Hoppa beint í efnið

Hvað gefur tímatal Biblíunnar til kynna varðandi árið 1914?

Hvað gefur tímatal Biblíunnar til kynna varðandi árið 1914?

Svar Biblíunnar

 Tímatal Biblíunnar gefur til kynna að ríki Guðs hafi verið stofnsett á himnum árið 1914. Þetta kemur fram í spádómi sem er skráður í 4. kafla Daníelsbókar.

 Spádómurinn. Guð lét Nebúkadnesar konung í Babýlon dreyma draum um risavaxið tré sem var höggvið niður. Stofninn var fjötraður í „sjö tíðir“ svo að hann gæti ekki vaxið en eftir það óx tréð aftur. – Dan 3:31; 4:7–13.

 Fyrri uppfylling spádómsins. Stóra tréð táknar Nebúkadnesar sjálfan. (Dan 4:17–19) Hann var ,höggvin niður‘ í táknrænni merkingu þegar hann missti vitið og konungstignina í sjö ár. (Dan 4:22) Þegar Guð gaf Nebúkadnesari aftur vitið var hann settur yfir konungsríki sitt að nýju. Þá viðurkenndi hann vald Guðs. – Dan 4:31–33.

 Síðari uppfylling spádómsins. Spádómurinn var borinn fram svo að allir menn myndu sjá „að Hinn æðsti er alvaldur yfir ríki mannanna; að hann fær ríkið hverjum sem hann vill og getur jafnvel sett yfir það hinn lítilmótlegasta meðal manna“. (Daníel 4:14) Var það vilji Guðs að stolti konungurinn Nebúkadnesar fengi slíkt vald? Nei, því að Guð hafði áður látið hann dreyma annan spádómlegan draum sem sýndi að hvorki hann né nokkur annar pólitískur valdhafi myndi gegna þessu hlutverki. Þess í stað myndi Guð sjálfur „magna upp ríki sem aldrei mun hrynja“. – Daníel 2:31–44.

 Guð hafði áður magnað upp ríki til að vera fulltrúi stjórnar hans á jörð, það er að segja Ísraelsþjóðina til forna. Guð leyfði að það ríki væri lagt í rúst því að valdhafar þess reyndust ótrúir. Guð sagði líka fyrir að hann myndi gefa konungdóminn þeim „sem hefur réttinn“. (Esekíel 21:25–27, Biblían 1981) Biblían bendir á að Jesús Kristur sé sá sem hefur lagalegan rétt til að fá þetta eilífa ríki. (Lúkas 1:30–33) Jesús er af „hjarta lítillátur“ eins og spáð var, ólíkt Nebúkadnesari. – Matteus 11:29.

 Hvað táknar tréð í 4. kafla Daníelsbókar? Í Biblíunni tákna tré stundum ríki. (Esekíel 17:22–24; 31:2–5) Í aðaluppfyllingu spádómsins í 4. kafla Daníelsbókar táknar risavaxna tréð stjórn Guðs.

 Hvað merkir það að tréð er höggvið niður? Það táknar að hlé var gert á konungdómi Nebúkadnesars. Það táknar líka að hlé yrði gert á stjórn Guðs á jörð. Þegar Nebúkadnesar lagði Jerúsalem í rúst rættist þetta því að þar ríktu konungar Ísraels „í hásæti Drottins“ sem fulltrúar hans. – 1. Kroníkubók 29:23.

 Hvað tákna ,tíðirnar sjö‘? Þessar „sjö tíðir“ tákna tímabilið sem Guð leyfði þjóðunum að ríkja yfir jörðinni án afskipta ríkis hans. ,Tíðirnar sjö‘ hófust í október 607 f.Kr. samkvæmt tímatali Biblíunnar en þá eyddu Babýloníumenn Jerúsalem. a – 2. Konungabók 25:1, 8–10

 Hvað eru ,tíðirnar sjö‘ langt tímabil? Þær geta ekki verið bara sjö ár eins og á dögum Nebúkadnesars. Við sjáum það af orðum Jesú. Hann sagði: „Þjóðirnar munu fótumtroða Jerúsalem [hún táknaði stjórn Guðs] þar til tilsettur tími þjóðanna er á enda.” (Lúkas 21:24) „Tilsettur tími þjóðanna“ – tímabilið sem Guð hefur leyft ,þjóðunum að fótumtroða‘ veldi hans – er það sama og ,tíðirnar sjö‘ í 4. kafla Daníelsbókar. Það þýðir að ,tíðirnar sjö‘ voru enn ekki liðnar þegar Jesús var á jörð.

 Biblían sýnir hvernig hægt er að komast að því hvað þessar „sjö tíðir“ eru langar. Þrjár og hálf ,tíð‘ eru 1.260 dagar þannig að „sjö tíðir“ eru tvisvar sinnum þessi tala eða 2.520 dagar. (Opinberunarbókin 12:6, 14) Sé spádómlegu reglunni um „eitt ár fyrir hvern dag“ fylgt þá tákna 2.520 dagar 2.520 ár. Þar af leiðandi enduðu þessar „sjö tíðir” eða 2.520 ár í október 1914. – 4. Mósebók 14:34; Esekíel 4:6.

a Nánari skýringar á því hvers vegna miðað er við árið 607 f.Kr. er að finna í greininni „When Was Ancient Jerusalem Destroyed? – Part One“ í Varðturninum á ensku 1. október 2011 á bls. 26–31 og í greininni „When Was Ancient Jerusalem Destroyed? – Part Two“ í Varðturninum á ensku 1. nóvember 2011 á bls. 22–28.