Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

1. Hluti

Leitaðu til Guðs til að hafa yndi af hjónabandinu

Leitaðu til Guðs til að hafa yndi af hjónabandinu

„Skaparinn gerði þau frá upphafi karl og konu.“ – Matteus 19:4.

Jehóva a Guð gaf fyrstu hjónin saman. Í Biblíunni segir að hann hafi skapað fyrstu konuna og ,leitt hana til mannsins‘. Adam varð svo hamingjusamur að hann sagði: „Loks er hér bein af mínum beinum og hold af mínu holdi.“ (1. Mósebók 2:22, 23) Það er enn vilji Jehóva að hjón séu hamingjusöm.

Þegar þú gengur í hjónaband hugsarðu kannski með þér að allt eigi eftir að verða draumi líkast. Staðreyndin er þó sú að ýmis vandamál koma upp, jafnvel hjá hjónum sem elska hvort annað innilega. (1. Korintubréf 7:28) Þessi bæklingur hefur að geyma biblíulegar meginreglur sem stuðla að hamingju innan hjónabandsins og fjölskyldunnar, ef farið er eftir þeim. – Sálmur 19:9-12.

1 SINNTU HLUTVERKINU SEM JEHÓVA HEFUR FALIÐ ÞÉR

BIBLÍAN SEGIR: Eiginmaðurinn er höfuð fjölskyldunnar. – Efesusbréfið 5:23.

Jehóva ætlast til þess að þú sem eiginmaður annist eiginkonu þína af ástúð. (1. Pétursbréf 3:7) Hann skapaði hana sem ,meðhjálp við þitt hæfi‘ og vill að þú sýnir henni ást og virðingu. (1. Mósebók 2:18) Þú átt að elska konuna þína svo heitt að þú sért fús til að setja hennar þarfir ofar þínum. – Efesusbréfið 5:25-29.

Jehóva ætlast til þess að þú sem eiginkona berir djúpa virðingu fyrir eiginmanni þínum og hjálpir honum að sinna hlutverki sínu. (1. Korintubréf 11:3; Efesusbréfið 5:33) Leggðu þig fram um að styðja ákvarðanir hans og vinna heilshugar með honum. (Kólossubréfið 3:18) Ef þú gerir það verðurðu fögur bæði í augum eiginmanns þíns og í augum Jehóva. – 1. Pétursbréf 3:1-6.

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT:

  • Spyrðu maka þinn hvernig þú getur bætt þig sem eiginmaður eða eiginkona. Hlustaðu á makann af athygli og gerðu allt sem þú getur til að taka framförum.

  • Sýndu þolinmæði. Það tekur tíma að komast að raun um hvað gleður makann.

2 LÁTTU ÞÉR ANNT UM TILFINNINGAR MAKA ÞÍNS

BIBLÍAN SEGIR: Þú þarft að bera hag maka þíns fyrir brjósti. (Filippíbréfið 2:3, 4) Sýndu með framkomu þinni að maki þinn er þér dýrmætur og mundu að Jehóva ætlast til þess að sá sem þjónar sér sé „ljúfur við alla“. (2. Tímóteusarbréf 2:24) „Vanhugsuð orð eru sem sverðalög en tunga hins vitra græðir.“ Veldu því orð þín af varfærni. (Orðskviðirnir 12:18) Jehóva hjálpar þér með anda sínum að láta tal þitt endurspegla kærleika og gæsku. – Galatabréfið 5:22, 23; Kólossubréfið 4:6.

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT:

  • Áður en þú ræðir mikilvæg mál við maka þinn skaltu biðja Jehóva um hjálp til að halda ró þinni og að hlusta með opnum huga.

  • Hugleiddu vandlega hvað þú ætlar að segja og hvernig þú segir það.

3 VERIÐ SAMSTÍGA

BIBLÍAN SEGIR: Þegar þið gangið í hjónaband verðið þið sem „einn maður“. (Matteus 19:5) Þið eruð samt sem áður tveir ólíkir einstaklingar og hafið eflaust mismunandi skoðanir. Þið þurfið því að stilla saman strengi ykkar og læra að vera einhuga. (Filippíbréfið 2:2) Það er nauðsynlegt að þið séuð samtaka þegar þið takið ákvarðanir. Í Biblíunni segir: „Vel ráðin áform fá framgang.“ (Orðskviðirnir 20:18) Hafið meginreglur Biblíunnar til leiðsagnar þegar þið takið mikilvægar ákvarðanir. – Orðskviðirnir 8:32, 33.

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT:

  • Tjáðu maka þínum tilfinningar þínar í stað þess að ræða bara skoðanir þínar eða gefa upplýsingar.

  • Ráðfærðu þig við makann áður en þú lofar einhverju eða skuldbindur þig.

a Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar.