Bréfið til Kólossumanna 1:1–29

  • Kveðjur (1, 2)

  • Þakkir fyrir trú Kólossumanna (3–8)

  • Bæn um andlegan vöxt (9–12)

  • Kristur fer með lykilhlutverk (13–23)

  • Páll leggur hart að sér í þágu safnaðarins (24–29)

1  Frá Páli, postula Krists Jesú samkvæmt vilja Guðs, og Tímóteusi bróður okkar,  til hinna heilögu og trúföstu bræðra og systra sem eru fylgjendur Krists í Kólossu. Megi Guð faðir okkar sýna ykkur einstaka góðvild og veita ykkur frið.  Við þökkum Guði, föður Drottins okkar Jesú Krists, í hvert sinn sem við biðjum fyrir ykkur.  Við höfum frétt af trú ykkar á Krist Jesú og kærleikanum sem þið berið til allra hinna heilögu  vegna vonarinnar um það sem bíður ykkar á himnum. Þið heyrðuð um þessa von þegar boðskapur sannleikans, fagnaðarboðskapurinn,  barst til ykkar. Fagnaðarboðskapurinn ber ávöxt og vex um allan heim. Það hefur hann einnig gert hjá ykkur allt frá þeim degi sem þið heyrðuð af einstakri góðvild Guðs og kynntust henni af eigin raun.  Þið lærðuð þetta hjá Epafrasi, kærum samstarfsmanni okkar og trúföstum þjóni Krists sem kemur í okkar stað.  Hann hefur líka sagt okkur frá kærleikanum sem andi Guðs vekur með ykkur.*  Frá þeim degi sem við heyrðum þetta höfum við því stöðugt beðið fyrir ykkur. Við biðjum þess að þið fáið nákvæma þekkingu á vilja Guðs með allri visku og skilningi sem andinn gefur. 10  Þá getið þið lifað eins og Jehóva* er samboðið og þóknast honum í einu og öllu þegar þið haldið áfram að bera ávöxt með sérhverju góðu verki og þekking* ykkar á Guði eykst enn meir. 11  Við biðjum þess líka að dýrlegur kraftur Guðs gefi ykkur þann styrk sem þið þurfið til að halda út í öllu með þolinmæði og gleði 12  um leið og þið þakkið föðurnum sem gerði ykkur hæf til að taka arf með hinum heilögu sem eru í ljósinu. 13  Hann bjargaði okkur undan valdi myrkursins og flutti okkur yfir í ríki síns elskaða sonar. 14  Vegna hans erum við leyst með lausnargjaldi, já, við höfum fengið syndir okkar fyrirgefnar. 15  Hann er eftirmynd hins ósýnilega Guðs, frumburður alls sem er skapað 16  vegna þess að með hjálp hans var allt annað skapað á himni og jörð, það sem er sýnilegt og það sem er ósýnilegt, hvort sem það eru hásæti, tignir, stjórnir eða völd. Allt var skapað með aðstoð hans og fyrir hann. 17  Hann var til á undan öllu öðru og með hjálp hans varð allt annað til. 18  Hann er höfuð líkamans, það er að segja safnaðarins. Hann er upphafið, frumburður upprisunnar frá dauðum. Þannig yrði hann sá fyrsti í öllu 19  því að Guði þóknaðist að láta allt fullkomnast í honum 20  og koma öllu í sátt við sig fyrir milligöngu hans, bæði því sem er á jörðinni og því sem er á himnum. Þessi friður fæst með blóðinu sem var úthellt á kvalastaurnum.* 21  Einu sinni voruð þið fjarlæg Guði og óvinir hans því að þið voruð með hugann við ill verk. 22  En núna hefur hann tekið ykkur í sátt með dauða hans sem fórnaði líkama sínum til að þið getið staðið frammi fyrir honum heilög, óflekkuð og ekki sé hægt að ásaka ykkur um neitt, 23  svo framarlega sem þið eruð stöðug í trúnni, standið óhagganleg á traustum grunni og missið ekki vonina sem þið fenguð með fagnaðarboðskapnum sem þið heyrðuð og var boðaður meðal allra manna.* Ég, Páll, er orðinn þjónn þessa fagnaðarboðskapar. 24  Nú gleðst ég yfir því að þjást fyrir ykkur og mér finnst ég enn ekki hafa þjáðst til fulls vegna Krists, en ég geri það fyrir líkama hans, söfnuðinn. 25  Ég varð þjónn þessa safnaðar í samræmi við þá ábyrgð* sem Guð fól mér ykkar vegna: Að boða orð Guðs rækilega, 26  hinn heilaga leyndardóm sem var hulinn öldum saman* og hulinn fyrri kynslóðum. En núna er hann opinberaður Guðs heilögu, 27  þeim sem Guði hefur þóknast að gera heilagan leyndardóm sinn, þann dýrlega fjársjóð, kunnan meðal þjóðanna. Leyndardómurinn er að Kristur er sameinaður ykkur en það gefur ykkur þá von að verða dýrleg með honum. 28  Það er hann sem við boðum, og við áminnum alla og fræðum með allri visku svo að við getum leitt hvern mann fram fyrir Guð sem þroskaðan fylgjanda Krists. 29  Um þetta kosta ég kapps og legg hart að mér í krafti hans sem hefur öflug áhrif á mig.

Neðanmáls

Orðrétt „kærleika ykkar í andanum“.
Sjá orðaskýringar.
Orðrétt „nákvæm þekking“.
Sjá orðaskýringar.
Orðrétt „allri sköpun undir himninum“.
Eða „ráðsmennsku“.
Sjá orðaskýringar, „heimsskipan“.