Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UNGLINGAR

Að standast hópþrýsting

Að standast hópþrýsting

VANDINN

„Í grunnskóla var ég sniðgengin af hinum krökkunum og það var sárt. Þegar ég komst á unglingastig ákvað ég að gera breytingar á útliti mínu og framkomu – og ekki til hins betra. Mig langaði svo mikið til að eignast vini að ég lét undan hópþrýstingi bara til að falla inn í hópinn.“ – Jennifer, 16 ára. *

Finnur þú fyrir hópþrýstingi? Þá getur þessi grein hjálpað þér.

Þegar þú lætur undan hópþrýstingi leyfirðu öðrum að stjórna þér eins og þú værir viljalaust vélmenni. Þú þarft ekki að leyfa þeim að hafa slíkt vald yfir þér. – Rómverjabréfið 6:16.

ÞAÐ SEM ÞÚ ÆTTIR AÐ VITA

Hópþrýstingur fær besta fólk til að gera slæma hluti.

„Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ – 1. Korintubréf 15:33.

„Maður veit að ákveðin hegðun er röng en þegar maður verður fyrir hópþrýstingi taka tilfinningarnar völdin og maður hugsar bara um að þóknast öðrum.“ – Dana.

Hópþrýstingur kemur ekki bara frá jafnöldrum.

„Þótt ég vilji gera hið góða er hið illa mér tamast.“ – Rómverjabréfið 7:21.

„Oftast kemur þrýstingurinn frá mér sjálfri. Ég þrái sjálf það sem krakkarnir eru alltaf að tala um og láta líta út fyrir að vera svo spennandi.“ – Diana.

Þegar þér tekst að standast hópþrýsting máttu vera stoltur af sjálfum þér.

„Hafið góða samvisku.“ – 1. Pétursbréf 3:16.

„Ég átti mjög erfitt með að standast hópþrýsting en núna óttast ég ekki að vera öðruvísi en hinir og ég stend fast á mínu. Það jafnast ekkert á við að fara að sofa á kvöldin með góða samvisku.“ – Carla.

HVAÐ ER TIL RÁÐA?

Þegar þrýst er á þig til að gera eitthvað slæmt geturðu prófað þetta:

Hugsaðu um afleiðingarnar. Spyrðu þig: Hvað gæti gerst ef ég léti undan þrýstingi til að gera eitthvað rangt og það kæmist upp um mig? Hvað myndu foreldrar mínir halda um mig? Hvernig myndi mér líða? – Meginregla: Galatabréfið 6:7.

„Foreldrar mínir spyrja mig spurninga eins og: ,Hvaða áhrif getur það haft á þig að láta undan þrýstingi?‘ Þeir hjálpa mér að skilja hvernig hópþrýstingur getur leitt mig út á ranga braut.“ – Olivia.

Styrktu sannfæringu þína. Spyrðu þig: Hvers vegna er ég alveg viss um að þessi hegðun sé skaðleg fyrir mig eða aðra? – Meginregla: Hebreabréfið 5:14.

„Þegar ég var lítil svaraði ég bara neitandi eða gaf stutta skýringu. Núna get ég hins vegar gefið góð rök fyrir því hvers vegna ég er ákveðin í að gera sumt en annað ekki. Ég stend á sannfæringu minni um hvað sé rétt og rangt og læt engan annan taka ákvörðun fyrir mig.“ – Anita.

Hugsaðu um hver þú vilt vera. Spyrðu þig: Hvernig manneskja vil ég vera? Hvernig myndi hún bregðast við svona þrýstingi? – Meginregla: 2. Korintubréf 13:5.

„Ég er sátt við sjálfa mig svo ég hef ekki svo miklar áhyggjur af því hvað öðrum finnst. Flestum finnst líka gaman að kynnast mér eins og ég er.“ – Alicia.

Hugsaðu fram í tímann. Ef þú ert í skóla núna eru allar líkur á því að þeir sem þú ert að reyna að þóknast verði horfnir úr lífi þínu eftir nokkur ár – ef ekki bara nokkra mánuði.

„Ég var að skoða bekkjarmynd og ég mundi ekki einu sinni eftir nöfnum sumra bekkjarfélaga minna. En þegar við vorum saman í skóla skipti skoðun þeirra mig meira máli en mín eigin sannfæring. Hvílík heimska!“ – Dawn, 22 ára.

Undirbúðu þig. Biblían segir: „Vitið hvernig þið eigið að svara hverjum manni.“ – Kólossubréfið 4:6.

„Mamma og pabbi hjálpa mér og systur minni að ímynda okkur aðstæður sem gætu komið upp og leika þær. Þannig vitum við hvernig við eigum að bregðast við þegar við lendum í þessum aðstæðum.“ – Christine.

^ gr. 4 Sumum nöfnum er breytt í þessari grein.