Hoppa beint í efnið

Er helja eða helvíti til? Hvað segir Biblían?

Er helja eða helvíti til? Hvað segir Biblían?

Svar Biblíunnar

 Orðin „helvíti“ og „helja“ er finna á ýmsum stöðum í sumum biblíuþýðingum. (Matteus 5:29; Postulasagan 2:27) Margir trúa að þar sé átt við logandi víti þar sem vondum sé refsað líkt og má sjá á myndinni með þessari grein. En kennir Biblían það?

Í þessari grein

 Er helvíti staður þar sem fólk kvelst eftir dauðann?

 Nei. Í Biblíunni 2010 er „helvíti“ þýðing orðsins Gehenna sem er gríska heitið á Hinnomsdal, suður og suðvestur af Jerúsalem til forna. (Jeremía 7:31) Í spádómi er sagt að líkum yrði dreift þar. (Jeremía 7:32; 19:6) Ekkert bendir til þess að dýrum eða mönnum hafi verið kastað lifandi í Gehenna til að brenna þar eða kveljast. Gehenna getur því ekki táknað ósýnilegan stað þar sem sálir manna kveljast að eilífu í bókstaflegum eldi. Jesús og lærisveinar hans notuðu Gehenna öllu heldur sem tákn um eilífa refsingu, útrýmingu sem er kölluð ‚hinn annar dauði‘. – Opinberunarbókin 20:14; Matteus 5:22; 10:28.

 Hvað er helja?

 Í Biblíunni 2010 er „helja“ yfirleitt þýðing hebreska orðsins Sheol og gríska orðsins Hades en þar er hebreska orðið þó stöku sinnum þýtt „dánarheimar“ og „undirheimar“. Bæði frummálsorðin merkja einfaldlega ‚gröf‘, það er sameiginlega gröf mannkyns. Biblían sýnir að þeir sem hvíla í „gröfinni“ eru ekki lengur til.

  •   Hinir dánu eru án meðvitundar og geta því ekki fundið til. „Í dánarheimum … er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.“ (Prédikarinn 9:10, Biblían 2010) Helja, eða ‚dánarheimar‘, er ekki staður kvala eða kveinstafa. Í Biblíunni segir: „Lát hina guðlausu verða til skammar, hverfa hljóða til heljar.“ – Sálmur 31:18, Biblían 2010; Sálmur 115:17.

  •   Guð ákvað að afleiðing syndarinnar yrði dauði, ekki kvalir í logandi víti. Hann sagði Adam, fyrsta manninum, að refsingin fyrir að brjóta lög hans yrði að deyja. (1. Mósebók 2:17) Hann sagði ekkert um að kveljast að eilífu í helvíti. Síðar, eftir að Adam syndgaði, sagði Guð honum hver refsingin yrði: „Þú ert mold og þú skalt snúa aftur til moldar.“ (1. Mósebók 3:19) Hann myndi hætta að vera til. Guð hefði án efa minnst á það ef hann ætlaði að senda Adam í logandi víti. Guð hefur ekki breytt refsingunni fyrir að brjóta lög sín. Löngu eftir synd Adams innblés hann biblíuritara að skrifa: „Launin sem syndin greiðir eru dauði.“ (Rómverjabréfið 6:23) Það er ekki þörf á frekari refsingu því að „sá sem er dáinn er sýknaður af synd sinni“. – Rómverjabréfið 6:7.

  •   Guði finnst hugmyndin um að kvelja einhvern að eilífu vera andstyggileg. (Jeremía 32:35) Hún gengur þvert á það sem Biblían kennir, en hún segir: „Guð er kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8) Hann vill að við tilbiðjum sig vegna þess að við elskum hann en ekki vegna þess að við óttumst eilífar kvalir. – Matteus 22:36–38.

  •   Gott fólk fór til heljar. Samkvæmt biblíum sem nota orðin „helja“ og „undirheimar“ bjuggust trúfastir menn eins og Jakob og Job við að fara þangað. (1. Mósebók 37:35, Biblían 2010; Jobsbók 14:13, Biblían 2010) Meira að segja er sagt að Jesús hafi verið í helju frá því að hann dó og þangað til hann var reistur aftur upp til lífs. (Postulasagan 2:31, 32) Greinilegt er að þegar talað er um „helju“ og „undirheima“ í þeim biblíum er einfaldlega átt við gröfina. a

 Hvað merkir dæmisaga Jesú um ríka manninn og Lasarus?

 Jesús sagði þessa dæmisögu og hún er skráð í Lúkasi 16:19–31. Dæmisögur eru líkingar sem kenna okkur siðferðisgildi og sjónarmið Guðs á málum. Dæmisagan um ríka manninn og Lasarus er ekki frásaga af einhverju sem gerðist í raun og veru. (Matteus 13:34) Sjá greinina „Hverjir voru ríki maðurinn og Lasarus?“ til að fræðast meira um þessa dæmisögu.

 Merkir það að vera í helju að vera fjarlægur Guði?

 Nei. Sú kenning að hinir dánu geti verið meðvitaðir um að þeir séu fjarlægir Guði stangast á við Biblíuna. Hún segir skýrt að hinir dánu séu ekki meðvitaðir um neitt. – Sálmur 146:3, 4; Prédikarinn 9:5.

 Hefur einhver losnað úr helju?

 Já. Í Biblíunni eru ítarlegar frásögur af níu einstaklingum sem fóru í gröfina (þýtt „helja“ í sumum biblíuþýðingum) og voru reistir upp til lífs aftur. b Ef þeir hefðu verið meðvitaðir um umhverfi sitt í helju hefðu þeir getað sagt frá reynslu sinni. Það er athyglisvert að enginn minntist á að hafa verið kvalinn eða að hafa upplifað nokkuð yfirhöfuð. Hvers vegna? Biblían bendir aftur og aftur á að þeir hafi verið án meðvitundar, eins og í djúpum svefni. – Jóhannes 11:11–14; 1. Korintubréf 15:3–6.