Fyrsta Mósebók 17:1–27

  • Abraham á að verða ættfaðir margra þjóða (1–8)

    • Abram nefndur Abraham (5)

  • Sáttmáli um umskurð (9–14)

  • Saraí nefnd Sara (15–17)

  • Fæðing Ísaks sögð fyrir (18–27)

17  Þegar Abram var 99 ára birtist Jehóva honum og sagði: „Ég er almáttugur Guð. Gakktu á vegum mínum og vertu óaðfinnanlegur.*  Ég vil staðfesta sáttmálann milli mín og þín og gefa þér fjölmarga afkomendur.“  Þá féll Abram á grúfu og Guð hélt áfram að tala við hann og sagði:  „Ég hef gert sáttmála við þig og þú mátt treysta því að þú verður ættfaðir margra þjóða.  Þú skalt ekki lengur heita Abram* heldur Abraham* því að ég geri þig að ættföður margra þjóða.  Ég geri þig mjög frjósaman og þjóðir og konungar munu koma af þér.  Ég held sáttmálann milli mín og þín og afkomenda þinna eftir þig, kynslóð eftir kynslóð. Þetta er eilífur sáttmáli. Ég verð Guð þinn og afkomenda þinna eftir þig.  Landið þar sem þú býrð nú sem útlendingur, allt Kanaansland, gef ég þér og afkomendum þínum um ókomna tíð. Og ég verð Guð þeirra.“  Guð sagði enn fremur við Abraham: „Þú skalt halda sáttmála minn, þú og afkomendur þínir eftir þig, kynslóð eftir kynslóð. 10  Þetta er sáttmálinn milli mín og ykkar, sáttmálinn sem þú og afkomendur þínir skuluð halda: Allt karlkyns meðal ykkar skal umskera. 11  Þið eigið að skera forhúðina af. Það skal vera tákn sáttmálans milli mín og ykkar. 12  Alla drengi fædda í húsi þínu skal umskera átta daga gamla og sömuleiðis skal umskera alla þá sem hafa verið keyptir af útlendingi og eru ekki afkomendur þínir. Þetta skal gera kynslóð eftir kynslóð. 13  Það á að umskera þá alla, bæði þá sem fæðast í húsi þínu og þá sem eru keyptir. Sáttmáli minn, merktur á líkama ykkar, sé ævarandi sáttmáli. 14  Ef einhver óumskorinn neitar að láta umskerast skal uppræta hann úr þjóð sinni.* Hann hefur rofið sáttmála minn.“ 15  Guð sagði síðan við Abraham: „Saraí* eiginkona þín skal ekki lengur heita Saraí. Hún skal heita Sara.* 16  Ég mun blessa hana og gefa þér son með henni. Ég blessa hana og hún verður ættmóðir þjóða og þjóðkonungar koma af henni.“ 17  Abraham féll þá á grúfu og hló. Hann hugsaði með sér: „Getur 100 ára maður eignast börn og getur Sara fætt barn níræð?“ 18  Og Abraham sagði við hinn sanna Guð: „Bara að þú myndir blessa Ísmael!“ 19  Guð svaraði: „Sara eiginkona þín mun ala þér son og þú skalt nefna hann Ísak.* Ég staðfesti sáttmála minn við hann, sáttmála sem verður afkomendum hans til góðs að eilífu. 20  En hvað Ísmael snertir hef ég heyrt beiðni þína. Ég mun blessa hann, gera hann frjósaman og gefa honum fjölmarga afkomendur. Af honum koma 12 höfðingjar og ég geri hann að mikilli þjóð. 21  En ég staðfesti sáttmála minn við Ísak sem þú munt eignast með Söru á sama tíma að ári liðnu.“ 22  Þegar Guð hafði lokið samtali sínu við Abraham fór hann burt frá honum. 23  Abraham tók þá Ísmael son sinn og alla sem voru fæddir í húsi hans og alla sem hann hafði keypt, já, alla karlmenn í húsi sínu, og umskar þá þennan sama dag eins og Guð hafði sagt honum. 24  Abraham var 99 ára þegar hann var umskorinn 25  og Ísmael sonur hans var 13 ára þegar hann var umskorinn. 26  Þennan dag voru þeir umskornir, Abraham og Ísmael sonur hans. 27  Allir heimilismenn hans voru umskornir með honum, bæði þeir sem voru fæddir í húsi hans og þeir sem höfðu verið keyptir af útlendingi.

Neðanmáls

Eða „flekklaus“.
Sem þýðir ‚faðir er hár (upphafinn)‘.
Sem þýðir ‚faðir fjölda; faðir margra‘.
Eða „lífláta hann“.
Merkir hugsanl. ‚þrætugjörn‘.
Sem þýðir ‚prinsessa‘.
Sem þýðir ‚hlátur‘.