Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Veðuröfgar – getur Biblían hjálpað þegar við finnum fyrir þeim?

Veðuröfgar – getur Biblían hjálpað þegar við finnum fyrir þeim?

 Ert þú í hópi þeirra milljóna manna sem hafa fundið fyrir veðuröfgum? Veður sem valda skaða birtast í ýmsum myndum. Fellibyljir, hvirfilbyljir og skýstrókar valda oft flóðum og umfangsmiklum skaða. Miklar rigningar koma af stað aurskriðum og stormum geta fylgt eldingar sem kveikja skelfilega skógarelda. Þurrkar, hitabylgjur og vetrarstormar geta valdið jafn mikilli eyðileggingu.

 Víða um heim verða öfgaveður öflugri og færast stöðugt í aukanna. Í skýrslu frá Alþjóðasambandi Rauða krossins og Rauða hálfmánans segir: „Sífellt fleiri verða fyrir slíkum hamförum eftir því sem flóðum og óveðrum fjölgar og þurrkar aukast. Þetta kostar mannslíf, gerir fólki ókleift að sjá fyrir sér og milljónir manna missa heimili sín á hverju ári.“

 Þegar slíkar hamfarir verða er það mikið áfall fyrir fólk, ekki bara efnislegur missir. Það hefur kannski misst eigur sínar, heimili eða jafnvel ástvin.

 Ef þú hefur fundið fyrir veðuröfgum á eigin skinni getur Biblían hjálpað þér að takast á við það. Hún veitir huggun, von og góð ráð sem hafa hjálpað mörgum í slíkum aðstæðum. (Rómverjabréfið 15:4) Hún svarar líka mikilvægri spurningu sem margir velta fyrir sér: Hvers vegna leyfði Guð að þetta gerðist – er hann að refsa mér?

Veðuröfgar nú á tímum eru ekki refsing frá Guði

 Biblían kennir að Guð sé ekki ábyrgur fyrir þjáningum manna. Hún fullvissar okkur um að ,ekki sé hægt að freista Guðs með hinu illa og sjálfur reyni hann engan‘. (Jakobsbréfið 1:13) Það þýðir að hann stendur ekki á bak við þær veðuröfgar sem fólk upplifir nú á dögum.

 Í Biblíunni er vissulega sagt frá atburðum þar sem Guð notaði náttúruöflin til að refsa vondum mönnum. En veðuröfgarnar nú á dögum dynja á án viðvörunar og ganga yfir bæði góða sem vonda. Þannig var það alls ekki í þeim atburðum sem Biblían segir frá. Guð varaði alltaf við því sem koma skyldi, verndaði hina saklausu og útskýrði hvers vegna hann gerði það sem hann gerði. Hann skýrði til dæmis frá því hvers vegna hann ætlaði að láta flóð koma um alla jörð á tímum Nóa. Hann varaði fólk við því og verndaði Nóa og fjölskyldu hans. – 1. Mósebók 6:13; 2. Pétursbréf 2:5.

 Í greininni „Hvað segir Biblían um náttúruhamfarir?“ er hægt að lesa meira um það hvernig við vitum að náttúruhamfarir nú á dögum eru ekki refsing frá Guði.

Guði er annt um þá sem verða fyrir veðurhamförum

 Biblían sýnir að Jehóva Guð a er umhyggjusamur og samúðarfullur. Eftirfarandi vers sýna fram á það:

  •   Jesaja 63:9: „Allt sem þjakaði þá þjakaði [Guð].“

     Það þýðir: Jehóva finnur sárlega til með þeim sem þjást.

  •   1. Pétursbréf 5:7: „Hann ber umhyggju fyrir ykkur.“

     Það þýðir: Það skiptir Jehóva máli hvernig þú hefur það.

 Umhyggja Jehóva og samkennd hvetur hann til verka. Hann veitir huggun með góðum ráðum í Biblíunni og þeirri áreiðanlegu von að í framtíðinni verði engar hamfarir sem orsakast af veðri. – 2. Korintubréf 1:3, 4.

Bráðum heyra veðuröfgar sögunni til

 Í Biblíunni segir Jehóva: „Ég vil gefa ykkur von og góða framtíð.“ (Jeremía 29:11) Hann vill ekki að við lifum í ótta við veðuröfgar og hamfarir heldur að jörðin verði paradís þar sem við getum notið lífsins. – 1. Mósebók 1:28; 2:15; Jesaja 32:18.

 Guð ætlar að nota ríki sitt til að láta þessa framtíðarvon verða að veruleika, en það er himnesk stjórn þar sem Jesús fer með völd. (Matteus 6:10) Hann býr bæði yfir þeirri visku og mætti sem þarf til að koma í veg fyrir veðurhamfarir. Hann sýndi þennan mátt sinn þegar hann var á jörðinni. (Markús 4:37–41) Jesús mun stjórna með visku og skynsemi og kenna mönnunum að hugsa um umhverfið og lifa í sátt við náttúruna. (Jesaja 11:2) Þegar Jesús tekur við völdum fá veðuröfgar aldrei framar að valda fólki skaða.

 Þú spyrð þig kannski hvenær það verður. Í greininni „Hvenær mun ríki Guðs fara með stjórn yfir jörðinni?“ er þeirri spurningu svarað.

Ráð til að takast á við aðstæður núna

 Ráð Biblíunnar geta hjálpað þér fyrir veðurhamfarir, þegar þær dynja á og eftir þær.

  •   Fyrir: Búðu þig undir þær.

     Hvað segir Biblían? „Hinn skynsami sér hættuna og felur sig en hinir óreyndu ana áfram og fá að kenna á því.“ – Orðskviðirnir 22:3.

     Hvað þýðir það? Hugsaðu fyrir fram hvað gæti gerst þar sem þú býrð svo að þú getir brugðist skjótt við og komið þér og fjölskyldu þinni í öruggt skjól.

     Frásaga: „Daginn sem við flúðum undan skógareldunum vorum við búin undir það. Við vorum með neyðarpokana okkar. Við vorum með lyf og með föt. Fólk í kring var skelfingu lostið og gat ekki hugsað skýrt. En við höfðum allt sem við þurftum. Ég er svo þakklát fyrir það!“ – Tamara, Kaliforníu, Bandaríkjunum.

  •   Á meðan: Einbeittu þér að því sem skiptir mestu máli.

     Hvað segir Biblían? „Eigur manns veita honum ekki líf þótt hann búi við allsnægtir.“ – Lúkas 12:15.

     Hvað þýðir það? Lífið er verðmætara en eigur.

     Frásaga: „Þegar fellibylurinn Lawin b lagði heimili okkar í rúst vissi ég ekki hvað ég átti að gera. En það sem ég gerði var að biðja innilega til Jehóva Guðs. Ég áttaði mig á að við höfðum bara misst efnislegar eigur, ekki lífið.“ – Leslie, Filippseyjum.

  •   Eftir: Taktu einn dag í einu.

     Hvað segir Biblían? „Hafið ekki áhyggjur af morgundeginum því að morgundeginum fylgja sínar áhyggjur.“ – Matteus 6:34.

     Hvað þýðir það? Hafðu ekki of miklar áhyggjur af því hvernig allt verður.

     Frásaga: „Þegar fellibylurinn Irma reið yfir flæddi inn í húsið mitt. Ég þurfti að taka svo margar ákvarðanir og ég var alveg að fara á taugum. Ég reyndi að fara eftir ráði Biblíunnar um að taka einn dag í einu. Ég fann að með hjálp Jehóva gat ég tekist á við miklu meira en ég hefði nokkurn tíma getað ímyndað mér.“ – Sally, Flórída, Bandaríkjunum.

 Fleiri góð ráð eru að finna í greininni „Þegar hamfarir verða – hvað getur bjargað lífum?

a Jehóva er eiginnafn Guðs. – Sálmur 83:18.

b Einnig kallaður Haima.