns eigin ranglætis. 27  Og þegar vondur maður snýr frá því illa sem hann hefur gert og gerir það sem er rétt og réttlátt bjargar hann lífi sínu.* 28  Ef hann áttar sig á því illa sem hann hefur gert og hættir því heldur hann lífi. Hann skal ekki deyja. 29  En Ísraelsmenn segja: „Það sem Jehóva gerir er ekki rétt.“ Er það virkilega ég sem breyti ekki rétt, Ísraelsmenn? Eruð það ekki frekar þið?‘ 30  ‚Þess vegna, Ísraelsmenn, ætla ég að dæma hvern og einn ykkar eftir verkum hans,‘ segir alvaldur Drottinn Jehóva. ‚Snúið frá, já, snúið algerlega baki við öllum afbrotum ykkar svo að þau verði ykkur ekki til hrösunar og þið verðið sekir. 31  Látið af öllum afbrotum ykkar og breytið hjartalagi ykkar og hugarfari.* Af hverju ættuð þið að deyja, Ísraelsmenn?‘ 32  ‚Ég hef ekki ánægju af dauða nokkurs manns,‘ segir alvaldur Drottinn Jehóva. ‚Snúið því við svo að þið haldið lífi.‘“

Neðanmáls

Eða „Líf allra tilheyrir“. Sjá orðaskýringar.
Eða „manneskja“. Sjá orðaskýringar.
Hebreska orðið lýsir fyrirlitningu. Hugsanlegt er að það sé skylt orði sem merkir ‚mykja‘.
Orðrétt „úthellir blóði“.
Orðrétt „Blóð hans hvílir á honum“.
Eða „manneskja“.
Eða „sál sinni“. Sjá orðaskýringar.
Orðrétt „skapið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda“.