Daníel 7:1–28

  • Sýnin um dýrin fjögur (1–8)

    • Lítið hrokafullt horn sprettur upp (8)

  • Hinn aldni heldur dóm (9–14)

    • Mannssonur gerður að konungi (13, 14)

  • Daníel fær að vita merkingu sýnarinnar (15–28)

    • Dýrin fjögur eru fjórir konungar (17)

    • Hinir heilögu hljóta ríkið (18)

    • Tíu horn eða konungar rísa (24)

7  Á fyrsta stjórnarári Belsassars Babýlonarkonungs dreymdi Daníel draum og sýnir birtust honum í huganum meðan hann lá í rúmi sínu. Hann skrifaði niður drauminn og lýsti honum í smáatriðum.  Daníel skýrir svo frá: „Í sýnum mínum um nóttina sá ég himinvindana fjóra ýfa upp hafið mikla.  Fjögur risavaxin dýr stigu upp úr hafinu, hvert öðru ólíkt.  Það fyrsta var eins og ljón og hafði arnarvængi. Meðan ég horfði á það voru vængirnir reyttir af því. Því var lyft upp af jörðinni og látið standa á tveim fótum eins og maður, og því var gefið mannshjarta.  Og ég sá annað dýr sem var annað í röðinni. Það var eins og björn. Það reis upp á aðra hliðina og var með þrjú rif í kjaftinum milli tannanna. Því var sagt: ‚Stattu upp og éttu mikið kjöt.‘  Eftir þetta sá ég enn eitt dýr. Það líktist hlébarða en var með fjóra fuglsvængi á bakinu. Dýrið var með fjögur höfuð og því var gefið vald til að ríkja.  Eftir þetta sá ég í nætursýnunum fjórða dýrið, ógnvekjandi, hræðilegt og óvenjusterkt. Það var með stórar járntennur og gleypti allt og muldi og traðkaði síðan undir fótum sér það sem eftir var. Það var ólíkt öllum hinum dýrunum á undan því og var með tíu horn.  Meðan ég virti fyrir mér hornin sá ég annað lítið horn spretta upp á meðal þeirra. Þrjú af fyrri hornunum voru rifin af frammi fyrir því. Þetta horn var með augu sem líktust mannsaugum og munn sem talaði með hroka.*  Ég hélt áfram að horfa og sá þá að hásætum var komið fyrir og Hinn aldni fékk sér sæti. Klæði hans voru hvít sem snjór og hárið á höfði hans eins og hrein ull. Hásæti hans var eldslogar og hjólin undir því brennandi eldur. 10  Eldstraumur flæddi út frá honum. Þúsund þúsunda þjónaði honum og tíu þúsund tíu þúsunda stóðu frammi fyrir honum. Réttarhöldin hófust og bækur voru opnaðar. 11  Ég hélt áfram að horfa því að ég heyrði hvernig hornið hreykti sér upp.* Ég sá nú að dýrið var drepið, líkama þess eytt og því kastað á logandi eld. 12  Hin dýrin voru svipt völdum en fengu að lifa um tíma og tíð. 13  Ég hélt áfram að horfa í nætursýnunum og sá einhvern sem líktist mannssyni koma með skýjum himins. Hann fékk leyfi til að koma fram fyrir Hinn aldna og var leiddur fyrir hann. 14  Honum var gefið vald, heiður og ríki til að allar þjóðir, þjóðflokkar og málhópar skyldu þjóna honum. Stjórn hans er eilíf stjórn sem líður aldrei undir lok og ríki hans verður aldrei eytt. 15  Mér, Daníel, var órótt í skapi því að sýnirnar sem birtust mér í huganum hræddu mig. 16  Ég gekk til eins af þeim sem stóðu þarna og spurði hann hvað allt þetta merkti. Hann svaraði mér og útskýrði þetta fyrir mér. 17  ‚Þessi risavöxnu dýr, fjögur talsins, eru fjórir konungar sem munu koma fram á jörðinni. 18  En hinir heilögu Hins æðsta hljóta ríkið og halda því að eilífu, já, um alla eilífð.‘ 19  Ég vildi vita meira um fjórða dýrið sem var ólíkt öllum hinum. Það var hrikalega ógnvekjandi, með járntennur og koparklær. Það gleypti allt og muldi og traðkaði það sem eftir var undir fótum sér. 20  Ég vildi líka vita meira um hornin tíu á höfði þess og hitt hornið sem spratt upp og varð til þess að þrjú önnur féllu af, hornið sem var með augu og munn sem talaði með hroka* og var stærra að sjá en hin. 21  Ég hélt áfram að horfa og sá að þetta horn háði stríð við hina heilögu og hafði yfirhöndina gegn þeim 22  þar til Hinn aldni kom og dómur var felldur hinum heilögu Hins æðsta í vil og tilsettur tími kom að hinir heilögu hlytu ríkið. 23  Hann útskýrði þetta fyrir mér: ‚Fjórða dýrið táknar fjórða ríkið sem kemur fram á jörðinni. Það verður ólíkt öllum hinum ríkjunum. Það mun gleypa alla jörðina, traðka allt niður og mylja sundur. 24  Hornin tíu merkja að tíu konungar rísa af þessu ríki, og enn einn konungur rís eftir þá. Hann verður ólíkur hinum fyrri og mun auðmýkja þrjá konunga. 25  Hann mun tala gegn Hinum hæsta og linnulaust þjaka hina heilögu Hins æðsta. Hann ætlar sér að breyta tímum og lögum og þeir verða gefnir honum á vald um tíð, tíðir og hálfa tíð.* 26  En réttarhöldin hófust og hann var sviptur völdum til að honum yrði tortímt og gereytt. 27  Ríkið og valdið og mikilfengleiki allra ríkja undir himninum var gefinn hinum heilögu Hins æðsta. Ríki þeirra er eilíft ríki og allar stjórnir munu þjóna þeim og hlýða.‘ 28  Hér lýkur frásögninni. Hugsanir mínar skutu mér, Daníel, skelk í bringu og ég varð náfölur.* En ég geymdi þetta í hjarta mínu.“

Neðanmáls

Eða „gortaði“.
Eða „gortaði“.
Eða „gortaði“.
Það er, þrjár og hálfa tíð.
Eða „ásýnd mín breyttist“.