Síðara bréfið til Korintumanna 9:1–15

  • Að gefa af réttum hvötum (1–15)

    • Guð elskar glaðan gjafara (7)

9  Ég þarf varla að skrifa ykkur um hjálpina til* hinna heilögu  því að ég veit hve fús þið eruð, og ég hrósa ykkur fyrir það meðal Makedóníumanna þegar ég segi þeim að Akkea hafi verið tilbúin fyrir ári. Áhugi ykkar hefur verið mörgum þeirra til hvatningar.  En ég sendi bræðurna svo að hrós okkar reynist ekki innantóm orð heldur að þið verðið tilbúin eins og ég sagði að þið yrðuð.  Ef Makedóníumenn kæmu með mér og sæju að þið væruð ekki tilbúin yrði það skammarlegt fyrir okkur að hafa treyst á ykkur, og reyndar skammarlegt fyrir ykkur líka.  Mér fannst því nauðsynlegt að hvetja bræðurna til að koma til ykkar á undan okkur svo að hin rausnarlega gjöf sem þið lofuðuð verði tilbúin þegar við komum. Þá verður ljóst að þið gefið hana af örlátu hjarta en ekki tilneydd.  Ég á við það að sá sem sáir sparlega uppsker sparlega og sá sem sáir ríkulega uppsker ríkulega.  Hver og einn gefi eins og hann hefur ákveðið í hjarta sínu, ekki tilneyddur eða með tregðu,* því að Guð elskar glaðan gjafara.  Guð getur auk þess sýnt ykkur einstaka góðvild sína í svo ríkum mæli að ykkur skorti aldrei neitt heldur hafið meira en nóg af öllu sem þið þurfið til allra góðra verka.  (Skrifað stendur: „Hann hefur útdeilt örlátlega,* hann hefur gefið fátækum. Réttlæti hans varir að eilífu.“ 10  Sá sem sér akuryrkjumanninum ríkulega fyrir korni til að sá og brauði að borða mun sjá ykkur fyrir sáðkorni, margfalda það og auka uppskeru réttlætis ykkar.) 11  Þið hljótið ríkulega blessun svo að þið getið verið örlát á allan hátt, og menn þakka Guði þegar við komum með gjöfina frá ykkur. 12  Þessi þjónusta ykkar er ekki aðeins til þess ætluð að sjá vel fyrir þörfum hinna heilögu heldur verður hún líka til þess að margir þakka Guði. 13  Menn lofa Guð vegna þess að neyðaraðstoð ykkar vitnar um að þið hlýðið fagnaðarboðskapnum um Krist sem þið boðið, og einnig vegna þess að þið sýnið þeim og öllum öðrum örlæti með framlögum ykkar. 14  Þeir biðja fyrir ykkur og tjá hve vænt þeim þykir um ykkur vegna þess hve óviðjafnanlega góðvild Guð hefur sýnt ykkur. 15  Þökkum Guði fyrir ólýsanlega gjöf hans.

Neðanmáls

Orðrétt „þjónustuna við“.
Eða „ólund“.
Eða „vítt og breitt“.