Hoppa beint í efnið

Hvers vegna halda Vottar Jehóva kvöldmáltíð Drottins á annan hátt en önnur trúarbrögð?

Hvers vegna halda Vottar Jehóva kvöldmáltíð Drottins á annan hátt en önnur trúarbrögð?

 Við fylgjum boði Biblíunnar nákvæmlega um hvernig eigi að halda kvöldmáltíð Drottins hátíðlega, en hún er einnig þekkt sem ,máltíð Drottins‘, síðasta kvöldmáltíðin eða minningarhátíðin um dauða Jesú. (1. Korintubréf 11:20, Biblían 2010) En skoðanir og venjur margra trúflokka stangast á við það sem Biblían kennir um kvöldmáltíð Drottins.

Tilgangur

 Tilgangurinn með kvöldmáltíð Drottins er að minnast Jesú og sýna þakklæti fyrir fórnina sem hann færði fyrir okkur. (Matteus 20:28; 1. Korintubréf 11:24) Kvöldmáltíðin er ekki helgiathöfn eða sakramenti þar sem hægt er að fá blessun Guðs eða fyrirgefningu synda. a Biblían kennir að við getum fengið syndir okkar fyrirgefnar með því að trúa á Jesú, en ekki í gegnum helgiathafnir. – Rómverjabréfið 3:25; 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2.

Hversu oft?

 Jesús bauð lærisveinum sínum að halda kvöldmáltíð Drottins hátíðlega, en hann sagði ekki nákvæmlega hve oft þeir ættu að gera það. (Lúkas 22:19) Sumum finnst að það ætti að halda minningarhátíðina mánaðarlega, á meðan aðrir halda hana vikulega, daglega, nokkrum sinnum yfir daginn eða eins oft og þeim sjálfum finnst vera rétt. b En það er gott að íhuga eftirfarandi atriði.

 Jesús innleiddi kvöldmáltíð Drottins sama dag og Gyðingar héldu páska. Og hann dó síðar þann dag. (Matteus 26:1, 2) Þetta var engin tilviljun. Ritningin ber saman fórn Jesú við fórn páskalambsins. (1. Korintubréf 5:7, 8) Páskarnir voru haldnir einu sinni á ári. (2. Mósebók 12:1–6; 3. Mósebók 23:5) Á sama hátt héldu kristnir menn á fyrstu öldinni minningarhátíðina um dauða Jesú einu sinni á ári. c Vottar Jehóva fylgja þessu fordæmi úr Biblíunni.

Dagur og tími

 Fordæmi Jesú hjálpar okkur ekki aðeins að finna út hversu oft við eigum að halda minningarhátíðina heldur líka hvaða dag og tíma við ættum að halda hana. Hann stofnaði til minningarhátíðarinnar eftir sólsetur 14. nísan árið 33 samkvæmt tunglalmanaki Biblíunnar. (Matteus 26:18–20, 26) Með því að halda minningarhátíðina þennan sama dag á hverju ári fylgjum við fordæmi kristinna manna á fyrstu öld. d

 Árið 33 var 14. nísan föstudagur en þessi minningardagur getur borið upp á hvaða vikudag sem er. Í stað þess að nota dagatal Gyðinga nú á dögum, notum við sömu aðferð og var notuð á dögum Jesú til að reikna út hvaða dag 14. nísan ber upp á. e

Brauðið og vínið

 Jesús notaði leifar frá páskamáltíðinni, ósýrt brauð og rauðvín, til að innleiða þessa nýju hátíð. (Matteus 26:26–28) Við fylgjum fordæmi hans. Brauðið er ósýrt og ekki blandað með öðrum hráefnum. Vínið er hreint rauðvín, ekki þrúgusafi eða vín sem er sætt, kryddað eða styrkt með sterku áfengi.

 Sumir trúflokkar nota brauð með geri eða súrdeigi. En súrdeig er oft notaði í Biblíunni sem tákn um synd og spillingu. (Lúkas 12:1; 1. Korintubréf 5:6–8; Galatabréfið 5:7–9) Þess vegna er aðeins ósýrt og ókryddað brauð viðeigandi tákn um syndlausan líkama Krists. (1. Pétursbréf 2:22) Önnur hefð sem samræmist ekki Biblíunni er að nota ógerjaðan þrúgusafa í staðinn fyrir vín. Sum trúfélög gera það vegna þess að þau banna neyslu áfengis, en áfengisbann kemur ekki frá Biblíunni. – 1. Tímóteusarbréf 5:23.

Tákn – ekki bókstaflegt hold og blóð

 Ósýrða brauðið og vínið, sem er borið fram við minningarhátíðina, táknar hold og blóð Jesú Krists. Þau breytast ekki í eða blandast fyrir kraftaverk bókstaflegum líkama hans og blóði eins og margir halda. Skoðum hvað Biblían kennir um þetta.

  •   Ef Jesús hefði boðið lærisveinum sínum að drekka blóð sitt hefði hann verið að segja þeim að brjóta lög Guðs um að neyta ekki blóðs. (1. Mósebók 9:4; Postulasagan 15:28, 29) Jesús hefði aldrei sagt öðrum að brjóta lög Guðs um heilagleika blóðsins. – Jóhannes 8:28, 29.

  •   Ef postularnir hefðu drukkið blóð Jesú í bókstaflegum skilningi hefði hann aldrei sagt: „Blóð mitt … sem á að úthella,“ því að það gefur í skyn að það átti eftir að bera fram fórnina. – Matteus 26:28.

  •   Jesús fórnaði sjálfum sér „í eitt skipti fyrir öll“. (Hebreabréfið 9:25, 26) En ef brauðið og vínið breyttist í hold og blóð hans við kvöldmáltíð Drottins, væru þeir sem neyta af brauðinu og víninu að endurtaka fórnina.

  •   Jesús sagði: „Gerið þetta til minningar um mig.“ Hann sagði ekki: „Gerið þetta til að fórna mér.“ – 1. Korintubréf 11:24.

 Þeir sem trúa því að brauðið og vínið breytist bókstaflega í hold og blóð Jesú byggja kenningu sína á ákveðnum versum í Biblíunni. Í mörgum biblíuþýðingum er sagt að Jesús segi um vínið: „Þetta er blóð mitt.“ (Matteus 26:28, Biblían 2010) En það er líka hægt að þýða orð Jesú með því að segja: „Þetta táknar blóð mitt.“ f Jesús notaði hér myndlíkingu eins og hann gerði oft þegar hann kenndi. – Matteus 13:34, 35.

Hverjir neyta af brauðinu og víninu?

 Þegar Vottar Jehóva halda kvöldmáltíð Drottins neytir aðeins lítill hluti þeirra brauðsins og vínsins. Hvers vegna?

 Með úthelltu blóði sínu gerði Jesús „nýjan sáttmála“ sem kom í staðinn fyrir þann sáttmála sem Jehóva Guð hafði gert við Ísraelsþjóðina. (Hebreabréfið 8:10–13) Þeir sem tilheyra þessum nýja sáttmála neyta af brauðinu og víninu. Það eru aðeins „hinir kölluðu“ sem Guð hefur valið sérstaklega. (Hebreabréfið 9:15; Lúkas 22:20) Þeir eiga að ríkja með Kristi á himnum og samkvæmt Biblíunni fá aðeins 144.000 þetta sérstaka verkefni. – Lúkas 22:28–30; Opinberunarbókin 5:9, 10; 14:1, 3.

 Þeir sem eru kallaðir til að ríkja með Kristi eru ,lítil hjörð‘ í samanburði við meirihluta manna sem vonast til að verða hluti af ,miklum múgi‘ sem hlýtur eilíft líf hér á jörðinni. (Lúkas 12:32; Opinberunarbókin 7:9, 10) Þótt við sem höfum von um að lifa á jörðinni neytum ekki af brauðinu og víninu erum við viðstödd minningarhátíðina til að sýna hversu þakklát við erum fyrir lausnarfórn Jesú. – 1. Jóhannesarbréf 2:2.

a Í 9. bindi Cyclopedia eftir McClintock og Strong, bls. 212, segir: „Hugtakið sakramenti fyrirfinnst ekki í NT [Nýja testamentinu]; gríska orðið μυστήριον [mysteʹrion] er heldur aldrei notað í tengslum við skírn, kvöldmáltíð Drottins eða aðrar athafnir.“

b Sumar biblíuþýðingar nota orðalagið „svo oft sem“ í tengslum við kvöldmáltíð Drottins og hefur það verið notað til að útskýra hversu oft á að halda minningarhátíðina. En upphafleg merking í þessu samhengi er „hvert sinn“. – 1. Korintubréf 11:25, 26, Biblían 2010.

c Sjá The New Schaff-Herzog Encyclopedia of Religious Knowledge, 4. bindi, bls. 43–44 og Cyclopedia eftir McClintock og Strong, 8. bindi, bls. 836.

d Sjá The New Cambridge History of the Bible, 1. bindi, bls. 841.

e Nútímadagatal Gyðinga notar stjarnfræðiútreikning á nýju tungli til að áætla hvenær mánuðurinn nísan hefst, en sú leið var ekki notuð á fyrstu öldinni. Þá hófst mánuðurinn þegar nýtt tungl var sýnilegt í Jerúsalem, en það getur verið einum degi eða meira eftir að stjarnfræðilegt nýtt tungl á sér stað. Þetta er ein ástæðan fyrir því að dagsetningin sem Vottar Jehóva halda minningarhátíðina samræmist ekki alltaf dagsetningunni sem Gyðingar halda páska nú á dögum.

f Sjá A New Translation of the Bible eftir James Moffatt; The New Testament – A Translation in the Language of the People eftir Charles B. Williams; The Original New Testament eftir Hugh J. Schonfield.