Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Loftslagsbreytingar og framtíð okkar – hvað segir Biblían?

Loftslagsbreytingar og framtíð okkar – hvað segir Biblían?

 „Loftslagsbreytingar eru nú þegar orðnar að stórslysi. Jörðin er að verða óbyggileg.“ – The Guardian

 Mannkynið stendur frammi fyrir vandamáli sem það hefur skapað sér sjálft. Flestir vísindamenn eru sammála um að hlýnun jarðarinnar sé mönnum að kenna. Þessi hlýnun hefur þegar orsakað hörmungar. Þar á meðal eru eftirfarandi:

  •   Tíðari og ofsafengnari veðursveiflur eins og hitabylgjur, þurrkar og stormar sem orsaka síðan meiri flóð og skógarelda.

  •   Bráðnun jökla og bráðnun íss á norðurheimskautinu.

  •   Hækkandi sjávarmál.

 Loftslagsbreytingar hafa haft áhrif út um allan heim. Eftir að hafa lýst ástandinu í 193 löndum segir í tímaritinu New York Times: „Plánetan er að senda út neyðarkall.“ Vegna dauða og þjáninga sem loftslagsbreytingar hafa valdið hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin kallað þær „stærstu heilsuógn sem mannkynið stendur frammi fyrir“.

 En við höfum ástæðu til að horfa vongóð til framtíðarinnar. Biblían sagði fyrir um það sem er að gerast og hvers vegna við getum búist við því að Guð grípi til aðgerða og hvað hann muni gera til að tryggja framtíð okkar.

Eru loftslagsbreytingar uppfylling á biblíuspádómum?

 Já. Loftslagsbreytingar af völdum hlýnunar jarðar koma heim og saman við atburði sem Biblían sagði fyrir varðandi okkar tíma.

 Spádómur: Guð mun „eyða þeim sem eyðileggja jörðina“. – Opinberunarbókin 11:18, neðanmáls.

 Biblían sagði fyrir að sá tími kæmi að verk manna myndu næstum eyðileggja jörðina. Hlýnun jarðarinnar sýnir að fólk nú á dögum er að eyðileggja jörðina meira en nokkru sinni fyrr.

 Þessi spádómur bendir á eina ástæðu fyrir því að við getum ekki vænst þess að mannkynið bjargi jörðinni. Tökum eftir að Guð grípur til aðgerða meðan fólk er að „eyðileggja jörðina“. Hversu mikið sem fólk leggur á sig af góðum hug að berjast gegn loftslagsbreytingum er það ekki nóg til að forða mannkyninu frá því að eyðileggja jörðina.

 Spádómur: „Ógnvekjandi atburðir munu eiga sér stað.“ – Lúkas 21:11.

 Biblían sagði fyrir að „ógnvekjandi atburðir“, eða hræðilegir atburðir, yrðu á okkar dögum. Loftslagsbreytingar hafa orsakað hræðileg veður um alla jörð. Sumir þjást af kvíða vegna ástands umhverfisins. Þeir óttast að það fari svo illa að menn komist ekki af.

 Spádómur: „Á síðustu dögum verða hættulegir og erfiðir tímar. Menn verða eigingjarnir, elska peninga … ótrúir … ósáttfúsir … sviksamir, þverir.“ – 2. Tímóteusarbréf 3:1–4.

 Biblían sagði fyrir um eiginleika manna og hegðun sem orsakar umhverfisvandann. Ríkisstjórnir og fyrirtæki hafa hagnað að leiðarljósi og hirða ekki um það hvernig líf fólks í framtíðinni verður. Og þegar menn reyna að vinna saman komast þeir ekki að samkomulagi hvað sé nauðsynlegt að gera til að stöðva hlýnun jarðar.

 Þessi spádómur sýnir að við ættum ekki að búast við því að fólk almennt breyti hegðun sinni til að vernda jörðina. Biblían bendir á að fólk sem hafi eigingjarnar tilhneigingar ,gangi æ lengra í illskunni‘. – 2. Tímóteusarbréf 3:13.

Hvernig getum við verið viss um að Guð taki til sinna ráða?

 Biblían gefur til kynna að Jehóva a Guði, skapara okkar, sé mjög annt um jörðina og íbúa hennar. Skoðum þrjú biblíuvers sem sýna að hann á eftir að grípa til sinna ráða.

  1.  1. ,Guð skapaði jörðina ekki til einskis heldur til að hún væri byggð.‘ – Jesaja 45:18.

     Guð lætur fyrirætlun sína með jörðina ná fram að ganga. (Jesaja 55:11) Hann lætur ekki eyðileggja hana eða gera hana óbyggilega.

  2.  2. „Hinir auðmjúku erfa jörðina og gleðjast yfir miklum friði. Hinir réttlátu munu erfa jörðina og búa á henni að eilífu.“ – Sálmur 37:11, 29.

     Guð lofar að mannkynið muni lifa að eilífu á jörðinni við friðsöm skilyrði.

  3.  3. „En hinum illu verður útrýmt af jörðinni.“ – Orðskviðirnir 2:22.

     Guð lofar að fjarlægja þá sem halda áfram að gera það sem er illt, þar á meðal þá sem eyðileggja jörðina.

Hvernig ætlar Guð að tryggja okkur góða framtíð?

 Hvernig mun Guð standa við loforð sín varðandi jörðina? Hann gerir það með heimsstjórn sem er kölluð Guðsríki. (Matteus 6:10) Þessi stjórn mun ríkja frá himni. Hún þarf ekki að semja við stjórnir manna um málefni sem snerta jörðina og umhverfi hennar. Guðsríki leysir stjórnir manna af hólmi. – Daníel 2:44.

 Guðsríki felur í sér góðar fréttir fyrir allt mannkyn og náttúruna. (Sálmur 96:10–13) Skoðum hvað Jehóva Guð ætlar að gera fyrir atbeina ríkis síns.

  •   Leysa umhverfisvandann

     Hvað segir Biblían? „Óbyggðirnar og skrælnað landið munu fagna, eyðisléttan gleðjast og blómstra eins og saffrankrókus.“ – Jesaja 35:1.

     Hvaða þýðingu hefur það fyrir framtíð okkar? Jehóva mun lækna plánetuna, jafnvel staði sem hafa orðið fyrir alvarlegum skaða af völdum manna.

  •   Ná tökum á öfgum í veðrinu

     Hvað segir Biblían? „[Jehóva] stillir storminn og öldur hafsins lægir.“ – Sálmur 107:29.

     Hvaða þýðingu hefur það fyrir framtíð okkar? Jehóva hefur mátt til að stjórna náttúruöflunum. Fólk þjáist ekki lengur vegna öfga í veðrinu.

  •   Kenna fólki að annast jörðina vel

     Hvað segir Biblían? „Ég fræði þig og vísa þér veginn sem þú átt að ganga.“ – Sálmur 32:8.

     Hvaða þýðingu hefur það fyrir framtíð okkar? Jehóva fól mannkyninu þá ábyrgð að annast jörðina. (1. Mósebók 1:28; 2:15) Hann mun kenna okkur hvernig við getum gert það á bestan hátt og lifað í sátt við náttúruna.

a Jehóva er nafn Guðs. (Sálmur 83:18) Sjá greinina „Hver er Jehóva?