Opinberunarbókin 12:1–17

  • Konan, sveinbarnið og drekinn (1–6)

  • Mikael berst við drekann (7–12)

    • Drekanum kastað niður til jarðar (9)

    • Djöfullinn veit að hann hefur nauman tíma (12)

  • Drekinn ofsækir konuna (13–17)

12  Síðan birtist mikið tákn á himni: Kona var klædd sólinni og tunglið var undir fótum hennar. Á höfðinu var hún með kórónu úr 12 stjörnum  og hún var barnshafandi. Hún var með fæðingarhríðir og emjaði af sársauka.  Annað tákn sást á himni: Stór eldrauður dreki með sjö höfuð og tíu horn, og á höfðunum var hann með sjö kórónur.*  Með halanum dró hann með sér þriðjung af stjörnum himins og kastaði þeim niður til jarðar. Drekinn stóð frammi fyrir konunni sem var að því komin að fæða svo að hann gæti gleypt barn hennar þegar hún fæddi það.  Hún fæddi son, sveinbarn, sem á að ríkja yfir öllum þjóðum* með járnstaf. Barninu hennar var kippt burt og farið með það til Guðs og hásætis hans.  Og konan flúði út í eyðimörkina þar sem Guð hafði búið henni stað og henni yrði gefið að borða í 1.260 daga.  Nú braust út stríð á himni: Mikael* og englar hans börðust við drekann og drekinn barðist og englar hans  en þeir biðu ósigur* og áttu engan samastað lengur á himni.  Drekanum mikla var því kastað niður, hinum upphaflega höggormi sem er kallaður Djöfull og Satan og afvegaleiðir alla heimsbyggðina. Honum var kastað niður til jarðar og englum hans var kastað niður með honum. 10  Ég heyrði sterka rödd á himni sem sagði: „Nú er frelsunin, mátturinn og ríki Guðs okkar orðið að veruleika og Kristur hans fer með völd því að ákæranda bræðra okkar, sem ásakar þá fyrir Guði okkar dag og nótt, hefur verið kastað niður. 11  Þeir sigruðu hann vegna blóðs lambsins og vegna boðskaparins sem þeir boðuðu,* og þeim var lífið* ekki svo kært að þeir óttuðust dauðann. 12  Gleðjist því himnar og þið sem búið þar. En hörmungar koma yfir jörðina og hafið vegna þess að Djöfullinn er kominn niður til ykkar og er ofsareiður þar sem hann veit að hann hefur nauman tíma.“ 13  Þegar drekinn áttaði sig á að honum hafði verið kastað niður til jarðar fór hann að ofsækja konuna sem hafði fætt sveinbarnið. 14  En konunni voru gefnir vængirnir tveir af erninum mikla svo að hún gæti flogið út í eyðimörkina til síns staðar þar sem hún fær mat í tíð, tíðir og hálfa tíð* fjarri höggorminum. 15  Og höggormurinn spúði vatni, sem var eins og heilt fljót, á eftir konunni til að drekkja henni. 16  En jörðin kom konunni til hjálpar, opnaði munn sinn og svelgdi fljótið sem drekinn spúði út úr munni sínum. 17  Drekinn reiddist þá konunni og fór burt til að heyja stríð við þá afkomendur hennar sem eftir voru, þá sem halda boðorð Guðs og hafa það verkefni að vitna um Jesú.

Neðanmáls

Eða „konungleg höfuðbönd“.
Orðrétt „leiða allar þjóðir“.
Sem þýðir ‚hver er eins og Guð?‘
Eða hugsanl. „hann [það er drekinn] beið ósigur“.
Orðrétt „vegna orðs vitnisburðar síns“.
Eða „sálin“. Sjá orðaskýringar.
Það er, þrjár og hálfa tíð.