Síðara bréfið til Tímóteusar 2:1–26

  • Hæfum mönnum sé treyst fyrir boðskapnum (1–7)

  • Að þola þjáningar fyrir fagnaðarboðskapinn (8–13)

  • Farðu rétt með orð sannleikans (14–19)

  • Flýðu girndir æskunnar (20–22)

  • Framkoma við andstæðinga (23–26)

2  Barnið mitt, haltu þess vegna áfram að sækja styrk í einstaka góðvild Krists Jesú.  Það sem þú heyrðir frá mér og mörg vitni staðfestu skaltu fela trúföstum mönnum sem verða síðan hæfir til að kenna öðrum.  Vertu tilbúinn til að þola mótlæti sem góður hermaður Krists Jesú.  Enginn hermaður stundar* almenna atvinnu* því að hann vill þóknast þeim sem réð hann til hermennsku.  Sá sem keppir í íþróttum fær ekki sigursveiginn* nema hann fylgi reglunum.  Bóndinn sem stritar á að fá að njóta uppskerunnar fyrstur manna.  Hugsaðu vandlega um það sem ég segi. Drottinn gefur þér skilning á* öllu.  Mundu að Jesús Kristur var reistur upp frá dauðum og hann var afkomandi Davíðs en það samræmist fagnaðarboðskapnum sem ég boða.  Fyrir það þjáist ég og sit í fangelsi sem afbrotamaður. En orð Guðs er ekki í fjötrum. 10  Af þeim sökum er ég þolgóður í öllu vegna hinna útvöldu til að þeir hljóti líka frelsunina sem fæst fyrir milligöngu Krists Jesú ásamt eilífri dýrð. 11  Þessi orð eru áreiðanleg: Ef við höfum dáið með honum munum við líka lifa með honum. 12  Ef við erum þolgóð munum við líka ríkja með honum sem konungar. Ef við afneitum honum mun hann líka afneita okkur. 13  Þótt við værum ótrú væri hann samt trúr af því að hann getur ekki afneitað sjálfum sér. 14  Haltu áfram að minna þá á þetta og segðu* þeim frammi fyrir Guði að rífast ekki um orð. Það þjónar engum tilgangi og er til ills eins fyrir* þá sem hlusta á. 15  Leggðu þig allan fram til að geta þóknast Guði, að vera verkamaður sem þarf ekki að skammast sín fyrir neitt og fer rétt með orð sannleikans. 16  Hafnaðu innantómum orðræðum manna sem gera lítið úr því sem er heilagt því að þær leiða til æ meira guðleysis 17  og breiðast út eins og drep í sári. Hýmeneus og Fíletus eru þeirra á meðal. 18  Þessir menn hafa snúið baki við sannleikanum því að þeir segja að upprisan hafi þegar átt sér stað, og þeir kollvarpa trú sumra. 19  Þrátt fyrir það stendur traustur grundvöllur Guðs og hann hefur þessi innsiglisorð: „Jehóva* þekkir þá sem tilheyra honum,“ og: „Allir sem ákalla nafn Jehóva* haldi sig frá ranglæti.“ 20  Á stóru heimili eru ekki aðeins áhöld* úr gulli og silfri heldur líka úr tré og leir. Sum eru notuð við hátíðleg tækifæri en önnur ætluð til óvirðulegri nota. 21  Sá sem heldur sig frá hinum síðarnefndu verður verkfæri* til hátíðlegra nota, helgað, gagnlegt fyrir eiganda sinn og tiltækt til allra góðra verka. 22  Þú skalt því flýja girndir æskunnar og keppa eftir réttlæti, trú, kærleika og friði ásamt þeim sem ákalla Drottin af hreinu hjarta. 23  Hafnaðu heimskulegum og tilgangslausum rökræðum því að þú veist að þær enda með rifrildi. 24  Þjónn Drottins á ekki að rífast heldur á hann að vera ljúfur* við alla, vera hæfur kennari, halda ró sinni þegar hann er órétti beittur 25  og leiðbeina mildilega þeim sem sýna mótþróa. Ef til vill gefur Guð þeim tækifæri til að iðrast* svo að þeir fái nákvæma þekkingu á sannleikanum, 26  komist til sjálfra sín og sleppi úr snöru Djöfulsins sem hefur veitt þá lifandi til að gera vilja sinn.

Neðanmáls

Orðrétt „flækir sig í“.
Eða hugsanl. „dagleg störf“.
Orðrétt „er ekki krýndur“.
Eða „glögga innsýn í“.
Orðrétt „vitnaðu rækilega fyrir“.
Eða „brýtur niður“.
Sjá orðaskýringar.
Sjá orðaskýringar.
Eða „ker“.
Eða „áhald; ker“.
Eða „nærgætinn“.
Eða „breyta hugarfari sínu“.