Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þau buðu sig fúslega fram – á Madagaskar

Þau buðu sig fúslega fram – á Madagaskar

„SUMIR vina minna þjónuðu Jehóva á svæðum þar sem mikil þörf var á brautryðjendum. Þegar ég hlustaði á frásögur þeirra langaði mig til að upplifa þessa sömu gleði,“ segir Sylviana, brautryðjandi á miðjum þrítugsaldri. Hún bætir við: „Ég óttaðist þó að ég gæti ekki flutt langt í burtu til að boða trúna.“

Getur verið að þér líði eins og Sylviönu? Langar þig líka til að starfa á svæði þar sem þörf er á fleiri verkamönnum Guðsríkis en veltir fyrir þér hvort þú getir nokkurn tíma náð því markmiði? Misstu ekki móðinn ef svo er. Með hjálp Jehóva hafa þúsundir bræðra og systra náð að yfirstíga hindranir sem héldu aftur af þeim. Til að sjá hvernig Jehóva greiddi sumum þeirra götuna skulum við heimsækja Madagaskar, fjórðu stærstu eyju jarðar.

Undanfarinn áratug hafa meira en 70 kappsamir boðberar og brautryðjendur frá 11 löndum * komið til að starfa á þessu gróskumikla svæði í Afríku þar sem margir bera virðingu fyrir Biblíunni. Auk þess hefur fjöldi innfæddra boðbera verið fús til að flytja og hjálpa til við að boða boðskapinn um ríki Guðs vítt og breitt um þessa stóru eyju. Við skulum kynnast nokkrum þeirra.

ÞAU SIGRUÐUST Á ÓTTA OG KJARKLEYSI

Perrine og Louis

Louis og Perrine eru hjón á fertugsaldri sem fluttust til Madagaskar frá Frakklandi. Þau höfðu árum saman hugsað um að flytjast til annars lands til að gera meira í þjónustunni við Jehóva, en Perrine var hikandi. Hún útskýrir: „Ég óttaðist hið óþekkta. Ég kveið því að segja skilið við fjölskylduna, söfnuðinn, íbúðina, alla staðina sem við þekktum svo vel og daglegt líf okkar. Í rauninni voru áhyggjur mínar stærsta hindrunin sem ég þurfti að yfirstíga.“ Perrine taldi í sig kjark og árið 2012 fluttu þau hjónin. Hvað finnst henni um að hafa tekið þessa ákvörðun? „Þegar ég lít um öxl get ég sagt að það hefur verið trústyrkjandi að finna hönd Jehóva að verki í lífi okkar.“ Louis bætir við: „Hugsið ykkur, á fyrstu minningarhátíðinni okkar á Madagaskar mættu tíu biblíunemendur okkar!“

Hvað veitti hjónunum styrk til að geta verið um kyrrt á Madagaskar þegar erfiðleikar komu upp? Þau sárbændu Jehóva að gefa sér styrk til að halda út. (Fil. 4:13) Louis segir: „Við fundum að Jehóva svaraði bænum okkar og veitti okkur ,frið sinn‘. Við gátum einbeitt okkur að gleðinni sem boðunin veitti okkur. Vinir okkar heima fyrir sendu okkur líka tölvupóst og bréf og hvöttu okkur til að gefast ekki upp.“ – Fil. 4:6, 7; 2. Kor. 4:7.

Jehóva launaði Louis og Perrine þolgæðið ríkulega. „Í október 2014 fórum við í Biblíuskólann fyrir hjón * í Frakklandi,“ segir Louis. „Það var ógleymanleg gjöf frá Jehóva að sækja þennan skóla.“ Hjónin voru yfir sig ánægð að vera send aftur til Madagaskar eftir útskriftina.

„VIÐ YRÐUM STOLT AF YKKUR“

Nadine og Didier

Hjónin Didier og Nadine voru á miðjum aldri þegar þau fluttust frá Frakklandi til Madagaskar árið 2010. Didier segir: „Við vorum brautryðjendur á okkar yngri árum en síðan ólum við upp þrjú börn. Þegar þau komust á fullorðinsár veltum við fyrir okkur möguleikanum á að starfa á erlendri grund.“ Nadine viðurkennir: „Tilhugsunin um að vera aðskilin frá börnunum varð til þess að ég hikaði, en þau sögðu við okkur: ,Við yrðum stolt af ykkur ef þið flyttust til lands þar sem þörfin er meiri.‘ Það hvatti okkur til að láta slag standa. Þótt við búum núna langt frá börnunum erum við glöð að geta talað oft við þau.“

Það var ekki auðvelt fyrir Didier og Nadine að læra malagasísku. „Við erum ekki lengur tvítug,“ segir Nadine og brosir. En hvernig tókst þeim það? Í byrjun tilheyrðu þau frönskumælandi söfnuði. En þegar þeim fannst þau tilbúin til að glíma við tungumál heimamanna fóru þau yfir í malagasískan söfnuð. Nadine segir: „Margir sem við hittum í boðuninni hafa yndi af að kynna sér Biblíuna. Oft þakkar fólk okkur fyrir að heimsækja sig. Fyrst hélt ég að mig væri að dreyma. Mér finnst svo ánægjulegt að vera brautryðjandi hér. Þegar ég vakna á morgnana segi ég við sjálfa mig: ,Þetta er æðislegt – ég fer í boðunina í dag!‘“

Didier brosir þegar hann rifjar upp hvernig það var þegar hann byrjaði að læra malagasísku. „Ég stýrði umræðum á samkomu en skildi ekki eitt einasta svar bræðra og systra. Það eina sem ég gat sagt var „takk fyrir“. Þegar ég hafði þakkað einni systur fyrir svar sitt fóru þeir sem sátu fyrir aftan hana að gefa mér bendingu um að svarið hennar hefði verið rangt. Ég var fljótur að gefa bróður einum orðið, og hann kom með rétta svarið – eða að minnsta kosti vona ég það.“

HÚN ÞÁÐI BOÐIÐ MEÐ ÁNÆGJU

Hjónin Thierry og Nadia horfðu á leikritið „Settu þér markmið sem eru Guði til heiðurs“ á umdæmismóti árið 2005. Þetta biblíuleikrit um Tímóteus snart hjörtu þeirra og kynti undir lönguninni til að starfa þar sem mikil þörf var á verkamönnum Guðsríkis. Thierry segir: „Á meðan klappað var eftir leikritið hallaði ég mér að konunni minni og spurði: ,Hvert ætlum við?‘ Hún sagðist einmitt hafa verið að hugsa það sama.“ Stuttu síðar fóru þau að breyta lífi sínu til að geta náð markmiðinu. Nadia segir: „Smátt og smátt losuðum við okkur við eigur okkar þar til allt sem við áttum eftir komst fyrir í fjórum ferðatöskum.“

Til vinstri: Nadia og Marie-Madeleine; Til hægri: Thierry

Þau komu til Madagaskar árið 2006 og hafa notið boðunarinnar allt frá upphafi. „Fólkið, sem við hittum, veitir okkur svo mikla gleði,“ segir Nadia.

Sex árum síðar komu þó upp ákveðnir erfiðleikar. Marie-Madeleine, móðir Nadiu sem bjó í Frakklandi, datt og handleggsbrotnaði og slasaðist á höfði. Eftir að hjónin höfðu ráðfært sig við lækni móðurinnar buðu þau henni að koma og búa hjá sér á Madagaskar. Þó að hún væri áttræð á þeim tíma þáði hún boðið með ánægju. Hvað finnst henni um að búa erlendis? Hún segir: „Stundum er erfitt að aðlagast, en þrátt fyrir takmarkanir mínar finnst mér ég koma að gagni í söfnuðinum. Og það sem gleður mig mest er að með því að búa hér geta dóttir mín og tengdasonur haldið áfram að starfa á þessu svæði þar sem uppskeran er mikil.“

„ÉG FANN FYRIR HJÁLPARHENDI JEHÓVA“

Riana flytur ræðu á tandroy.

Riana er rúmlega tvítugur bróðir. Hann ólst upp í Alaotra Mangoro, frjósömu svæði á austurhluta Madagaskar. Hann stóð sig vel í skóla og vildi afla sér æðri menntunar en skipti um skoðun eftir að hafa kynnt sér Biblíuna. Hann segir: „Ég lagði mig fram um að klára framhaldsskólann fyrr en venja var og lofaði Jehóva að ég myndi gerast brautryðjandi ef ég næði lokaprófinu.“ Riana stóð við loforðið eftir að hann útskrifaðist. Hann flutti inn til brautryðjandabróður, fékk sér hlutastarf og byrjaði sem brautryðjandi. Hann segir: „Þetta var besta ákvörðun lífs míns.“

Ættingjar Riana skildu hins vegar ekki hvers vegna hann reyndi ekki að fá sér vel launaða vinnu. Hann segir: „Faðir minn, föðurbróðir og ömmusystir hvöttu mig öll til að afla mér æðri menntunar. En ég vildi ekki fórna brautryðjandastarfinu fyrir neitt annað.“ Ekki leið á löngu þar til Riana vildi flytjast þangað sem mikil þörf var á boðberum. Hvað átti þátt í því? Hann segir: „Þjófar brutust inn til okkar og stálu mörgum eigum mínum. Innbrotið fékk mig til að hugsa um orð Jesú varðandi það að safna sér ,fjársjóðum á himni‘. Ég ákvað að leggja meira á mig til að eignast andleg auðæfi.“ (Matt. 6:19, 20) Hann fluttist til syðsta hluta landsins – mikils þurrkasvæðis 1.300 kílómetra frá staðnum þar sem hann bjó, en á því svæði býr Antandroy-þjóðflokkurinn. Hvers vegna fór hann þangað?

Mánuði fyrir innbrotið hafði Riana komið af stað biblíunámskeiði með tveim Antandroy-mönnum. Hann lærði nokkrar setningar á tandroy, málinu þeirra, og honum var hugsað til þeirra mörgu Antandroy-manna sem höfðu enn ekki heyrt boðskapinn um ríki Guðs. Hann segir: „Ég bað Jehóva að hjálpa mér að flytjast á tandroy-málsvæðið.“

Riana flutti og mætti strax erfiðleikum. Hann fékk enga vinnu. Maður einn spurði hann: „Af hverju komstu hingað? Fólk héðan fer þangað sem þú bjóst til að leita sér að vinnu.“ Að tveim vikum liðnum fór Riana burt til að sækja umdæmismót. Þá var hann nánast uppiskroppa með peninga og velti fyrir sér hvað hann ætti til bragðs að taka. Síðasta mótsdaginn stakk bróðir nokkur einhverju í jakkavasa hans. Það voru peningar, nógu miklir til að hann gæti ferðast aftur til Antandroy-svæðisins og komið af stað fyrirtæki sem seldi jógúrt. Riana segir: „Ég fann fyrir hjálparhendi Jehóva einmitt á réttum tíma. Ég gat haldið áfram að hjálpa þeim sem höfðu ekki fengið tækifæri til að kynnast Jehóva.“ Það var líka mikið að gera í söfnuðinum. Riana bætir við: „Mér var falið að flytja opinberan fyrirlestur aðra hverja viku. Jehóva notaði söfnuð sinn til að þjálfa mig.“ Riana boðar enn boðskapinn um ríkið meðal þeirra mörgu tandroy-mælandi manna sem vilja kynnast Jehóva.

,BLESSUN Í NAFNI HINS TRÚFASTA GUÐS‘

Jehóva fullvissar okkur um að hver „sá sem óskar sér blessunar í landinu óski sér blessunar [hlýtur blessun, NW] í nafni hins trúfasta Guðs“. (Jes. 65:16) Þegar við leggjum hart að okkur til að yfirstíga hindranir og auka við starf okkar hljótum við blessun Jehóva. Sylviana, sem minnst var á í byrjun greinar, fann fyrir því. Hún óttaðist að það væri sér um megn að flytjast þangað sem þörfin er mikil. Hvers vegna leið henni þannig? Hún útskýrir: „Vinstri fóturinn á mér er um 9 sentimetrum styttri en sá hægri. Ég er því hölt og þreytist fljótt.“

Sylviana (til vinstri) og Sylvie Ann (til hægri) með Doratine daginn sem hún lét skírast.

En Sylviana lét það ekki stöðva sig. Árið 2014 fluttist hún ásamt Sylvie Ann, ungri brautryðjandasystur í söfnuðinum hennar, í lítið þorp 85 kílómetra frá heimabænum. Draumur Sylviönu hafði orðið að veruleika þrátt fyrir hindranirnar – og hún uppskar ríkulega blessun! Hún segir: „Ég hafði ekki verið á nýja staðnum nema í ár þegar Doratine, ung móðir sem ég leiðbeindi við biblíunám, lét skírast á svæðismóti.“

„ÉG HJÁLPA ÞÉR“

Þessir duglegu boðberar, sem rætt hefur verið um, hafa sýnt mikla trú. Þegar við leitumst við að yfirstíga hindranir til að auka við starf okkar finnum við líka mjög sterkt fyrir sannleiksgildi þessa loforðs Jehóva til þjóna sinna: „Ég styrki þig, ég hjálpa þér.“ (Jes. 41:10) Fyrir vikið styrkist sambandið við hann. Þegar við bjóðum okkur fúslega fram – hvort sem það er í heimalandinu eða erlendis – búum við okkur auk þess undir að sinna þeim verkefnum sem bíða okkar í nýja heiminum. Didier, sem áður er getið, kemst þannig að orði: „Að starfa þar sem þörfin er mikil er góð þjálfun fyrir framtíðina.“ Það er von okkar að margir fúsir verkamenn bætist í hópinn á næstunni.

^ gr. 4 Þessir boðberar komu frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Gvadelúpeyjum, Kanada, Lúxemborg, Nýju-Kaledóníu, Sviss, Svíþjóð, Tékklandi og Þýskalandi.

^ gr. 8 Skólinn fyrir boðbera Guðsríkis er nú tekinn við af þessum skóla. Boðberar, sem þjóna Jehóva í fullu starfi á erlendri grund og uppfylla hæfniskröfurnar, geta sótt um að sitja þennan skóla í heimalandinu eða öðru landi þar sem kennslan fer fram á móðurmáli þeirra eða máli sem þeir skilja vel.