Matteus segir frá 10:1–42

  • Postularnir 12 (1–4)

  • Fyrirmæli varðandi boðunina (5–15)

  • Lærisveinar Jesú verða ofsóttir (16–25)

  • Hræðist Guð, ekki menn (26–31)

  • Ekki friður heldur sverð (32–39)

  • Að taka við lærisveinum Jesú (40–42)

10  Hann kallaði nú til sín lærisveina sína 12 og gaf þeim vald til að reka út óhreina anda og lækna fólk af hvers kyns sjúkdómum og meinum.  Postularnir 12 hétu: Símon, sem var kallaður Pétur, og Andrés bróðir hans, Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróðir hans,  Filippus og Bartólómeus, Tómas og Matteus skattheimtumaður, Jakob Alfeusson, Taddeus,  Símon Kananeus* og Júdas Ískaríot sem síðar sveik hann.  Jesús sendi út þessa 12 og gaf þeim eftirfarandi fyrirmæli: „Leggið ekki leið ykkar til annarra þjóða og farið ekki inn í nokkra samverska borg  heldur aðeins til týndra sauða af ætt Ísraels.  Farið og boðið: ‚Himnaríki er í nánd.‘  Læknið veika, reisið upp dána, hreinsið holdsveika, rekið út illa anda. Gefins hafið þið fengið, gefins skuluð þið láta í té.  Útvegið ykkur ekki gull, silfur eða kopar til að hafa í peningabelti ykkar 10  og takið ekki nestispoka til ferðarinnar, föt til skiptanna,* ilskó eða staf því að verkamaðurinn verðskuldar mat sinn. 11  Þegar þið komið í borg eða þorp skuluð þið leita að þeim sem eru verðugir og dvelja þar þangað til þið leggið af stað aftur. 12  Heilsið heimilisfólkinu þegar þið gangið í húsið. 13  Ef það er verðugt skal friðurinn sem þið óskið því koma yfir það en sé það ekki verðugt skal friðurinn snúa aftur til ykkar. 14  Ef einhver tekur ekki á móti ykkur eða hlustar ekki á ykkur skuluð þið hrista rykið af fótum ykkar þegar þið farið úr húsinu eða borginni. 15  Trúið mér, bærilegra verður fyrir land Sódómu og Gómorru á dómsdegi en þá borg. 16  Ég sendi ykkur út eins og sauði meðal úlfa. Verið því varkárir eins og höggormar en saklausir eins og dúfur. 17  Varið ykkur á mönnum því að þeir munu draga ykkur fyrir dómstóla og húðstrýkja ykkur í samkunduhúsum sínum. 18  Þið verðið leiddir fyrir landstjóra og konunga vegna mín, til að bera vitni fyrir þeim og þjóðunum. 19  En þegar þeir leiða ykkur fyrir yfirvöld skuluð þið ekki hafa áhyggjur af því hvað þið eigið að segja eða hvernig, því að ykkur verður gefið það jafnóðum. 20  Það eruð ekki bara þið sem talið heldur er það andi föður ykkar sem hjálpar ykkur að tala. 21  Auk þess mun bróðir framselja bróður sinn til dauða og faðir barn sitt, og börn rísa gegn foreldrum sínum og fá þau líflátin. 22  Allir munu hata ykkur vegna nafns míns en sá sem er þolgóður* allt til enda bjargast. 23  Þegar þeir ofsækja ykkur í einni borg skuluð þið flýja í aðra. Trúið mér, þið náið alls ekki að fara um allar borgir Ísraels áður en Mannssonurinn kemur. 24  Nemandi er ekki fremri kennara sínum né þjónn húsbónda sínum. 25  Nemandi má búast við að fá sömu meðferð og kennari hans, og þjónn sömu meðferð og húsbóndi hans.* Hafi menn kallað húsbóndann Beelsebúl* hljóta þeir að kalla heimilismenn hans það líka. 26  Hræðist þá ekki því að ekkert er hulið sem verður ekki flett ofan af og ekkert er leynt sem verður ekki kunnugt. 27  Segið í birtu það sem ég segi ykkur í myrkri, og boðið af húsþökum það sem þið heyrið hvíslað. 28  Hræðist ekki þá sem deyða líkamann en geta ekki deytt sálina.* Hræðist heldur þann sem getur tortímt bæði sál og líkama í Gehenna.* 29  Eru ekki tveir spörvar seldir fyrir einn smápening?* Samt fellur enginn þeirra til jarðar án þess að faðir ykkar viti af því. 30  En á ykkur eru jafnvel öll höfuðhárin talin. 31  Verið því óhræddir, þið eruð meira virði en margir spörvar. 32  Hvern sem kannast við mig frammi fyrir mönnum mun ég einnig kannast við frammi fyrir föður mínum á himnum. 33  En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum mun ég einnig afneita fyrir föður mínum á himnum. 34  Haldið ekki að ég hafi komið til að færa frið á jörð. Ég kom ekki til að færa frið heldur sverð. 35  Ég kom til að valda sundrung, setja son upp á móti föður sínum, dóttur á móti móður sinni og tengdadóttur á móti tengdamóður sinni. 36  Já, heimilismenn manns verða óvinir hans. 37  Hver sem elskar föður eða móður meira en mig verðskuldar ekki að fylgja mér, og hver sem elskar son eða dóttur meira en mig verðskuldar ekki að fylgja mér. 38  Hver sem tekur ekki kvalastaur* sinn og fylgir mér verðskuldar ekki að vera fylgjandi minn. 39  Hver sem finnur líf* sitt týnir því og hver sem týnir lífi* sínu vegna mín finnur það. 40  Hver sem tekur við ykkur tekur líka við mér og hver sem tekur við mér tekur líka við þeim sem sendi mig. 41  Hver sem tekur við spámanni af því að hann er spámaður hlýtur sömu laun og spámaður, og hver sem tekur við réttlátum manni af því að hann er réttlátur hlýtur sömu laun og réttlátur maður. 42  Og hver sem gefur einum af þessum minnstu bolla af köldu vatni að drekka af því að hann er lærisveinn fer alls ekki á mis við launin.“

Neðanmáls

Eða „hinn kappsami“.
Eða „tvenn föt“.
Eða „hefur verið þolgóður“.
Orðrétt „Það er nóg að lærisveinn verði eins og kennari hans og þjónn eins og húsbóndi hans“.
Heiti sem er notað um Satan, höfðingja eða drottnara illra anda.
Eða „lífið“, það er, möguleikann á lífi í framtíðinni.
Sjá orðaskýringar.
Orðrétt „assaríon“.
Sjá orðaskýringar.
Eða „sál“.
Eða „sál“.