Jóhannes segir frá 20:1–31

  • Gröfin er tóm (1–10)

  • Jesús birtist Maríu Magdalenu (11–18)

  • Jesús birtist lærisveinunum (19–23)

  • Tómas efast en lætur síðan sannfærast (24–29)

  • Til þess er bókrollan skrifuð (30, 31)

20  Á fyrsta degi vikunnar kom María Magdalena snemma til grafarinnar* meðan enn var dimmt og sá að steininum hafði verið velt frá gröfinni.*  Hún hljóp því til Símonar Péturs og hins lærisveinsins, þess sem Jesús elskaði, og sagði við þá: „Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni og við vitum ekki hvar þeir hafa lagt hann.“  Pétur og hinn lærisveinninn lögðu þá af stað til grafarinnar.  Þeir hlupu fyrst saman en hinn lærisveinninn hljóp hraðar en Pétur og kom á undan að gröfinni.  Hann beygði sig, leit inn fyrir og sá líndúkana liggja þar en fór ekki inn.  Símon Pétur kom nú á eftir honum. Hann fór inn í gröfina og sá líndúkana liggja þar.  Dúkurinn sem hafði verið um höfuðið var ekki með hinum dúkunum heldur lá samanvafinn á öðrum stað.  Hinn lærisveinninn, sem kom á undan að gröfinni, fór þá líka inn og hann sá og trúði.  En þeir skildu ekki enn ritningarstaðinn um að hann ætti að rísa upp frá dauðum. 10  Þeir fóru því aftur heim til sín. 11  María stóð hins vegar áfram fyrir utan gröfina og grét. Hún beygði sig grátandi fram, leit inn í gröfina 12  og sá tvo hvítklædda engla sitja þar sem lík Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta. 13  Þeir spurðu hana: „Kona, hvers vegna græturðu?“ Hún svaraði: „Þeir hafa tekið Drottin minn og ég veit ekki hvar þeir hafa lagt hann.“ 14  Að svo mæltu sneri hún sér við og sá Jesú standa þar en hún áttaði sig ekki á að það væri hann. 15  Jesús sagði við hana: „Kona, hvers vegna græturðu? Að hverjum ertu að leita?“ Hún hélt að þetta væri garðyrkjumaðurinn og sagði við hann: „Herra, ef þú hefur farið með hann segðu mér þá hvar þú hefur lagt hann og ég skal sækja hann.“ 16  Jesús sagði við hana: „María!“ Hún sneri sér við og sagði við hann á hebresku: „Rabbúní!“ (en það þýðir ‚kennari‘). 17  Jesús sagði við hana: „Haltu ekki í mig því að ég er enn ekki stiginn upp til föðurins. Farðu til bræðra minna og segðu þeim: ‚Ég stíg upp til föður míns og föður ykkar, til Guðs míns og Guðs ykkar.‘“ 18  María Magdalena fór til lærisveinanna og færði þeim fréttirnar: „Ég hef séð Drottin!“ Og hún sagði þeim það sem hann hafði sagt henni. 19  Um kvöldið þennan dag, fyrsta dag vikunnar, söfnuðust lærisveinarnir saman. Þeir höfðu læst dyrunum af ótta við Gyðinga. Þá birtist Jesús mitt á meðal þeirra og sagði: „Friður sé með ykkur.“ 20  Að svo mæltu sýndi hann þeim hendur sínar og síðu. Lærisveinarnir glöddust að sjá Drottin. 21  Jesús sagði þá aftur: „Friður sé með ykkur. Ég sendi ykkur eins og faðirinn hefur sent mig.“ 22  Síðan blés hann á þá og sagði: „Takið við heilögum anda. 23  Ef þið fyrirgefið öðrum syndir þeirra eru þær fyrirgefnar. Ef þið fyrirgefið ekki syndir annarra eru þær ekki fyrirgefnar.“ 24  Tómas, sem var einn þeirra tólf og var kallaður Tvíburinn, var ekki með þeim þegar Jesús kom. 25  Hinir lærisveinarnir sögðu honum: „Við höfum séð Drottin!“ En hann svaraði: „Ef ég sé ekki naglaförin á höndum hans og sting fingrinum í þau og sting hendinni í síðu hans mun ég aldrei trúa því.“ 26  Átta dögum síðar voru lærisveinarnir aftur saman innandyra og þá var Tómas með þeim. Jesús kom og stóð mitt á meðal þeirra þó að dyrnar væru læstar. „Friður sé með ykkur,“ sagði hann. 27  Síðan sagði hann við Tómas: „Sjáðu hendur mínar og snertu þær með fingrinum og stingdu hendinni í síðu mér. Hættu að efast* og trúðu.“ 28  Tómas svaraði: „Drottinn minn og Guð minn!“ 29  Jesús sagði við hann: „Trúirðu af því að þú hefur séð mig? Þeir sem hafa ekki séð en trúa samt eru hamingjusamir.“ 30  Jesús gerði vissulega mörg önnur kraftaverk í augsýn lærisveinanna sem eru ekki skráð í þessa bókrollu. 31  En þessi eru skráð til að þið getið trúað að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og hlotið líf vegna nafns hans af því að þið trúið.

Neðanmáls

Eða „minningargrafarinnar“.
Eða „minningargröfinni“.
Orðrétt „vera vantrúaður“.