Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

9. HLUTI

Hvernig geta fjölskyldur verið hamingjusamar?

Hvernig geta fjölskyldur verið hamingjusamar?

1. Af hverju er hjónaband mikilvægur þáttur í farsælu fjölskyldulífi?

Gleðifréttirnar eru frá Jehóva. Hann er glaður Guð og vill að fjölskyldur séu það líka. (Sálmur 104:31) Jehóva er höfundur hjónabandsins. Til að fjölskyldulíf sé farsælt er mikilvægt að lögskrá hjónabandið. Það veitir fjölskyldunni skjól og skapar börnunum öruggt umhverfi í uppvextinum. Kristnir menn eiga að virða þau lög sem gilda á hverjum stað um skráningu hjónabands. – Lestu Lúkas 2:1, 4, 5.

Hvaða augum lítur Guð á hjónabandið? Það á að vera varanlegt samband karls og konu. Jehóva vill að hjón séu hvort öðru trú. (Hebreabréfið 13:4) Hann ,hatar hjónaskilnað‘. (Malakí 2:16, Biblían 1981) Hann leyfir þó fólki að skilja ef makinn er ótrúr. – Lestu Matteus 19:3-6, 9.

2. Hvernig eiga hjón að koma fram hvort við annað?

Jehóva gerði karla og konur þannig úr garði að hjón bættu hvort annað upp. (1. Mósebók 2:18) Sem höfuð fjölskyldunnar á eiginmaðurinn að hafa forystuna um að sjá henni farborða og fræða hana um Guð. Hann á að sýna konu sinni óeigingjarna ást. Hjón eiga að elska og virða hvort annað. Þar sem allir eru ófullkomnir þurfa þau að læra að fyrirgefa til að vera hamingjusöm. – Lestu Efesusbréfið 4:31, 32; 5:22-25, 33; 1. Pétursbréf 3:7.

3. Ættu hjón að skilja ef þau eru óhamingjusöm?

Ef hjón eiga í erfiðleikum í hjónabandinu ættu þau bæði að leggja sig fram um að sýna hvort öðru kærleika. (1. Korintubréf 13:4, 5) Í Biblíunni er ekki mælt með að hjón reyni að leysa algeng vandamál með því að slíta samvistum. – Lestu 1. Korintubréf 7:10-13.

4. Hver er vilji Guðs með ykkur börnin?

Jehóva vill að þið séuð hamingjusöm. Hann gefur ykkur bestu ráð sem völ er á til að þið njótið æskuáranna. Hann vill að þið njótið góðs af visku og reynslu foreldra ykkar. (Kólossubréfið 3:20) Jehóva vill líka að þið upplifið ánægjuna sem fylgir því að gera vilja hans og sonar hans. – Lestu Prédikarann 11:9 – 12:1; Matteus 19:13-15; 21:15, 16.

5. Hvernig getið þið foreldrar stuðlað að hamingju barnanna?

Þið ættuð að leggja ykkur fram um að sjá börnunum fyrir fæði, klæði og húsnæði. (1. Tímóteusarbréf 5:8) En til að börnin séu hamingjusöm þurfið þið líka að kenna þeim að elska Guð og læra af honum. (Efesusbréfið 6:4) Þið getið haft sterk áhrif á börnin með því að sýna sjálf að þið elskið Guð. Ef þið byggið kennslu ykkar á Biblíunni getið þið haft jákvæð mótandi áhrif á börnin. – Lestu 5. Mósebók 6:4-7; Orðskviðina 22:6.

Börn þrífast á hvatningu og hrósi. En þau þurfa líka á leiðréttingu og ögun að halda. Það kemur í veg fyrir að þau leiðist út í hegðun sem gæti spillt fyrir hamingju þeirra. (Orðskviðirnir 22:15) Ögun ætti þó aldrei að vera hörkuleg eða grimmileg. – Lestu Kólossubréfið 3:21.

Vottar Jehóva hafa gefið út nokkrar bækur sem eru sérstaklega ætlaðar foreldrum og börnum. Þessar bækur eru byggðar á leiðbeiningum Biblíunnar. – Lestu Sálm 19:8, 12.