Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

5. HLUTI

Hvað ætlast Guð fyrir með jörðina?

Hvað ætlast Guð fyrir með jörðina?

1. Hvers vegna skapaði Guð jörðina?

Jehóva gaf mönnunum jörðina. Hún er heimili okkar. Þegar Guð skapaði fyrstu hjónin, þau Adam og Evu, var hugmyndin ekki sú að afkomendur þeirra breyttust í engla og færu til himna þegar þeir dæju. Guð var þegar búinn að skapa engla til að búa þar. (Jobsbók 38:4, 7) Hann tók fyrsta manninn og setti hann í unaðslega paradís sem var kölluð aldingarðurinn Eden. (1. Mósebók 2:15-17) Jehóva ætlaði fyrstu hjónunum og ófæddum afkomendum þeirra að búa að eilífu á jörðinni. – Lestu Sálm 37:29; 115:16.

Edengarðurinn var eini staðurinn á jörð sem var paradís. Adam og Eva áttu að fylla jörðina afkomendum sínum. Eftir því sem þeim fjölgaði myndu þeir leggja hana undir sig og breyta henni í eina samfellda paradís. (1. Mósebók 1:28) Jörðinni verður aldrei eytt. Hún verður heimili mannkyns að eilífu. – Lestu Sálm 104:5.

Horfðu á myndskeiðið Hvers vegna skapaði Guð jörðina?

2. Af hverju er jörðin ekki paradís núna?

Adam og Eva óhlýðnuðust Jehóva Guði svo að þeim var vísað út úr garðinum. Paradís glataðist og engum hefur tekist að endurskapa hana. „Jörðin er gefin í vald hinna óguðlegu,“ segir í Biblíunni. – Jobsbók 9:24, Biblían 1981. – Lestu 1. Mósebók 3:23, 24.

Hefur Jehóva breytt fyrirætlun sinni með jörðina? Nei. Hann er almáttugur og honum mistekst aldrei. (Jesaja 45:18) Hann á eftir að skapa mannkyni þær aðstæður sem hann ákvað í upphafi. – Lestu Sálm 37:11, 34.

3. Hvernig verður paradís endurreist?

Paradís verður endurreist á jörð þegar Jesús ríkir sem konungur í umboði Guðs. Í stríði, sem kallast Harmagedón, fer hann fyrir englum Guðs og eyðir öllum sem standa gegn Guði. Síðan fangelsar hann Satan í þúsund ár. Þeir sem þjóna Guði lifa eyðinguna af vegna þess að Jesús leiðbeinir þeim og verndar þá. Þeir fá síðan að lifa að eilífu í paradís á jörð. – Lestu Opinberunarbókina 20:1-3; 21:3, 4.

4. Hvenær taka þjáningar enda?

Hvenær bindur Guð enda á illskuna hér á jörð? Jesús lýsti hvernig hægt væri að sjá að endirinn væri í nánd. Núverandi ástand í heiminum ógnar tilveru mannkyns og sýnir að ,veröldin er að líða undir lok‘. – Lestu Matteus 24:3, 7-14, 21, 22.

Jesús ríkir yfir jörðinni af himnum ofan í þúsund ár og bindur þá enda á allar þjáningar. (Jesaja 9:5, 6; 11:9) Jesús er ekki aðeins konungur heldur einnig æðstiprestur og þurrkar út syndir þeirra sem elska Guð. Þannig útrýmir Guð sjúkdómum, ellihrörnun og dauða fyrir milligöngu Jesú. – Lestu Jesaja 25:8; 33:24.

5. Hverjir fá að lifa í paradís framtíðarinnar?

Á samkomum Votta Jehóva hittirðu fólk sem elskar Guð og vill þóknast honum.

Þeir sem hlýða Guði fá að lifa í paradís. (1. Jóhannesarbréf 2:17) Jesús sendi fylgjendur sína út til að leita að hógværu fólki og kenna því hvernig það gæti þóknast Guði. Núna er Jehóva að búa fólk í milljónatali undir að lifa í paradís á jörð. (Sefanía 2:3) Á samkomum Votta Jehóva lærir fólk að vera betri eiginmenn og feður og betri eiginkonur og mæður. Börn og foreldrar tilbiðja Guð saman og læra hvernig boðskapur Biblíunnar getur verið þeim til góðs. – Lestu Míka 4:1-4.