Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þau buðu sig fúslega fram – í Míkrónesíu

Þau buðu sig fúslega fram – í Míkrónesíu

KATHERINE ólst upp í Bandaríkjunum og var skírð sem vottur Jehóva 16 ára gömul. Hún tók boðunarstarfið alvarlega en fékk lítil viðbrögð við boðskapnum um ríkið þar sem hún boðaði trúna. Hún segir: „Ég las frásögur af fólki sem bað Guð um að senda einhvern til að hjálpa sér að kynnast honum. Ég óskaði þess oft að ég myndi finna slíka manneskju, en mér varð ekki að ósk minni“.

Eftir að hafa starfað árum saman á sama svæði fór Katherine að hugsa um að flytja þangað sem fólk væri móttækilegra fyrir fagnaðarerindinu. Hún velti samt fyrir sér hvort þetta væri á hennar færi. Hún hafði aðeins einu sinni verið í burtu frá fjölskyldu sinni – bara í tvær vikur – og hafði heimþrá hvern einasta dag. En einlæg löngun hennar til að njóta ánægjunnar, sem fylgir því að hjálpa leitandi fólki að kynnast Jehóva, réði úrslitum. Þegar hún hafði valið nokkra staði, sem henni fannst koma til greina að flytja til, skrifaði hún deildarskrifstofunni í Gvam og fékk þær upplýsingar sem hún þurfti. Katherine flutti síðan í júlí 2007, þá 26 ára. Fyrir valinu varð eyjan Saipan í Kyrrahafi sem er í tæplega 10.000 kílómetra fjarlægð frá heimaslóðum hennar. Hvernig gekk henni svo á nýja staðnum?

TVÖFÖLD BÆNHEYRSLA

Stuttu eftir að Katherine byrjaði að starfa með söfnuðinum á nýja svæðinu hitti hún Doris, konu á fimmtugsaldri, sem þáði biblíunámskeið. Þegar þær höfðu farið yfir fyrstu þrjá kaflana í bókinni Hvað kennir Biblían? fór Katherine að hafa áhyggjur. Hún sagði: „Doris var svo góður nemandi að ég var hrædd um að eyðileggja fyrir henni. Ég hafði aldrei áður haldið biblíunámskeið og fannst að Doris þyrfti á reynslumeiri kennara að halda, hugsanlega á hennar eigin aldri“. Katherine bað Jehóva í bæn um að hjálpa sér að finna rétta systur sem hún gæti treyst fyrir biblíunemanda sínum. Síðan ákvað hún að láta Doris vita að bráðum fengi hún nýjan biblíukennara.

Katherine segir: „Áður en ég gat komið mér að efninu sagði Doris að hún vildi tala við mig um ákveðið vandamál. Eftir að ég hafði hlustað á hana sagði ég að Jehóva hefði hjálpað mér að takast á við svipað vandamál. Hún þakkaði mér fyrir hjálpina.“ Síðan sagði Doris við Katherine: „Jehóva notar þig til að hjálpa mér. Fyrsta daginn, sem þú komst til mín, hafði ég verið að lesa í Biblíunni klukkustundum saman. Grátandi bað ég til Guðs um að senda einhvern sem gæti hjálpað mér að skilja Biblíuna. Það var þá sem þú bankaðir upp á. Jehóva bænheyrði mig.“ Katherine getur ekki tára bundist þegar hún minnist þessa sérstaka augnabliks. Hún segir: „Orð Dorisar voru svar við bæn minni. Jehóva sýndi mér að ég væri fær um að halda áfram að kenna henni.“

Doris lét skírast árið 2010 og nú hefur hún sjálf nokkra biblíunemendur. Katherine bætir við: „Ég er svo þakklát fyrir að langþráð ósk mín, að aðstoða einlæga manneskju að gerast þjónn Jehóva, varð að veruleika.“ Katherine nýtur þess nú að starfa sem sérbrautryðjandi á Kyrrahafseyjunni Kosrae.

ÞRENNS KONAR ÁSKORANIR

Meira en hundrað erlendir bræður og systur (á aldrinum 19 til 79 ára) hafa starfað þar sem þörf er fyrir fleiri boðbera í Míkrónesíu. Orð Ericu endurspegla viðhorf þessara ötulu verkamanna en hún var 19 ára þegar hún flutti til Gvam árið 2006. Hún segir: „Það er svo gaman að vera brautryðjandi á svæði þar sem fólk þyrstir í sannleikann. Ég er svo þakklát að Jehóva hefur hjálpað mér að takast á við þetta verkefni. Þetta er besti lífsmátinn!“ Erica nýtur þess nú að vera sérbrautryðjandi á eyjunni Ebeye sem tilheyrir Marshalleyjum. Að sjálfsögðu er ekki alltaf auðvelt að starfa á erlendri grund. Við skulum athuga þrenns konar áskoranir og sjá hvernig þeir sem hafa flutt til Míkrónesíu hafa tekist á við þær.

Erica.

Lífsmáti. Eftir að Simon, sem er 22 ára, kom til eyjunnar Palá árið 2007 áttaði hann sig fljótt á því að hann gat aðeins unnið sér inn brot af þeim launum sem hann hafði haft í heimalandi sínu, Englandi. „Ég þurfti að læra að kaupa ekki allt sem mig langaði í. Nú vel ég vandlega hvaða matvöru ég kaupi og geri verðsamanburð til að gera sem best kaup. Þegar eitthvað bilar leita ég að notuðum varahlutum og reyni fá einhvern til að hjálpa mér að gera við hlutina.“ Hverju breytti það fyrir hann að þurfa að einfalda lífið? Simon segir: „Ég áttaði mig á hvað það er sem er nauðsynlegt í lífinu og hvernig hægt er að komast af með minna. Umhyggja Jehóva hefur komið berlega í ljós oftar en einu sinni. Á þeim sjö árum, sem ég hef starfað hér, hefur mig aldrei skort mat eða stað til að sofa á.“ Jehóva styður þá sem lifa einföldu lífi af því að þá langar til að leita fyrst ríkis hans. – Matt. 6:32, 33.

Heimþrá. Erica segir: „Ég er mjög náin fjölskyldu minni, og ég hafði áhyggjur af því að heimþrá myndi verða mér fjötur um fót í þjónustunni við Jehóva.“ Hvernig undirbjó hún sig? „Áður en ég flutti las ég greinar í Varðturninum um heimþrá. Þetta reyndist mér góður undirbúningur. Í einni slíkri grein fullvissaði móðir dóttur sína um að Jehóva gæti séð betur um hana en hún væri fær um. Fullvissa móðurinnar veitti mér styrk.“ Hannah starfar ásamt Patrick, eiginmanni sínum, á eyjunni Majuro sem tilheyrir Marshalleyjum. Hannah tekst á við heimþrá með því að reyna að tengjast bræðrum og systrum í söfnuðinum betur. Hún segir: „Ég þakka Jehóva stöðugt fyrir bræður og systur um allan heim, vegna þess að þau eru líka fjölskylda mín. Án kærleika og stuðnings trúsystkina minna hefði ég aldrei getað þjónað sem þörfin er meiri.“

Simon.

Að aðlagast. „Þegar maður flytur til annars lands er flest öðruvísi en maður er vanur,“ segir Simon. „Ég sakna þess stundum að geta ekki sagt brandara sem fólk skilur almennilega.“ Erica segir: „Í byrjun fannst mér ég vera út undan en það varð til þess að ég fór að íhuga hvers vegna ég hefði flutt. Ég flutti ekki mín vegna heldur til að gera meira fyrir Jehóva.“ Hún bætir við: „Með tímanum myndaðist vinátta sem er mér afar dýrmæt.“ Simon lagði hart að sér til að læra tungumálið sem talað er á eyjunni Palá. Þannig gat hann ,látið verða rúmgott‘ hjá sér gagnvart bræðrum og systrum á Palá. (2. Kor. 6:13) Söfnuðinum fannst mjög vænt um að hann skyldi leggja á sig að læra tungumálið. Já, þegar aðfluttir og heimamenn vinna saman uppskera báðir hóparnir einlæga vináttu í söfnuðinum. Hvað fleira uppskera þeir sem hafa fúslega boðið sig fram til að þjóna þar sem þörfin er meiri?

,AÐ UPPSKERA RÍFLEGA‘

Páll postuli sagði: „Sá sem sáir ríflega mun og ríflega uppskera.“ (2. Kor. 9:6) Það má sannarlega heimfæra meginregluna, sem kemur fram í þessum orðum, upp á þá sem færa út kvíarnar í þjónustunni. Hvað ,uppskera þeir ríflega‘ sem fara til Míkrónesíu?

Patrick og Hannah.

Í Míkrónesíu gefast enn þá mörg tækifæri til að finna fólk sem vill kynna sér Biblíuna. Hægt er að kynnast af eigin raun hvernig einstaklingar taka framförum í trúnni þegar þeir læra sannleikann í orði Guðs og tileinka sér hann. Patrick og Hannah boðuðu líka fagnaðarerindið á litlu eyjunni Angaur, en þar voru 320 íbúar. Þegar þau höfðu boðað fagnaðarerindið þar í tvo mánuði hittu þau einstæða móður. Hún þáði biblíunámskeið strax, drakk í sig sannleikann og gerði gagngerar breytingar á lífi sínu. Hannah segir: „Áður en við hjóluðum af stað eftir hverja námsstund litum við hvort á annað og þökkuðum Jehóva.“ Hannah bætir við: „Ég veit að Jehóva hefði dregið þessa konu til sín með einum eða öðrum hætti. En af því að við störfuðum þar sem þörfin er meiri fengum við að finna þessa hjartahreinu konu og hjálpa henni að kynnast Jehóva. Þetta er eitt það eftirminnilegasta í lífi okkar.“ Eða eins og Erica segir: „Þegar maður aðstoðar einhvern við að kynnast Jehóva uppsker maður ólýsanlega gleði.“

GETUR ÞÚ ÁTT ÞÁTT Í ÞESSU STARFI?

Í mörgum löndum er þörf fyrir fleiri boðbera Guðsríkis. Gætir þú flutt þangað sem þörf er á aðstoð? Biddu Jehóva í bæn að hjálpa þér að finna hjá þér löngun til að færa út kvíarnar í boðunarstarfinu. Ræddu málið við öldungana í heimasöfnuði þínum, farandhirðinn eða þá sem hafa reynslu af starfi í landi þar sem aðstoðar var þörf. Þegar þú ert farinn að gera áætlun skaltu fá frekari upplýsingar með því að skrifa deildarskrifstofunni sem viðkomandi svæði heyrir undir. * Ef til vill getur þú verið meðal þeirra þúsunda bræðra og systra – á öllum aldri, jafnt giftra sem ógiftra – sem hafa boðið sig fúslega fram. Þá getur þú líka fundið gleðina sem fylgir því að ,uppskera ríflega‘.

^ Sjá greinina „Getur þú farið ,yfir til Makedóníu‘?“ í Ríkisþjónustu okkar í ágúst 2011.