Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sannleikurinn um Guð og Krist

Sannleikurinn um Guð og Krist

Þó að menn tilbiðji marga guði er aðeins til einn sannur Guð. (Jóhannes 17:3) Hann er ,Hinn æðsti‘ sem skapaði allt og er uppspretta alls lífs. Hann einn á skilið að við tilbiðjum hann. – Daníel 7:18; Opinberunarbókin 4:11.

Hver er Guð?

Nafn Guðs kemur fyrir í frumtexta Biblíunnar UM 7.000 SINNUM.

JEHÓVA er nafn Guðs.

Nokkrir titlar Jehóva: GUÐ, DROTTINN, FAÐIR.

Hvað heitir Guð? Hann segir sjálfur: „Ég er Jehóva, það er nafn mitt.“ (Jesaja 42:8) Nafn Guðs stendur um 7.000 sinnum í Biblíunni. En í mörgum biblíuþýðingum er þessu nafni ranglega skipt út fyrir titla eins og „Drottinn“. Guð býður þér vináttu sína og hvetur þig þess vegna til að ,ákalla nafn hans‘. – Sálmur 105:1.

Titlar Jehóva. Biblían nefnir Jehóva með titlum eins og „Guð“, „almáttugur“, „skapari“, „faðir“, „Drottinn“ og „alvaldur“. Í Biblíunni eru margar bænir skráðar þar sem Jehóva er ávarpaður með virðulegum titlum. – Daníel 9:4.

Mynd Guðs. Guð er ósýnileg andavera. (Jóhannes 4:24) Biblían segir: „Enginn maður hefur nokkurn tíma séð Guð.“ (Jóhannes 1:18) Í Biblíunni er tilfinningum Guðs lýst. Fólk getur hryggt hann eða ,glatt hjarta hans‘. – Orðskviðirnir 27:11; Sálmur 78:40, 41.

Stórkostlegir eiginleikar Guðs. Guð „mismunar ekki fólki“ heldur lítur hann eins á fólk af öllum þjóðum og af hvaða uppruna sem er. (Postulasagan 10:34, 35) Hann er líka „miskunnsamur og samúðarfullur Guð sem er seinn til reiði, sýnir tryggan kærleika í ríkum mæli og er alltaf sannorður“. (2. Mósebók 34:6, 7) En fjórir af eiginleikum Guðs eru einstaklega aðlaðandi.

Máttur. Þar sem hann er „almáttugur Guð“ hefur hann ótakmarkaðan mátt til að standa við öll loforð sín. – 1. Mósebók 17:1.

Viska. Guð er vitrari en allir aðrir. Biblían á við það þegar hún segir að ,Guð einn sé vitur‘. – Rómverjabréfið 16:27.

Réttlæti. Guð gerir alltaf það sem er rétt. „Verk hans eru fullkomin því að allir vegir hans eru réttlátir.“ – 5. Mósebók 32:4.

Kærleikur. Biblían segir: „Guð er kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8) Hann sýnir ekki bara kærleika – hann er persónugervingur kærleikans. Óviðjafnanlegur kærleikur Guðs hefur áhrif á allt sem hann gerir og við njótum góðs af því á marga vegu.

Vinátta Guðs við mennina. Guð er elskuríkur faðir okkar á himnum. (Matteus 6:9) Ef við leggjum traust okkar á hann getum við eignast vináttu hans. (Sálmur 25:14) Guð býður okkur að nálgast sig í bæn og ,varpa öllum áhyggjum okkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir okkur‘. – 1. Pétursbréf 5:7; Jakobsbréfið 4:8.

Hver er munurinn á Guði og Kristi?

Jesús er ekki Guð. Jesús er einstakur því að hann er sá eini sem er skapaður beint af Guði. Þess vegna kallar Biblían hann son Guðs. (Jóhannes 1:14) Eftir að Jehóva skapaði Jesú var þessi frumburður hans „við hlið hans sem listasmiður“ við að skapa allt annað. – Orðskviðirnir 8:30, 31; Kólossubréfið 1:15, 16.

Jesús Kristur sagðist aldrei vera Guð. Hann sagði öllu heldur: „Ég er fulltrúi [Guðs] og hann sendi mig.“ (Jóhannes 7:29) Jesús sagði við einn af lærisveinum sínum: „Ég stíg upp til föður míns og föður ykkar, til Guðs míns og Guðs ykkar.“ (Jóhannes 20:17) Eftir að Jesús dó reisti Jehóva hann upp til lífs á himni og gaf honum mikið vald sér til hægri handar. – Matteus 28:18; Postulasagan 2:32, 33.

Jesús Kristur getur hjálpað þér að nálgast Guð

Jesús kom til jarðarinnar til að fræða okkur um föður sinn. Jehóva sagði sjálfur um Jesú: „Þetta er sonur minn sem ég elska. Hlustið á hann.“ (Markús 9:7) Jesús þekkir Guð betur en nokkur annar. Hann sagði: „Enginn veit hver faðirinn er nema sonurinn og þeir sem sonurinn vill opinbera hann.“ – Lúkas 10:22.

Jesús endurspeglar eiginleika Guðs fullkomlega. Jesús líkti svo nákvæmlega eftir eiginleikum föður síns að hann gat sagt: „Sá sem hefur séð mig hefur líka séð föðurinn.“ (Jóhannes 14:9) Jesús laðaði fólk til Guðs með því að endurspegla kærleika föður síns í orðum sínum og verkum. Hann sagði: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemst til föðurins án mín.“ (Jóhannes 14:6) Hann sagði líka: „Hinir sönnu tilbiðjendur tilbiðja föðurinn í anda og sannleika því að faðirinn leitar þeirra sem tilbiðja hann þannig.“ (Jóhannes 4:23) Hugsaðu þér! Jehóva leitar að fólki eins og þér sem vill kynnast sannleikanum um hann.