Hoppa beint í efnið

Hvert er tákn hinna ,síðustu daga‘ eða „tíma endalokanna“?

Hvert er tákn hinna ,síðustu daga‘ eða „tíma endalokanna“?

Svar Biblíunnar

 Biblían lýsir atburðum, ástandi og viðhorfum sem myndu einkenna „lokaskeið [núverandi] heimsskipanar“, eða ,endalok veraldar‘. (Matteus 24:3, Biblían 1981) Í Biblíunni er þetta tímabil kallað ,síðustu dagar‘ og ,tími endalokanna‘. – 2. Tímóteusarbréf 3:1; Daníel 8:19.

Hverjir eru nokkrir af spádómum Biblíunnar varðandi ,síðustu daga‘?

 Biblían sagði fyrir um margt sem ætti að gerast og mynda „táknið“ um síðustu daga. (Lúkas 21:7) Skoðum nokkur dæmi:

 Stríð um allan heim. Jesús sagði fyrir: „Þjóð mun ráðast gegn þjóð og ríki gegn ríki.“ (Matteus 24:7) Á svipaðan hátt talar Opinberunarbókin 6:4 um táknrænan reiðmann sem stendur fyrir hernað og myndi „taka friðinn burt af jörðinni“.

 Hungursneyðir. Jesús sagði fyrir: „Það verða hungursneyðir.“ (Matteus 24:7) Opinberunarbókin talar um annan táknrænan reiðmann sem myndi valda mikilli hungursneyð. – Opinberunarbókin 6:5, 6.

 Miklir jarðskjálftar. Jesús sagði að það yrðu „jarðskjálftar á einum stað eftir annan“. (Matteus 24:7; Lúkas 21:11) Þessir miklu jarðskjálftar um allan heim myndu valda meiri þjáningum og dauða en hefur áður sést.

 Sjúkdómar. Jesús sagði að það yrðu drepsóttir, eða faraldrar af völdum ,hræðilegra sjúkdóma‘. – Lúkas 21:11, Contemporary English Version.

 Glæpir. Þó að glæpir hafi verið til í aldaraðir sagði Jesús að á síðustu dögum myndi „illskan magnast“. – Matteus 24:12.

 Eyðing jarðar. Opinberunarbókin 11:18 sagði fyrir að menn myndu „eyða jörðina“. Þeir myndu gera það á margan hátt, ekki aðeins með ofbeldi og siðspillingu heldur myndu þeir líka fara illa með umhverfið.

 Siðferðileg hnignun. Í 2. Tímóteusarbréfi 3:1–4 sagði Biblían fyrir að menn almennt myndu vera „vanþakklátir, ótrúir … ósáttfúsir, rógberar, hafa enga sjálfstjórn, grimmir, elska ekki hið góða, sviksamir, þverir, yfirlætisfullir“. Þessir eiginleikar yrðu svo áberandi að það væri réttilega hægt að segja að á þessu tímabili yrðu „hættulegir og erfiðir tímar“.

 Sundraðar fjölskyldur. Biblían sagði fyrir í 2. Tímóteusarbréfi 3:2, 3 að margir yrðu „kærleikslausir“ í garð fjölskyldu sinnar og að börn yrðu ,óhlýðin foreldrum‘.

 Kærleikurinn til Guðs kólnar hjá flestu fólki. Jesús sagði fyrir: „Kærleikur flestra [mun] kólna.“ (Matteus 24:12) Hann var að tala um að kærleikur flestra til Guðs myndi kólna. Í 2. Tímóteusarbréfi 3:4 segir að á síðustu dögum myndi þetta fólk „elska nautnir frekar en Guð“.

 Trúarleg hræsni. Í 2. Tímóteusarbréfi 3:5 er sagt fyrir að fólk myndi sýnast guðrækið en í rauninni ekki lifa eftir siðferðisreglum Guðs.

 Aukinn skilningur á spádómum Biblíunnar. Í Daníelsbók segir að á „tíma endalokanna“ myndu margir fá aukna þekkingu á sannleika Biblíunnar, þar á meðal nákvæman skilning á þessum spádómum. – Daníel 12:4, neðanmáls.

 Boðun um allan heim. Jesús sagði fyrir: „Fagnaðarboðskapurinn um ríkið verður boðaður um alla jörðina.“ – Matteus 24:14.

 Sinnuleysi og háð útbreitt. Jesús sagði fyrir að fólk myndi almennt hunsa skýrar vísbendingar um að endirinn væri nálægur. (Matteus 24:37–39) Þar að auki er spáð í 2. Pétursbréfi 3:3, 4 að sumir myndu gera gys að vísbendingunum og neita að taka nokkurt mark á þeim.

 Allir spádómarnir rætast. Jesús sagði að ,síðustu dagar‘ myndu einkennast af því að allir þessir spádómar uppfylltust á sama tíma, ekki bara nokkrir þeirra eða jafnvel flestir. – Matteus 24:33.

Lifum við á „síðustu dögum“?

 Já. Ástandið í heiminum og tímatal Biblíunnar sýna að síðustu dagar hófust 1914, sama ár og fyrri heimsstyrjöldin braust út. Horfðu á þetta myndband til að sjá hvernig ástandið í heiminum sýnir að við lifum á síðustu dögum:

 Árið 1914 tók Guðsríki til starfa á himnum og eitt fyrsta verkefni þess var að reka Satan Djöfulinn og illu andana frá himnum og takmarka áhrif þeirra við jörðina. (Opinberunarbókin 12:7–12) Áhrif Satans á mannkynið sjást á vondum verkum og viðhorfum fólks sem gera það að verkum að ,síðustu dagar‘ eru „hættulegir og erfiðir tímar“. – 2. Tímóteusarbréf 3:1.

 Þessir hættulegu tímar valda mörgum áhyggjum. Þeir óttast að fólk kunni ekki lengur að lifa saman á jörðinni. Sumir hafa meira að segja áhyggjur af því að mennirnir muni tortíma hver öðrum.

 En aðrir sem hafa líka áhyggjur af ástandinu í heiminum eiga von um bjartari framtíð. Þeir eru sannfærðir um að ríki Guðs taki brátt í taumana og leysi öll vandamál heimsins. (Daníel 2:44; Opinberunarbókin 21:3, 4) Þeir bíða þolinmóðir eftir að Guð efni loforð sín og finna hughreystingu í þessum orðum Jesú: „Sá sem er þolgóður allt til enda mun bjargast.“ – Matteus 24:13; Míka 7:7.