Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI

Þegar hamfarir verða – hvað getur bjargað lífum?

Þegar hamfarir verða – hvað getur bjargað lífum?

„Öflug sprenging kastaði mér nánast um koll. Reyk lagði út um loftræstiopin og eldur braust út í margra hæða skrifstofubyggingunni.“ – Joshua.

Jarðskjálfti ... fellibylur ... hryðjuverkaárás ... skotárás í skóla. Fyrirsagnir af þessu tagi eru allt of algengar. Það er að sjálfsögðu allt annað að lesa um slíkar hörmungar en að lenda í þeim sjálfur. Hvað er hægt að gera áður en hamfarir verða, á meðan á þeim stendur og á eftir til að auka líkurnar á að maður lifi af.

ÁÐUR – UNDIRBÚÐU ÞIG

ALLIR geta lent í hamförum. Mikilvægast er að vera undirbúinn til að auka líkurnar á að maður komist af. Hvernig geturðu undirbúið þig?

  • Undirbúðu þig hugarfarslega. Vertu vakandi fyrir því að hörmungar dynja yfir og að þú og ástvinir þínir geta orðið fyrir þeim. Það er of seint að undirbúa sig eftir að hamfarir hafa orðið.

  • Aflaðu þér upplýsinga um hamfarir sem geta orðið þar sem þú býrð. Kynntu þér hvar fjöldahjálparstöðvar eru staðsettar. Athugaðu hvort heimili þitt sé nægilega sterkbyggt og staðsett á öruggum stað. Fjarlægðu hluti sem auka eldhættu. Settu upp reykskynjara og endurnýjaðu rafhlöðurnar að minnsta kosti árlega.

  • Komdu þér upp neyðarbirgðum. Rafmagnið getur farið af, það getur orðið vatnslaust, símasamband rofnað og samgöngur fallið niður. Ef þú átt bíl skaltu reyna að hafa eldsneytistankinn alltaf að minnsta kosti hálfan og hafðu ávallt mat, vatn og neyðartösku til reiðu á heimilinu. – Sjá rammagreinina „ Ertu með allt sem þarf?

    Undirbúningur er mikilvægur til að komast lífs af.

  • Hafðu tiltæk símanúmer vina bæði fjær og nær.

  • Gerðu flóttaáætlun og æfðu hana. Kynntu þér útgönguleiðir í húsinu sem þú býrð í og viðbragðsáætlunina í skóla barna þinna. Ákveðið fyrir fram hvar fjölskyldan á að hittast ef þið verðið viðskila – til dæmis í skóla eða íþróttahúsi. Veljið einn stað nálægt heimilinu og annan utan hverfisins. Yfirvöld mæla með að foreldrar gangi með börnum sínum þangað svo að þau þekki leiðirnar vel.

  • Vertu undirbúinn að hjálpa öðrum, þar á meðal eldra fólki og þeim sem eru veikburða.

Á MEÐAN – BREGSTU TAFARLAUST VIÐ

„Þegar eldurinn braust út voru fæstir að flýta sér,“ segir Joshua sem minnst var á í byrjun greinarinnar. „Sumir fóru að slökkva á tölvunni sinni eða setja vatn í flösku. Einn maður sagði: ,Við ættum kannski bara að bíða.‘“ En þrátt fyrir að hinir hikuðu kallaði Joshua: „Við verðum að koma okkur út strax!“ Við það rönkuðu vinnufélagar hans við sér og fylgdu honum niður stigana. Joshua hélt áfram að kalla til þeirra: „Ef einhver dettur hjálpum við honum á fætur og höldum áfram. Við ætlum öll að komast héðan út!“

  • Eldsvoði. Haltu þig sem næst gólfinu og flýttu þér að næstu útgönguleið. Það er erfitt að sjá í reyk og flestir sem deyja í eldsvoða deyja úr reykeitrun. Forðaðu þér út án þess að taka nokkuð með þér. Sekúndur geta skilið milli lífs og dauða.

  • Jarðskjálfti. Leitaðu skjóls undir sterkbyggðu húsgagni eða upp við burðarvegg. Gerðu ráð fyrir eftirskjálftum. Farðu út úr húsinu og út á opið svæði eins fljótt og hægt er. Reyndu að hjálpa öðrum ef þú getur – það geta liðið nokkrar klukkustundir þar til björgunarfólk kemst á staðinn.

  • Flóðbylgja. Ef sjórinn hopar óvenju mikið frá ströndu skaltu tafarlaust flýja upp í hæð eða hlíð. Gerðu ráð fyrir að öldurnar magnist upp þegar þær koma að landi.

  • Hvirfilbylur eða fellibylur. Leitaðu án tafar í öruggt skjól eða stormbyrgi.

  • Flóð. Varastu byggingar sem flætt hefur inn í. Forðastu að vaða eða keyra í flóðvatni. Í því getur verið skólp og einnig leynst hættur eins og brak, opin holræsi og rafmagnslínur.

  • Vissir þú? Um hálfs metra djúpur vatnsflaumur getur skolað bíl í burtu. Flest dauðsföll vegna flóða verða þegar fólk reynir að keyra í gegnum vatnsflauminn.

  • Ef yfirvöld ákveða að rýma þurfi svæði skaltu fylgja fyrirmælum þeirra án tafar. Láttu vini þína vita hvar þú ert annars gætu þeir hætt lífi sínu í að leita að þér.

    Ef yfirvöld ákveða að rýma svæði skaltu fara án tafar.

  • Vissir þú? Það getur verið betra að senda textaskilaboð en að hringja.

  • Ef yfirvöld beina þeim fyrirmælum til fólks að halda sig innandyra skaltu fara eftir þeim. Ef eiturefni, sýklar eða geislavirk efni berast með lofti vegna slyss eða árásar skaltu slökkva á loftræstingu og loka og þétta fyrir glugga og dyr. Ef kjarnorkuslys eða -árás verður skaltu halda þig eins neðarlega í húsinu og hægt er til að varast geislun. Fylgstu með fréttum í sjónvarpi eða útvarpi. Haltu þig innandyra þar til yfirvöld gefa út tilkynningu um að hættan sé liðin hjá.

Á EFTIR – TRYGGÐU ÖRYGGI ÞITT

Skoðaðu eftirfarandi ráðleggingar til að forðast hættur og smitsjúkdóma:

  • Dveldu hjá vinum frekar en í fjöldahjálparstöð, ef mögulegt er.

  • Haltu dvalarstað þínum hreinum.

  • Notaðu hlífðarbúnað þegar þú hreinsar upp rusl eða brak. Ef hægt er skaltu nota hanska, sterka skó, hjálm og rykgrímu. Gættu þín á rafmagnsvírum og leyndum glóðum.

  • Haltu í daglegar venjur eins og hægt er. Það er mikilvægt að börnin þín finni að þú sért rólegur og vongóður. Láttu börnin sinna heimalærdómi, leiktu við þau, biðjið og lesið saman í Biblíunni. Vertu ekki of upptekinn af fréttum af hörmungunum og láttu ekki áhyggjur þínar eða gremju koma niður á fjölskyldunni. Þiggðu aðstoð og aðstoðaðu aðra.

    Eftir hamfarirnar skaltu halda daglegum venjum eins og hægt er.

  • Vertu viðbúinn að ýmislegt glatist í hamförum. Stjórnvöld og hjálparstofnanir einbeita sér að því að bjarga lífi fólks, ekki að bæta allt efnislegt tjón. Til að komast af þurfum við hreint vatn, mat, fatnað og húsaskjól. – 1. Tímóteusarbréf 6:7, 8.

  • Hamfarir geta valdið sálrænum skaða, leitaðu því hjálpar ef þörf er á. Oft kemur slíkt ekki í ljós fyrr en eftir að mesta áfallið er liðið hjá. Fólk getur glímt við einkenni eins og kvíða, þunglyndi og skapsveiflur auk þess að eiga í erfiðleikum með að einbeita sér, vinna og sofa. Talaðu við skilningsríka vini.

Þó að Joshua hafi lifað af eldsvoðann á vinnustað sínum gerðu margir af félögum hans það ekki. Hann fékk hjálp frá öldungum í söfnuðinum sínum og læknum. „Þeir fullvissuðu mig um að sorgin, sem ég upplifði, væri hluti af batanum og að hún myndi dvína með tímanum,“ segir Joshua. „Eftir hálft ár dró úr martröðunum. Önnur einkenni hafa varað lengur.“

Hamfarir snerta við réttlætiskennd okkar. Þar af leiðandi saka sumir Guð ranglega um þær. Margir finna þar að auki fyrir sektarkennd fyrir að hafa lifað af. Joshua er einn af þeim. Hann segir: „Ég hugsa enn um það hvort ég hefði getað bjargað fleirum. Það veitir mér huggun að Guð kemur brátt á réttlæti hér á jörð og afmáir allt ranglæti. En þar til svo verður er ég þakklátur fyrir lífið og geri mitt besta til að varðveita það.“ – Opinberunarbókin 21:4, 5. *

^ gr. 33 Hægt er að fá nánari upplýsingar um loforð Guðs um framtíðina og hvers vegna hann leyfir þjáningar í bókinni Hvað kennir Biblían? Hægt er að nálgast hana á www.pr418.com/is.