Fyrra bréfið til Korintumanna 11:1–34

  • „Líkið eftir mér“ (1)

  • Forysta og höfuðfat (2–16)

  • Að halda kvöldmáltíð Drottins (17–34)

11  Líkið eftir mér eins og ég líki eftir Kristi.  Ég hrósa ykkur fyrir að muna eftir mér í öllu og halda ykkur fast við það sem ég hef komið á framfæri við ykkur.  En ég vil að þið vitið að Kristur er höfuð hvers manns, maðurinn er höfuð konunnar og Guð er höfuð Krists.  Sérhver karlmaður sem biðst fyrir eða spáir með eitthvað á höfðinu óvirðir höfuð sitt  en sérhver kona sem biðst fyrir eða spáir berhöfðuð óvirðir höfuð sitt því að það er eitt og hið sama og væri hún krúnurökuð.  Ef kona hylur ekki höfuð sitt ætti hún að láta klippa af sér hárið, en fyrst það er konu til smánar að láta klippa eða raka af sér hárið ætti hún að hylja höfuðið.  Karlmaður á ekki að hylja höfuð sitt því að hann er gerður í mynd Guðs og er honum til dýrðar en konan er manninum til dýrðar.  Maðurinn kom ekki af konunni heldur konan af manninum.  Auk þess var maðurinn ekki skapaður vegna konunnar heldur konan vegna mannsins. 10  Þess vegna og vegna englanna á konan að hafa eitthvað á höfðinu sem tákn um undirgefni. 11  Meðal fylgjenda Drottins er konan þó hvorki óháð manninum né maðurinn óháður konunni 12  því að eins og konan er komin af manninum er maðurinn fæddur af konunni, en allt er frá Guði. 13  Dæmið sjálf: Er viðeigandi að kona biðji til Guðs berhöfðuð? 14  Kennir ekki sjálf náttúran ykkur að það sé karlmanni til smánar að vera með sítt hár 15  en að sítt hár sé konu til sæmdar? Jú, hárið er gefið henni í stað höfuðfats. 16  En ef einhver vill halda einhverju öðru fram þá segið honum að við höfum engan annan sið og söfnuðir Guðs ekki heldur. 17  Um leið og ég gef ykkur þessi fyrirmæli get ég ekki hrósað ykkur því að það er ykkur frekar til ills en góðs að safnast saman. 18  Ég heyri að það sé sundrung meðal ykkar þegar þið komið saman á safnaðarsamkomum og ég trúi því að nokkru leyti. 19  Vissulega verður líka klofningur meðal ykkar og þannig þekkjast þeir úr sem Guð hefur velþóknun á. 20  Þegar þið safnist saman er það í rauninni ekki til að neyta kvöldmáltíðar Drottins. 21  Þið eruð búin að borða ykkar eigin kvöldmat þegar þið neytið hennar – einn er svangur en annar ölvaður. 22  Eigið þið ekki hús þar sem þið getið borðað og drukkið? Eða fyrirlítið þið söfnuð Guðs svo að þeir sem eiga ekkert fara hjá sér? Hvað get ég sagt við ykkur? Á ég að hrósa ykkur? Nei, ég hrósa ykkur ekki fyrir þetta. 23  Ég hef miðlað ykkur því sem ég hef fengið frá Drottni: Nóttina sem Drottinn Jesús átti eftir að vera svikinn tók hann brauð, 24  fór með þakkarbæn, braut það og sagði: „Þetta táknar líkama minn sem er gefinn í ykkar þágu. Gerið þetta til minningar um mig.“ 25  Eins tók hann bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: „Þessi bikar táknar nýja sáttmálann sem er fullgiltur með blóði mínu. Gerið þetta í hvert sinn sem þið drekkið af honum, til minningar um mig.“ 26  Í hvert sinn sem þið borðið þetta brauð og drekkið af þessum bikar boðið þið dauða Drottins þangað til hann kemur. 27  Hver sem borðar brauðið eða drekkur af bikar Drottins á óverðugan hátt verður því sekur við líkama og blóð Drottins. 28  Enginn ætti að borða brauðið né drekka af bikarnum fyrr en hann hefur rannsakað hvort hann sé þess verðugur. 29  Sá sem borðar og drekkur án þess að gera sér grein fyrir hvaða gildi líkaminn hefur borðar og drekkur sjálfum sér til dóms. 30  Þess vegna eru margir óstyrkir og veikir á meðal ykkar og þó nokkrir dánir.* 31  Ef við legðum rétt mat á sjálf okkur yrðum við ekki dæmd. 32  En þegar við erum dæmd er Jehóva* að aga okkur svo að við verðum ekki sakfelld með heiminum. 33  Þess vegna, bræður mínir og systur, skuluð þið bíða hvert eftir öðru þegar þið komið saman til að neyta máltíðarinnar. 34  Ef einhver er svangur á hann að borða heima hjá sér svo að þið kallið ekki yfir ykkur dóm þegar þið safnist saman. Öðrum málum ætla ég að koma í lag þegar ég kem.

Neðanmáls

Greinilega er átt við andlegan dauða.
Sjá orðaskýringar.