Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

4. HLUTI

Hver er Jesús Kristur?

Hver er Jesús Kristur?

1. Hvernig var tilvera Jesú áður en hann kom til jarðar?

Hvaða aðlaðandi eiginleika sýndi Jesús? — MATTEUS 11:29; MARKÚS 10:13-16.

Ólíkt öllum öðrum mönnum var Jesús andi á himnum áður en hann fæddist hér á jörð. (Jóhannes 8:23) Hann var fyrsta sköpunarverk Guðs og tók þátt í að skapa allt annað. Hann er sá eini sem Jehóva skapaði milliliðalaust og er því réttilega nefndur „sonurinn eini“. (Jóhannes 1:14) Jesús var talsmaður Guðs og er því líka kallaður „Orðið“. – Lestu Orðskviðina 8:22, 23, 30; Kólossubréfið 1:15, 16.

2. Hvers vegna kom Jesús til jarðar?

Guð sendi son sinn til jarðar með því að flytja líf hans frá himnum í móðurkvið Gyðingameyjar sem hét María. Jesús átti því ekki mennskan föður. (Lúkas 1:30-35) Hann kom til jarðar til að (1) kenna sannleikann um Guð, (2) sýna okkur hvernig við eigum að gera vilja Guðs, jafnvel þegar á móti blæs og (3) gefa fullkomið líf sitt „til lausnargjalds“. – Lestu Matteus 20:28.

3. Af hverju þurfti lausnargjald?

Lausnargjald er það gjald sem er greitt til að leysa mann undan því að deyja. (2. Mósebók 21:29, 30) Það var ekki ætlun Guðs að mennirnir yrðu elli og dauða að bráð. Hvernig vitum við það? Guð sagði fyrsta manninum Adam að hann myndi deyja ef hann gerði sig sekan um það sem Biblían kallar „synd“. Adam hefði ekki dáið ef hann hefði ekki syndgað. (1. Mósebók 2:16, 17; 5:5) Dauðinn „kom inn í heiminn“ vegna Adams, að sögn Biblíunnar. Allir afkomendur Adams fengu því syndina í arf frá honum ásamt afleiðingum hennar, dauðanum. Það þarf að greiða lausnargjald fyrir okkur til að leysa okkur undan dauðarefsingunni sem við erfðum frá Adam. – Lestu Rómverjabréfið 5:12; 6:23.

Hver gat greitt lausnargjaldið sem þurfti til að leysa okkur frá dauðanum? Þegar við deyjum erum við aðeins að gjalda fyrir okkar eigin syndir. Enginn ófullkominn maður getur greitt fyrir syndir annarra. – Lestu Sálm 49:8-10.

4. Hvers vegna dó Jesús?

Jesús var fullkominn, ólíkt okkur. Hann þurfti ekki að deyja fyrir sínar eigin syndir því að hann syndgaði aldrei. Jesús dó fyrir syndir annarra. Guð sýndi mannkyninu einstakan kærleika með því að senda son sinn til að deyja fyrir okkur. Jesús sýndi okkur líka kærleika með því að hlýða föður sínum og gefa líf sitt fyrir syndir okkar. – Lestu Jóhannes 3:16; Rómverjabréfið 5:18, 19.

Horfðu á myndskeiðið Hvers vegna dó Jesús?

5. Hvað er Jesús að gera núna?

Þegar Jesús var á jörð læknaði hann sjúka, reisti upp dána og bjargaði fólki úr háska. Þannig sýndi hann hvað hann ætlar að gera í framtíðinni fyrir alla sem hlýða Guði. (Matteus 15:30, 31; Jóhannes 5:28) Eftir að Jesús dó vakti Jehóva hann aftur til lífs sem andaveru. (1. Pétursbréf 3:18) Jesús beið síðan við hægri hönd Guðs þangað til honum var gefið vald til að vera konungur yfir allri jörðinni. (Hebreabréfið 10:12, 13) Núna ríkir Jesús sem konungur á himnum og fylgjendur hans boða þær gleðifréttir um allan heim. – Lestu Daníel 7:13, 14; Matteus 24:14.

Bráðlega beitir Jesús konungsvaldi sínu til að binda enda á allar þjáningar og fjarlægja þá sem valda þeim. Allir sem trúa á Jesú og hlýða honum fá að lifa í paradís á jörð. – Lestu Sálm 37:9-11.