Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Burnett, Simone, Eston og Caleb

Þau buðu sig fúslega fram – í Eyjaálfu

Þau buðu sig fúslega fram – í Eyjaálfu

RENEÉ er systir á miðjum fertugsaldri. Hún ólst upp í Ástralíu og foreldrar hennar voru ötulir vottar. „Við fluttum mörgum sinnum til að aðstoða á svæðum þar sem mikil þörf var á boðberum,“ segir hún. „Pabbi og mamma sáu til þess að lífið væri áhugavert, spennandi og skemmtilegt. Þegar ég sjálf eignaðist tvö börn vildi ég að þau hlytu sams konar líf.“

Shane, eiginmaður Reneéar, tæplega fertugur bróðir, var með svipuð markmið í þjónustu Jehóva. Hann segir: „Eftir að við eignuðumst annað barnið okkar lásum við um vottafjölskyldu í Varðturninum sem hafði farið til Suðvestur-Kyrrahafs á seglskútunni sinni til að boða trúna á Tongaeyjum. * Greinin varð til þess að við skrifuðum deildarskrifstofum Votta Jehóva í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi til að spyrja hvar væri mikil þörf á boðberum. * Okkur var þá boðið að flytjast til Tonga, en það voru einmitt eyjarnar sem við höfðum lesið um.“

Jacob, Reneé, Skye og Shane

Þegar Shane, Reneé og börnin þeirra, Jacob og Skye, höfðu búið í um það bil ár á Tonga urðu mikil uppþot í landinu og þau neyddust til að snúa aftur til Ástralíu. En markmið þeirra að auka starf sitt fyrir Jehóva var enn ofarlega í huga þeirra. Þau fluttust því árið 2011 til Norfolkeyju, örlítillar eyju í Kyrrahafinu um 1.500 kílómetra austur af Ástralíu. Var það góð ákvörðun? Jacob, sem er núna 14 ára, segir: „Jehóva hugsaði ekki bara vel um okkur, hann sá líka til þess að boðunin væri skemmtileg.“

FJÖLSKYLDUR LEGGJA SIG FRAM Í ÞJÓNUSTU JEHÓVA

Rétt eins og Shane, Reneé og börnin þeirra hafa margar fjölskyldur boðið sig fúslega fram til að starfa á svæðum þar sem mikil þörf er á boðberum. Hvað hvatti þær til að flytja?

„Margir höfðu áhuga á fagnaðarerindinu. Við vildum geta boðið þeim reglulegt heimabiblíunámskeið.“ – Burnett.

Burnett og Simone eru hjón á miðjum fertugsaldri og eiga tvo syni, Eston og Caleb, sem núna eru 12 og 9 ára. Þau fluttu til Burketown, einangraðs bæjar í Queensland í Ástralíu. „Vottar boðuðu trúna þar á aðeins þriggja til fjögurra ára fresti,“ segir Burnett. „Margir höfðu áhuga á fagnaðarerindinu. Við vildum geta boðið þeim reglulegt heimabiblíunámskeið.“

Jim, Jack, Mark og Karen

Mark og Karen, rúmlega fimmtug hjón, störfuðu í ýmsum söfnuðum í nágrenni við Sydney í Ástralíu áður en þau fluttu með börnunum sínum þrem, Jessicu, Jim og Jack, til Nhulunbuy, afskekkts námubæjar á Norðursvæðinu. Mark segir: „Ég er mjög félagslyndur svo að ég vildi vera á stað þar sem mikið var að gera bæði í söfnuðinum og í boðuninni.“ Karen var hins vegar ekki svo spennt fyrir að flytja. „En eftir að Mark og aðrir hvöttu mig til þess var ég fús til að prófa það,“ segir hún. „Núna er ég ánægð að hafa gert það.“

Benjamin, Jade, Bria og Carolyn

Árið 2011 fluttu Benjamin og Carolyn með dætur sínar tvær, Jade og Briu, sem þá voru á leikskólaaldri, frá Queensland í Ástralíu til Tímor-Leste, en það er lítið ríki á eyjunni Tímor í indónesíska eyjaklasanum. „Við Carolyn höfðum áður verið sérbrautryðjendur á Tímor-Leste,“ segir Ben. „Það var æðislegt í boðuninni og bræður og systur veittu okkur mikinn stuðning. Við vorum miður okkar þegar við fórum þaðan og vorum ákveðin í að koma aftur. Þegar börnin fæddust frestuðum við áætlun okkar en breyttum henni ekki.“ Carolyn bætir við: „Við vildum að börnin okkar yrðu umkringd trúboðum, Betelítum og sérbrautryðjendum og nytu sín sem best í þjónustunni við Jehóva.“

AÐ BÚA SIG UNDIR AÐ FLYTJA

Jesús sagði við fylgjendur sína: „Hver yðar sest ekki fyrst við ef hann ætlar að reisa turn og reiknar kostnaðinn?“ (Lúk. 14:28) Eins er mikilvægt að fjölskylda, sem er að hugsa um að flytja sig um set, búi sig vel undir það. Hverju þarf að huga að?

ANDLEGAR ÞARFIR: „Við vildum þjóna öðrum en ekki vera þeim byrði,“ segir Ben. „Áður en við fluttum sáum við því til þess að byggja okkur upp í trúnni. Við tókum líka meiri þátt í boðuninni og öðru starfi innan safnaðarins.“

Jacob, sem minnst var á fyrr í greininni, segir: „Áður en við fluttum til Norfolkeyju lásum við margar ævisögur í Varðturninum og Vaknið! um fjölskyldur sem störfuðu á svæðum þar sem mikil þörf var á boðberum. Við ræddum um erfiðleikana sem fjölskyldurnar þurftu að glíma við og hvernig Jehóva hugsaði um þær.“ Skye, 11 ára systir hans, bætir við: „Ég bað margar bænir, bæði sjálf og með mömmu og pabba.“

TILFINNINGALEGAR ÞARFIR: Reneé segir: „Við bjuggum nálægt fjölskyldu og nánum vinum á svæði sem var mér mjög kært svo að það hefði verið auðvelt að búa þar áfram. En í staðinn fyrir að láta hugann dvelja við það sem ég var að yfirgefa hugsaði ég um hvernig fjölskyldan nyti góðs af því að flytja.“

NÝ MENNING: Margar fjölskyldur lesa sér til um staðinn sem þær flytja á til að búa sig undir nýjar aðstæður. „Við lásum eins mikið og við gátum um Nhulunbuy,“ segir Mark. „Bræður, sem bjuggu þar, voru svo góðir að senda okkur eintök af bæjarblaðinu en þannig fengum við smá innsýn í líf heimamanna og menningu þeirra.“

Shane, sem flutti til Norfolkeyju, segir líka: „Fyrst og fremst lagði ég mig fram um að sýna kristna eiginleika. Ég vissi að ef ég væri einlægur, mildur, hreinskilinn og vinnusamur gæti ég aðlagast aðstæðum hvar sem er í heiminum.“

AÐ TAKAST Á VIÐ ERFIÐLEIKA

Þeir sem hafa flutt á svæði þar sem þörfin er mikil og gengið vel leggja áherslu á hve mikilvægt er að vera sveigjanlegur og jákvæður til að takast á við óvæntar aðstæður. Skoðum nokkur dæmi:

Reneé segir: „Ég lærði nýjar leiðir til að gera ýmislegt. Þegar vont er í sjóinn við Norfolkeyju geta vöruflutningaskip ekki lagt að og þá getur orðið skortur á matvörum og verðið rýkur upp. Ég hef því lært að vera úrræðagóð þegar ég elda.“ Shane, maðurinn hennar, bætir við: „Við pössum að eyða ekki meiri peningum en við höfum áætlað fyrir vikuna.“

Jacob, sonur þeirra, bendir á aðra áskorun. „Í nýja söfnuðinum voru bara sjö aðrir boðberar og allir voru fullorðnir. Ég átti því enga vini á mínum aldri. En þegar ég boðaði trúna með þeim sem voru mér eldri urðum við fljótlega vinir.“

Jim, sem er núna 21 árs, stóð í svipuðum sporum. Hann segir: „Næsti söfnuður við Nhulunbuy er í rúmlega 725 kílómetra fjarlægð. Við nýtum okkur því mótin eins vel og við getum og mætum snemma til að njóta félagsskapar við trúsystkini okkar. Fyrir okkur eru mótin hápunktar ársins!“

„ÉG ER SVO ÁNÆGÐUR AÐ VIÐ SKYLDUM FLYTJA HINGAÐ!“

Í Biblíunni segir: „Blessun Drottins auðgar.“ (Orðskv. 10:22) Ótal boðberar, sem hafa flust þangað sem þörfin er mikil, hafa upplifað sannleiksgildi þessara innblásnu orða.

„Mesta blessunin við það að flytja eru áhrifin sem það hefur haft á börnin okkar,“ segir Mark. „Eldri börnin treysta algerlega að Jehóva sjái um þá sem setja ríki hans í fyrsta sæti. Slíkt traust fæst ekki fyrir peninga.“

Shane segir: „Núna á ég miklu nánara samband við konuna mína og börnin. Þegar þau segja frá því sem Jehóva hefur gert fyrir þau fyllist ég gleði og ánægju.“ Jacob, sonur hans, er sammála og segir: „Þetta hefur verið frábær tími. Ég er svo ánægður að við skyldum flytja hingað!“

^ gr. 3 Sjá greinina „Friends of God in the ,Friendly Islands‘“ í enskri útgáfu Varðturnsins 15. desember 2004, bls. 8-11.

^ gr. 3 Árið 2012 voru deildarskrifstofurnar í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi sameinaðar í eina sem kallast deildarskrifstofan í Ástralasíu.