Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hver er konungur í ríki Guðs?

Hver er konungur í ríki Guðs?

Guð innblés nokkrum biblíuriturum að benda á ýmis smáatriði svo að hægt væri að bera kennsl á þann sem átti að verða konungur Guðsríkis. Hér eru nokkur dæmi:

  • Guð valdi hann. „Konung minn hef ég krýnt ... ég gef þér þjóðir að erfðum og víða veröld til eignar.“ – Sálmur 2:6, 8.

  • Hann var erfingi Davíðs konungs. „Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn ... Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka á hásæti Davíðs og í ríki hans. Hann mun reisa það og efla.“ – Jesaja 9:5, 6.

  • Hann fæddist í Betlehem. „Þú, Betlehem ... frá þér læt ég þann koma er drottna skal ... Þá munu menn mikla hann allt til endimarka jarðar.“ – Míka 5:1, 3.

  • Menn höfnuðu honum og tóku af lífi. „Hann var fyrirlitinn ... og vér mátum hann einskis ... hann var særður vegna vorra synda, kraminn vegna vorra misgjörða.“ – Jesaja 53:3, 5.

  • Hann var reistur upp frá dauðum og vegsamaður. „Þú ofurselur helju ekki líf mitt, sýnir ekki gröfina þeim sem treystir þér ... yndi [er] í hægri hendi þinni að eilífu.“ – Sálmur 16:10, 11.

Jesús Kristur er tilvalinn stjórnandi

Þessi lýsing á tilvöldum stjórnanda hefur aðeins átt við um eina persónu í mannkynssögunni – Jesú Krist. Engill sagði við Maríu móður Jesú: „Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans ... og enginn endir verður á ríki hans.“ – Lúkas 1:31–33.

Jesús varð aldrei konungur á meðan hann var á jörðinni. Hann á öllu heldur að ríkja yfir mannkyninu sem konungur í ríki Guðs á himnum. Hvað gerir hann tilvalinn stjórnanda? Skoðum hvað Jesús gerði þegar hann var á jörðinni.

  • Jesús bar umhyggju fyrir fólki. Jesús hjálpaði körlum og konum á öllum aldri óháð bakgrunni þeirra eða stöðu. (Matteus 9:36; Markús 10:16) Eitt sinn sárbændi holdsveikur maður Jesú: „Ef þú bara vilt geturðu hreinsað mig.“ Jesús kenndi í brjósti um manninn og læknaði hann. – Markús 1:40–42.

  • Jesús kenndi okkur að þóknast Guði. Hann sagði: „Þið getið ekki þjónað Guði og auðnum.“ Hann sagði einnig að við ættum að koma fram við aðra eins og við vildum að aðrir kæmu fram við okkur. Sú meginregla er þekkt sem gullna reglan. Auk þess sýndi hann að Guð hefur ekki aðeins áhuga á því sem við gerum heldur einnig á okkar innri manni. Við þurfum því að hafa stjórn á því sem við erum hið innra til að þóknast Guði. (Matteus 5:28; 6:24; 7:12) Jesús lagði líka áherslu á að við þyrftum að vita hvað Guð vill að við gerum og fylgja því til að hljóta sanna hamingju. – Lúkas 11:28.

  • Jesús kenndi hvað það þýðir að sýna kærleika. Orð og verk Jesú voru kraftmikil og snertu hjörtu þeirra sem hlustuðu á hann. „Mannfjöldinn [var] agndofa yfir kennslu hans því að hann kenndi eins og sá sem hefur vald.“ (Matteus 7:28, 29) Jesús sagði: „Elskið óvini ykkar.“ Hann bað meira að segja fyrir sumum þeirra sem voru ábyrgir fyrir því að taka hann af lífi: „Faðir, fyrirgefðu þeim því að þeir vita ekki hvað þeir eru að gera.“ – Matteus 5:44; Lúkas 23:34.

Jesús er fullkomlega hæfur til að fara með stjórn yfir heiminum sem hjálpsamur og hlýlegur stjórnandi. En hvenær tekur hann við völdum?