Daníel 2:1–49

  • Nebúkadnesar konung dreymir ógnvekjandi draum (1–4)

  • Enginn vitringanna getur sagt honum drauminn (5–13)

  • Daníel biður Guð um hjálp (14–18)

  • Daníel lofar Guð fyrir að opinbera leyndardóminn (19–23)

  • Daníel segir konungi drauminn (24–35)

  • Merking draumsins (36–45)

    • Steinninn, ríki Guðs, mölvar líkneskið (44, 45)

  • Konungur heiðrar Daníel (46–49)

2  Á öðru stjórnarári sínu dreymdi Nebúkadnesar nokkra drauma og honum varð svo órótt að hann gat ekki sofið.  Konungur lét þá sækja galdrapresta, særingamenn, galdramenn og Kaldea* til að þeir segðu honum hvað hann hefði dreymt. Þeir komu og tóku sér stöðu frammi fyrir konungi.  Konungur sagði við þá: „Mig dreymdi draum og mér verður ekki rótt fyrr en ég fæ að vita hvað mig dreymdi.“  Kaldearnir svöruðu konungi á arameísku:* „Konungurinn lifi að eilífu. Segðu þjónum þínum drauminn, þá skulum við segja þér hvað hann merkir.“  Konungur svaraði Kaldeum: „Þetta er ákvörðun mín og henni verður ekki breytt: Ef þið segið mér ekki drauminn og merkingu hans verðið þið aflimaðir og hús ykkar gerð að almenningskömrum.*  En ef þið segið mér drauminn og merkingu hans fáið þið frá mér gjafir, umbun og mikinn heiður. Segið mér því drauminn og hvað hann merkir.“  Þeir svöruðu aftur: „Segðu þjónum þínum drauminn, konungur, þá skulum við segja þér hvað hann merkir.“  Konungur svaraði: „Mér er fullljóst að þið eruð að reyna að vinna ykkur inn tíma því að þið vitið hvað ég hef ákveðið.  Ef þið segið mér ekki drauminn hljótið þið allir einn og sama dóminn. En þið hafið komið ykkur saman um að ljúga að mér og blekkja mig í von um að eitthvað breytist. Segið mér því drauminn, þá veit ég hvort þið getið ráðið hann.“ 10  Kaldearnir svöruðu konungi: „Enginn maður á jörðinni getur gert það sem konungur fer fram á enda hefur enginn voldugur konungur eða landstjóri ætlast til annars eins af nokkrum galdrapresti, særingamanni eða Kaldea. 11  Það sem konungur biður um er hægara sagt en gert. Enginn getur opinberað konungi þetta nema guðirnir en þeir búa ekki meðal dauðlegra manna.“ 12  Þá trylltist konungur af reiði og skipaði að allir vitringar Babýlonar skyldu teknir af lífi. 13  Þegar tilskipunin var gefin út um að vitringarnir skyldu teknir af lífi var einnig leitað að Daníel og félögum hans til að lífláta þá. 14  Þá sneri Daníel sér til Arjóks lífvarðarforingja konungs sem var lagður af stað til að lífláta vitringana í Babýlon og ræddi við hann af varkárni og skynsemi. 15  Hann spurði Arjók embættismann konungs: „Hvers vegna er tilskipun konungs svona vægðarlaus?“ Arjók útskýrði málið fyrir Daníel. 16  Daníel gekk þá inn til konungs og bað hann um frest til að ráða drauminn fyrir hann. 17  Daníel fór síðan heim til sín og sagði Hananja, Mísael og Asarja félögum sínum frá þessu. 18  Hann bað þá um að biðja Guð himinsins að vera miskunnsamur og opinbera þennan leyndardóm svo að Daníel og félagar hans yrðu ekki teknir af lífi ásamt hinum vitringum Babýlonar. 19  Leyndardómurinn var opinberaður Daníel í sýn um nóttina og Daníel lofaði Guð himinsins. 20  Hann sagði: „Lofað sé nafn Guðs að eilífu*því að hann einn veitir visku og mátt. 21  Hann breytir tímum og tíðum,sviptir konunga völdum og skipar nýja. Hann veitir vitrum visku og skynsömum þekkingu. 22  Hann afhjúpar hið djúpa og dulda,hann veit hvað leynist í myrkrinuog ljósið býr hjá honum. 23  Guð forfeðra minna, ég færi þér þakkir og lofþví að þú hefur veitt mér visku og mátt. Og nú hefurðu opinberað mér það sem við báðum þig um,þú hefur opinberað okkur það sem konungi lá á hjarta.“ 24  Því næst gekk Daníel inn til Arjóks sem konungur hafði falið að lífláta vitringa Babýlonar og sagði við hann: „Lífláttu engan af vitringum Babýlonar. Farðu með mig til konungs og ég skal segja honum hvað draumurinn merkir.“ 25  Arjók flýtti sér að leiða Daníel fyrir konung og sagði: „Ég hef fundið mann meðal útlaganna frá Júda sem getur sagt konungi merkingu draumsins.“ 26  Konungur sagði við Daníel sem hafði fengið nafnið Beltsasar: „Geturðu í alvöru sagt mér drauminn sem mig dreymdi og hvað hann merkir?“ 27  Daníel svaraði konungi: „Enginn af vitringunum, særingamönnunum, galdraprestunum eða stjörnuspekingunum er fær um að opinbera konungi leyndardóminn sem hann spyr um. 28  En til er sá Guð á himnum sem opinberar leyndardóma og hann hefur birt Nebúkadnesari konungi hvað muni gerast á síðustu dögum. Þetta er draumurinn og þetta eru þær sýnir sem þú sást í rúmi þínu: 29  Meðan þú lást í rúmi þínu, konungur, beindist hugur þinn að því sem mun eiga sér stað í framtíðinni og sá sem opinberar leyndardóma hefur birt þér hvað muni gerast. 30  Þessi leyndardómur var ekki opinberaður mér vegna þess að ég sé gæddur meiri visku en aðrir lifandi menn heldur til að þú, konungur, fengir að vita merkingu draumsins og hugsanir hjarta þíns. 31  Það sem þú sást, konungur, var risavaxið líkneski.* Það var gríðarstórt og skærri birtu stafaði af því. Það stóð fyrir framan þig og var ógnvekjandi að sjá. 32  Höfuð líkneskisins var úr skíragulli, bringan og handleggirnir úr silfri, kviðurinn og lærin úr kopar, 33  fótleggirnir úr járni og fæturnir að hluta til úr járni og að hluta til úr leir.* 34  Meðan þú horfðir á losnaði steinn nokkur en þó ekki af mannavöldum.* Hann lenti á fótum líkneskisins sem voru úr járni og leir og mölvaði þá. 35  Þá molnaði allt saman, járnið, leirinn, koparinn, silfrið og gullið, og varð eins og hismi á þreskivelli að sumri. Vindurinn feykti því öllu burt svo að ekki var snefill eftir. En steinninn sem lenti á líkneskinu varð að stóru fjalli sem þakti alla jörðina. 36  Þetta var draumurinn og nú ætlum við að segja konungi hvað hann merkir. 37  Þú, konungur, ert konungur konunga. Guð himinsins hefur gefið þér ríkið, valdið, máttinn og dýrðina, 38  vald yfir mönnum hvar sem þeir búa og yfir dýrum merkurinnar og fuglum himins og hann hefur látið þig ríkja yfir öllu þessu. Þú sjálfur ert gullhöfuðið. 39  En eftir þig rís annað konungsríki, lakara en þitt, og því næst þriðja ríkið úr kopar sem mun ríkja yfir allri jörðinni. 40  Fjórða ríkið verður sterkt sem járn. Eins og járn brýtur allt og mylur, já, eins og járn mölvar allt, mun það brjóta og mölva öll hin ríkin. 41  Þú sást að fæturnir og tærnar voru að hluta til úr leir* og að hluta til úr járni. Það þýðir að ríkið verður skipt en mun þó að sumu leyti búa yfir hörku járnsins enda sástu að járn var blandað við mjúkan leirinn. 42  Og þar sem tærnar á fótunum voru að hluta til úr járni og að hluta til úr leir verður ríkið að sumu leyti sterkt og að sumu leyti veikt. 43  Eins og þú sást var járnið blandað mjúkum leir. Það þýðir að þeir* verða blandaðir þegnunum* en þeir samlagast ekki hvorir öðrum, rétt eins og járn og leir blandast ekki saman. 44  Á dögum þessara konunga mun Guð himinsins stofnsetja ríki sem verður aldrei eytt. Þetta ríki verður ekki gefið neinni annarri þjóð. Það molar öll þessi ríki og gerir þau að engu en það eitt mun standa að eilífu, 45  rétt eins og steinninn sem þú sást losna úr fjallinu, þó ekki af mannavöldum, steinninn sem mölvaði járnið, koparinn, leirinn, silfrið og gullið. Hinn mikli Guð hefur birt konungi hvað gerist í framtíðinni. Draumurinn er sannur og ráðning hans áreiðanleg.“ 46  Nebúkadnesar konungur féll þá á grúfu frammi fyrir Daníel og sýndi honum lotningu. Hann skipaði að honum skyldi færð gjöf og reykelsisfórn. 47  Konungur sagði við Daníel: „Guð ykkar er sannarlega Guð guðanna og Drottinn konunganna og sá sem opinberar leyndardóma því að þér tókst að ráða þennan leyndardóm.“ 48  Konungur veitti Daníel virðingarstöðu og gaf honum margar veglegar gjafir. Hann setti hann yfir allt skattlandið Babýlon og gerði hann að yfirhöfðingja yfir öllum vitringum Babýlonar. 49  Að beiðni Daníels fól konungur þeim Sadrak, Mesak og Abed Negó að fara með stjórnsýslu í skattlandinu Babýlon, en sjálfur þjónaði Daníel við hirð konungs.

Neðanmáls

Hópur sem lagði stund á spásagnir og stjörnuspeki.
Dan 2:4b til 7:28 var upphaflega skrifað á arameísku.
Eða hugsanl. „ruslahaugum; mykjuhaugum“.
Eða „frá eilífð til eilífðar“.
Eða „risavaxin stytta“.
Eða „brenndum (mótuðum) leir“.
Eða „án þess að mannshönd kæmi þar nálægt“.
Orðrétt „leir leirkerasmiðs“.
Virðist vísa til þess sem járnið táknar.
Eða „afkomendum mannkyns“, það er, almúganum.