Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hverju kemur ríki Guðs til leiðar?

Hverju kemur ríki Guðs til leiðar?

Jesús kenndi lærisveinum sínum að biðja um að ríki Guðs kæmi. Hann vissi að það hræðilega sem gerist í heiminum er ekki vilji Guðs og að ríki Guðs er eina stjórnin sem getur leyst vandamálin. Hverju kemur ríki Guðs til leiðar?

HVAÐ HEFUR RÍKI GUÐS GERT NÚ ÞEGAR?

Í síðustu grein var rætt um táknið sem Jesús gaf. Táknið sýnir fram á að ríki Guðs er nú þegar stofnsett á himnum með Jesú Krist sem konung.

Í Biblíunni segir að Jesús myndi kasta Satan og illu öndunum niður af himnum þegar hann tæki við völdum. Athafnasvið þeirra er núna bundið við jörðina, sem er ein ástæða þess að heimsástandið hefur versnað svo mikið frá 1914. – Opinberunarbókin 12:7, 9.

Sem konungur Guðsríkis hjálpar Jesús fólki um allan heim þrátt fyrir versnandi heimsástand. Vegna alþjóðlegrar biblíufræðslu sem Jesús sagði fyrir um eru margir að kynna sér meginreglur Biblíunnar og heimfæra þær á daglegt líf sitt. (Jesaja 2:2–4) Milljónir manna hafa tamið sér rétt viðhorf til vinnu, bætt fjölskyldulíf sitt og lært að njóta efnislegra hluta án þess að verða þrælar þeirra. Þeir læra það sem kemur þeim að gagni núna og gerir þá að ákjósanlegum þegnum til að lifa undir stjórn ríkis Guðs.

HVERJU ÁORKAR RÍKI GUÐS Í NÁINNI FRAMTÍÐ?

Mannlegar stjórnir eru enn við völd á jörðinni þó að Jesús ríki nú þegar á himnum. En Guð hefur gefið Jesú þessi fyrirmæli: „Drottna þú meðal óvina þinna.“ (Sálmur 110:2) Jesús mun bráðlega tortíma öllum andstæðingum sínum og frelsa þá sem eru fúsir til að hlýða Guði.

Þá mun ríki Guðs gera eftirfarandi:

  • Afnema fölsk trúarbrögð. Trúarbrögð sem hafa kennt lygar um Guð og gert fólki lífið erfitt verða horfin. Í Biblíunni er fölskum trúarbrögðum líkt við vændiskonu. Eyðing þeirra verður skellur fyrir marga. – Opinberunarbókin 17:15, 16.

  • Binda enda á stjórnir manna. Ríki Guðs mun binda enda á allar stjórnir manna. – Opinberunarbókin 19:15, 17, 18.

  • Fjarlægja vonda menn. Hvað með þá sem eru ákveðnir í að gera illt og neita að hlýða Guði? „Hinir ranglátu verða upprættir úr landinu.“ – Orðskviðirnir 2:22.

  • Útrýma Satan og illu öndunum. Satan og illu andarnir geta þá ekki ,afvegaleitt þjóðirnar lengur‘. – Opinberunarbókin 20:3, 10.

Hvaða þýðingu hefur allt þetta fyrir þá sem viðurkenna ríki Guðs?

HVAÐ MUN RÍKI GUÐS GERA FYRIR MANNKYNIÐ?

Sem ríkjandi konungur á himnum mun Jesús áorka miklu meiru en mennskur stjórnandi gæti nokkurn tíma áorkað. Hann hefur 144.000 meðstjórnendur til aðstoðar sem eru valdir úr hópi mannanna. (Opinberunarbókin 5:9, 10; 14:1, 3) Jesús sér til þess að vilji Guðs verði gerður hér á jörð. Hvað mun ríki Guðs gera fyrir íbúa jarðar?

  • Útrýma sjúkdómum og dauða. „Enginn borgarbúi mun segja: ,Ég er veikur.‘“ Og „dauðinn verður ekki til framar“. – Jesaja 33:24; Opinberunarbókin 21:4.

  • Tryggja sannan frið og öryggi. „Hagsæld barna þinna verður mikil“. Og „þá munu menn sitja óhræddir, hver undir sínum vínviði eða fíkjutré“. – Jesaja 54:13; Míka 4:4.

  • Fá fólki gefandi störf. „Mínir útvöldu njóta ávaxta iðju sinnar. Þeir munu ekki erfiða til einskis.“ – Jesaja 65:22, 23.

  • Leysa umhverfisvandamálin. „Eyðimörkin og skrælnað landið gleðjist, öræfin fagni og blómstri.“ – Jesaja 35:1.

  • Kenna fólki hvað það þarf að gera til að lifa að eilífu. „Til að hljóta eilíft líf þurfa þeir að kynnast þér, hinum eina sanna Guði, og þeim sem þú sendir, Jesú Kristi.“ – Jóhannes 17:3.

Guð vill að þú njótir þessarar blessunar. (Jesaja 48:18) Í næstu grein er útskýrt hvað þú getur gert núna til að þessi dásamlega framtíð verði þín.